Woody Allen og reiptogið í netheimum

Logo

Kristinn Theodórsson

Kristinn Theodórsson er fæddur árið 1977 í Reykjavík. Hann er verslunarmaður og vel kvæntur þriggja barna faðir. Kristinn er varamaður í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á ÍslandiNetfang: kiddithe@skodun.is

02/02/2014

2. 2. 2014

Margir eru hugsi þessa stundina yfir ásökunum á hendur kvikmyndaleikstjóranum Woody Allen. Dóttir þeirra Allens og Miu Farrow, Dylan Farrow, segir að Allen hafi leitað á sig kynferðislega þegar hún var 7 ára gömul og almennt hegðað sér mjög undarlega með henni, látið hana sjúga á sér fingur og fleira þess háttar. Eins og alltaf […]

fröken réttlætiMargir eru hugsi þessa stundina yfir ásökunum á hendur kvikmyndaleikstjóranum Woody Allen. Dóttir þeirra Allens og Miu Farrow, Dylan Farrow, segir að Allen hafi leitað á sig kynferðislega þegar hún var 7 ára gömul og almennt hegðað sér mjög undarlega með henni, látið hana sjúga á sér fingur og fleira þess háttar.

Eins og alltaf þegar upp koma ásakanir um kynferðisbrot fer í gang umræða í netheimum um hvort viðkomandi sé sekur eða saklaus, og ennfremur um hvort það sé yfirhöfuð rétt að mynda sér afstöðu til slíkra mála.

Segja má að hópar skiptist svo:

  1. Sumir telja það skyldu sína að trúa alltaf þolendum, þar sem „þolandi“ virðist vera skilgreindur sem: hver sá aðili sem tilkynnir ofbeldi gegn sér.
  2. Aðrir minnast þess að fólk á að teljast saklaust þangað til sekt er sönnuð og neita sér því staðfastlega um að tala um viðkomandi sem annað en saklausan, sem um leið heldur rækilega opnum þeim dyrum að ásökunin sé upplogin eða á misskilningi byggð.
  3. Enn aðrir mynda sér skoðun á sekt þess ásakaða út frá meintum sönnunargögnum og sögu viðkomandi. Hafi viðkomandi t.d. áður orðið uppvís að einhverju misjöfnu af tengdu tagi þykir fólki oft sem það megi fella dóma byggða á því – eða í það minnsta segjast vera með rökstudda afstöðu til málsins.

Andstæð sjónarmið

Leið 1 er afleiðing af  því hve erfitt það er að reka mál sem eru raun fólgin í orði gegn orði. Samfélagið þykir ekki eiga almennilegt svar við því að fórnarlömb ofbeldis geta þurft að horfa upp á gerendurna ganga lausa og fullyrða jafnvel að um tómar lygar sé að ræða sem hafi sannast þegar ekki tókst að sækja málið.

Leið 2 heldur í heiðri þeirri gamalgrónu hugmynd að betra sé að 100 sekir menn gangi lausir en að 1 saklaus sé fangelsaður.

Leið 3 er augljóslega ekki sérlega burðug. Það getur verið nógu erfitt fyrir fólk með beinan aðgang að vitnum og sönnunargögnum að átta sig á málum, hvað þá þegar það hefur aðeins aðgang að hraðsoðnum blaðagreinum um málið og er að dæma úr fjarska. Upphrópanir fólks um sekt eða sakleysi hafa því lítið annað gildi en skemmtanagildi. Það að hafa hátt um sekt einhvers sem er saklaus hefur hinsvegar verið kallað mannorðsmorð og það getur því verið afskaplega grátt gaman að taka þátt í slíkum æsingi.

Hvað skal gjöra?

Undirritaður hefur samúð með mörgum sjónarmiðum fólks sem tjáir sig um þessi mál. Eitt prinsipp útlokar ekki endilega annað og stundum er lífið einfaldlega mótsagnarkennt. Það vill enginn að saklausir séu dæmdir sekir, en það vill heldur enginn að slíkt prinsipp komi í veg fyrir að unnt sé að sigrast á óréttlæti gagnvart börnum og fólki sem lendir í ofbeldi.

Reiptogið er aðallega milli þeirra sem þora ekki að hvika millimetra frá reglunni um að sekt skuli sönnuð og þeirra sem krefjast þess að í sumum málum sé það að einhverju leyti gert.

Hvernig fólk með þessi sjónarmið á að ná saman er ekki gott að segja. En það er ljóst að þótt sumt fólk vilji trúa þolendum, þá veit það vel að það getur ekki gefið sér sekt þess ásakaða. Það er líka ljóst að þótt sumt fólk vilji alltaf halda þeim möguleika opnum að sá ásakaði geti verið saklaus, þá getur það ekki gefið sér að verið sé að ljúga.

Ef fólk temur sér að tjá sig með varfærnum og heiðarlegum hætti um málin ættu átök fylkinganna tveggja ekki að þurfa að vera eins bitur og þau virðast oft vera. Því þá fær hvorug fylkingin á sig yfirbragð þeirrar þriðju sem allt þykist skilja og vita eftir að hafa lesið fáeinar slúðurgreinar á netinu. Það er strax skref í rétta átt.

Deildu