Russell Brand byltingin

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/10/2013

25. 10. 2013

Viðtalið við Russell Brand, sem fer eins og eldur í sinu um Fésbókina þessa dagana, er hressandi. Þar fjallar hann hispurslaust mikilvæg mál eins og misskiptingu, spillingu og umhverfismál. Ég er sammála honum að kerfið er rotið og víða er illa farið með venjulegt fólk. Hjartanlega sammála! Niðurstaða hans er þó einfeldningsleg, ef ekki hættuleg. […]

Russell Brand

Viðtalið við Russell Brand, sem fer eins og eldur í sinu um Fésbókina þessa dagana, er hressandi. Þar fjallar hann hispurslaust mikilvæg mál eins og misskiptingu, spillingu og umhverfismál. Ég er sammála honum að kerfið er rotið og víða er illa farið með venjulegt fólk. Hjartanlega sammála! Niðurstaða hans er þó einfeldningsleg, ef ekki hættuleg. Í hnotskurn segir hann: „Ekki kjósa af því að allir stjórnmálamenn eru fífl.“ Það eina sem dugar er „BYLTING“.

Það er skiljanlegt og auðvelt að vera reiður og þreyttur á ástandinu. Það er létt og losandi að segja „Fuck you“ við KERFIÐ. Erfiðara, en gagnlegra, er að taka ábyrgð og gera eitthvað í málunum. Setja sig inn í málefni líðandi stundar, taka upplýsta afstöðu og leggja svo sitt af mörkum til að gera heiminn betri.

Kerfið er fólk og fólk er kerfið. Við berum öll samábyrgð á því hvernig kerfið, samfélagið okkar, er. Þá skiptir meðal annars miklu máli hvernig við nýtum atkvæði okkar. Það er nefnilega algjört kjaftæði að allir stjórnmálaflokkar séu eins, öll hugmyndafræði sú sama og að allir stjórnmálamenn séu fífl. Sá sem neitar að kjósa er í raun ekki að gera neitt annað en að gefa öðrum vald yfir sér. Það þýðir ekki að sitja heima á kjördag og kvarta svo yfir ömurlegri stefnu stjórnvalda.

Málflutningur Russell Brand minnir mig nokkuð á einræður fólks hér á landi gegn „fjórflokknum“ og á háværar kröfur um „eitthvað annað“. Þessi stanslausi áróður sem gengur út á það að allir stjórnmálaflokkar séu eins er rugl og þessi endalausa krafa um „eitthvað annað“ er ekki gagnleg ef maður hefur ekki hugmynd um hvað þetta „annað“ á að vera. Slík krafa getur reyndar verið hættuleg.

Bylting byggð á reiði og uppgjöf gagnvart lýðræðinu getur nefnilega hæglega leitt til popúlisma, fasisma, einræðis og kúgunar.

Annars mæli ég með viðtalinu eins og áður segir. Það er hressandi:

 

https://www.youtube.com/watch?v=lLYcn3PuTTk

Deildu