Ekkert mál að lækna Landspítalann

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/10/2013

25. 10. 2013

Mikið er fjallað um slæma stöðu Landspítalans. Sagt er að „allir“ hafi skilning á ástandinu og vilji forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Það er lygi, eins og er augljóst ef maður les fjárlagafrumvarpið eða hlustar á suma fulltrúa stjórnarflokkanna. Það sorglega við þessa stöðu er að það er ekkert mál að lækna Landspítalann. Þetta eru engin […]

Landspitali_logoMikið er fjallað um slæma stöðu Landspítalans. Sagt er að „allir“ hafi skilning á ástandinu og vilji forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Það er lygi, eins og er augljóst ef maður les fjárlagafrumvarpið eða hlustar á suma fulltrúa stjórnarflokkanna.

Það sorglega við þessa stöðu er að það er ekkert mál að lækna Landspítalann. Þetta eru engin geimvísindi. Ef það er hægt að lækka almenna skatta sem kostar hið opinbera fimm milljarða á ári þá er líka hægt að sleppa því og setja peningana í spítalann. Ef það er hægt að lækka skatta og gjöld á fyrirtæki og ríkt fólk þá er líka hægt að sleppa því en efla spítalann í staðinn.

Eini vandinn er stjórnmálamenn, hagsmunaaðilar og ekki síður einstaklingar sem neita að borga nóg til samfélagsins svo hægt sé að reka almennilega almannaþjónustu.

Það voru Íslendingar sem tóku sig saman og kusu flokka sem vildu lækka skatta og skera niður í opinberri þjónustu. Svo virðist það koma stórum hluta þessara sömu Íslendinga á óvart að þessir flokkar ætli einmitt að gera nákvæmlega það. Lækka skatta og skera niður.

Hvers vegna kaus fólk þessa flokka? Er fólk virkilega svo sjálfselskt að það vill frekar græða nokkur hundruð krónur á lægri sköttum en tryggja öllum öfluga velferðarþjónustu? Er fólk virkilega svo vitlaust að það heldur að vel rekin fyrirtæki fari á hausinn ef þau þurfa að borga aðeins hærri skatta eða greiða fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum? Er ennþá til fólk sem veit ekki betur og trúir því að brauðmolakenningin virki og að stórfelldur niðurskurður hjá hinu opinbera sé skynsamlegur á krepputímum?

Ég spyr vegna þess að fólk ætti að vita betur. Það er til nóg af peningum í þessu landi og ekkert mál að efla Landspítalann. Það eina sem þarf er viljann.

Deildu