Woody Allen og yfirfærsla andúðar

Logo

Kristinn Theodórsson

Kristinn Theodórsson er fæddur árið 1977 í Reykjavík. Hann er verslunarmaður og vel kvæntur þriggja barna faðir. Kristinn er varamaður í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á ÍslandiNetfang: kiddithe@skodun.is

04/02/2014

4. 2. 2014

Sumir eru þessa dagana að lýsa því yfir að þeir hafi aldrei fílað Woody Allen myndir, jafnvel alltaf þótt hann hundleiðinlegur eða pirrandi. Það finnst mér svolítið forvitnileg hegðun. Auðvitað þarf fólk ekki að meina sérlega mikið með þessu. Ekki frekar en fólk meinar endilega mikið með því að lýsa yfir ánægju með kvikmyndir einhvers […]

haturSumir eru þessa dagana að lýsa því yfir að þeir hafi aldrei fílað Woody Allen myndir, jafnvel alltaf þótt hann hundleiðinlegur eða pirrandi. Það finnst mér svolítið forvitnileg hegðun.

Auðvitað þarf fólk ekki að meina sérlega mikið með þessu. Ekki frekar en fólk meinar endilega mikið með því að lýsa yfir ánægju með kvikmyndir einhvers afar geðugs og gjafmilds leikstjóra. En viðbrögðin við yfirlýsingunni hafa breyst. Eitt sinn hefði það jafnvel þótt frekar hallærislegt að segjast aldrei hafa fílað neinar Woody Allen myndir. En ekki núna.

Ímyndum okkur að eitthvað hroðalegt kæmi upp úr fylgsnum sögunnar um Stanley Kubrick eða Orson Welles. Væri þá skyndilega í framhaldi dálítið gott að segja að maður hafi aldrei kunnað að meta neinar Kubrick eða Welles myndir; þær hafi allar verið hallærislegar og leiðinlegar? – „Citizen Kane, það er mynd fyrir sjálfupptekna fávita og Eyes Wide Shut greinilega mynd um ömurlegar fýsnir Kubricks sjálfs“.

Nei, maður sér strax að þetta gengur ekki upp. Fylgi þessu ekki einhver frábær greinargerð er viðkomandi ennþá í raun að segja að hann hafi ekkert vit á kvikmyndum – svona gróft sagt. En hann er líka að lýsa andúð sinni á glæpnum og öllu sem viðkemur gerandanum. Það getur enginn amast við því og þess vegna verður skyndilega í lagi að segja undarlega hluti um kvikmyndasöguna.

Þetta er kannski gott og blessað í ljósi þess að við viljum ala á andúð á afbrotunum. En sú aðferð er líka oft misnotuð. Margir nota t.d. barnagirnd til að níðast á samkynhneigðum. Hatrið á öðru er fært yfir á hitt. Um þetta er mikið rætt í Rússlandi.

Hér gildir að skilja að samhengið er ekkert og yfirfærslan því ósanngjörn. Hún bitnar auk þess alveg hræðilega á saklausu fólki. En kannski er það einfaldlega sjálf yfirfærslan sem við þufum að venja okkur af. Því hvort sem hún er meiðandi eða ekki er hún oftast bull.

Deildu