Fótboltahausarnir á Fréttablaðinu og víðar

Logo

06/02/2014

6. 2. 2014

Mér var brugðið þegar heimsmeistari og íslandsmethafi í 800 m hlaupi kvenna var ekki kosinn íþróttamaður ársins í fyrra og þess í stað fótboltamaður sem er meðal okkar fremstu en á engum alþjóðlegum titli að fagna, né nær að standa út úr í því landi sem hann spilar.  Maður spurði sig um það hvort að […]

Mér var brugðið þegar heimsmeistari og íslandsmethafi í 800 m hlaupi kvenna var ekki kosinn íþróttamaður ársins í fyrra og þess í stað fótboltamaður sem er meðal okkar fremstu en á engum alþjóðlegum titli að fagna, né nær að standa út úr í því landi sem hann spilar.  Maður spurði sig um það hvort að íþróttafréttamenn hefðu getu til að meta aðrar íþróttir en vinsælustu boltaíþróttirnar.

Stórviðburður að hefjast…

Nú eru þeir að byrja Vetrarólympíuleikarnir, ein mesta íþróttahátíð veraldar þar sem glæsilegir keppendur sýna skaut2okkur hraða, fimi, þol og styrk sinn í fjölmörgum greinum sem merkilegt nokk eru ekki stundaðar verulega mikið hér á landi ísa.  Hvað sem því líður þá eru þetta verulega áhugaverðar íþróttir og við eigum nokkra keppendur sem forvitnilegt verður að fylgjast með.  Hjá mér er því þetta sá íþróttaviðburður sem er í hámæli þessa dagana og ég hélt að svo væri einnig hjá öllum íþróttfréttamönnum landsins, a.m.k. þeim sem skrifa í mest lesna fréttablað landsins, Fréttablaðið.

… en Fréttablaðið er fast...

Nei, því er ekki að dreifa.  Í dag byrja tvær greinar á leikunum, skíðafimi og listhlaup á skautum, daginn fyrir formlega setningu leikanna á morgun.  Það væri því kjörið að gefa leikunum stórt pláss í blaðinu í dag til að kynna IMG_1160_adj_150dpi-web-1til sögunnar greinar leikanna og hvaða keppendur munu koma til með að vera í fremstu röð, ásamt því hvar okkar fólk keppir.  Nei, það er bara tveimur 6 dálksentimetrum eytt í leikana í blaðinu í dag!  Það er örlítil frétt sem heitir „Sævar verður fánaberi!“ og þar er sagt að þessi tíðindi séu úr fréttatilkynningu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.  Ætli nokkur frétt um leikana hefði birst ef að tilkynningin hefði ekki verið send til Fréttablaðsins? Aumt er það.  Ég gleymdi víst að telja upp að einnig var álíka litlu plássi eytt í þá miklu íþróttafrétta að farangur Jamaíska liðsins á leikunum hefði týnst.  Alger ekki-frétt.

…með hausinn í fótboltatölfræði

Fótboltinn fær forgang sem fyrr.  Í óvenju miklu plássi fyrir íþróttir í Fréttablaðinu í dag (6.feb.14) sem nær yfir heila síðu og 2/5 úr næstu, er gerð risaúttekt á markaskori Íslendinganna fimm sem leika í hollensku úrvalsdeildinni.  Íþróttafréttamennirnir missa sig yfir því að það sé komið nýtt met af „íslenskum mörkum“ í erlendri deild frá því að síðasta met var slegið í Noregi.  Þetta er ekki neitt met sem keppt er í, heldur bara eins konar tölfræðihátíð íþróttafréttamanna Fréttablaðsins.  Mikið er lagt í flotta grafík af köppunum fimm (4×17 dálksentimetrar), svo mikið að ágætis grein um Vetrarólympíuleikanna hefði rúmast fyrir í myndplássinu. Það eina sem er í raun merkilegt við þetta er að Alfreð Finnbogason er að ná því að skora 20 mörk tvö leiktímabil í röð og það er búið að fjalla um það ítrekað áður.  Það nægði greinilega ekki og nú þurfti að halda eins konar markaveislu þó að Vetrarólympíleikar séu nú að hefjast.  Þar að auki var fótboltastjörnufrétt um að Beckham væri að stofna nýtt félag í Miami.  Frétt sem er búin að vera í fréttum áður á netinu.  Duhh…. !

Rörsýni kapitalískra fjölmiðla

Mér sýnist að þarna endurspeglist sú þröngsýni sem margir íþróttafréttamenn og stjórnendur fjölmiðla landsins skaut4hafa á íþróttir.  Í sjónvarpi er þetta ekkert skárra.  Það er fótbolti, handbolti og gólf sem fá mikinn meirihluta tímans.  Svo kemur körfubolti og hvað.. bardagaíþróttir? Við eigum Evrópumeistara í hópfimleikum en sáralítið er sýnt frá þeirri góðu íþrótt.  Það er aðeins að skána varðandi óhefðbundnar greinar eins og cross-fit en skíði?! – hvað er það aftur?  Íþróttin þar sem menn renna sér niður á tveimur hálum spítum?  Þeir dagar eru liðnir þegar Bjarni Fel gaf okkur reglubundnar fréttaræmur frá heimsbikarmótinu  á skíðum og helstu viðburðum listskauta.  Frjálsar íþróttir eiga einnig undir högg að sækja þó að RÚV standi sig ágætlega á sumrin í að sýna frá demantamótunum.  Stærstu og vinsælustu íþróttirnar eru eltar sem er eðlilegt upp að vissu marki.  Þegar gæðaviðburðir í öðru eru hunsaðir lyktar þetta af rörsýni og kapitalisma.  Það er eins og það eina sem komist að í þessum fjölmiðlum sé söluviðhorfið.

Konur og íþróttir í fjölmiðlum – óbreytt staða

Í fyrravetur vakti það athygli að börn á leikskóla gerðu úttekt á því hversu mikla athygli íþróttir kvenna fengju í fjölmiðlum og niðurstaðan var dapurleg.  Þetta var tilkynnt og var sjónvarpað frá því þegar íþróttafréttamenn Stöðvar 2 tóku við áskorun barnanna um að breyta þessu.  Það var brosað og vel tekið í erindið. Svo liðu dagarnir og ekkert breyttist.  Mánuðir liðu og ekkert breyttist.  Aldrei kom fram nein áætlun eða tilkynning um að ákveðnir dagskrárliðir yrðu teknir upp til að breyta þessu.  Brosið var lygi.  Stöð 2 hafði engan áhuga á því að breyta þessu.

Annað apparat fyrir val á Íþróttamanni ársins?

Eru íþróttafréttamenn landsins hæfir til að velja Íþróttamann ársins?  Eflaust eru það ýmsir á meðal þeirra en þessi fréttamennska í Fréttablaðinu og sú einhæfa dagsskrá sem Stöð 2 sýnir gefur mér þá tilfinningu að íþróttafréttamennska hérlendis sé einfaldlega orðin það einhæf og léleg að henni sé ekki treystandi til að velja Íþróttamann ársins.  Það þarf ábyggilegri dómnefnd til að gæta meiri sanngirni og dýpri skoðun í málið.  Þessi íþróttafréttamennska kemst að minnsta kosti ekki upp úr undanriðlum í minni kokkabók.  Það er dapurt að sjá að metnaður til þess að vanda til verka fyrir sem flestar íþróttir er hverfandi.

Deildu