Heimalærdómur barna er gagnslaus og jafnvel skaðlegur

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/08/2013

16. 8. 2013

Nú þegar skólarnir eru að byrja og foreldrar þeysast um borg og bæi til kaupa skólatöskur handa börnunum sínum er verðugt að minna á að skólatöskur ættu að vera óþarfar. Hvers vegna? Vegna þess að heimalærdómur barna er gagnslaus og jafnvel skaðlegur. Skólatöskur ungra barna geta orðið mjög þungar enda oft fullar af skólabókum og […]

skólataskaNú þegar skólarnir eru að byrja og foreldrar þeysast um borg og bæi til kaupa skólatöskur handa börnunum sínum er verðugt að minna á að skólatöskur ættu að vera óþarfar. Hvers vegna? Vegna þess að heimalærdómur barna er gagnslaus og jafnvel skaðlegur.

Skólatöskur ungra barna geta orðið mjög þungar enda oft fullar af skólabókum og heimaverkefnum. Sum börn þurfa að rogast með mörg kíló á bakinu á hverjum degi . Eftir að átta til níu tíma vinnudegi (skóli + skólagæsla) lýkur fara börnin heim og þurfa þá að leysa heimaverkefni með oft þreyttum foreldrum sem hafa mismikla þolinmæði og getu til að aðstoða þau.

Svona hefur skólastarf verið í flestum skólum í mörg ár þrátt fyrir að rannsóknir sýni aftur og aftur að heimalærdómur er yfirleitt gagnslaus. Hann bætir ekki námsárangur nemenda. Sérstaklega ekki í yngri bekkjum grunnskóla. Þvert á móti má færa sterk rök fyrir því að heimalærdómur sér skaðlegur.

Ókostirnir við heimanám
Flestir foreldrar (og nemendur) þekkja ókosti heimanáms. Nefni ég hér nokkra augljósa ókosti.

[pullquote]Foreldrar og forráðamenn eru ólíkir. Menntun, færni, frítími og heilsa foreldra er misjöfn og því er geta þeirra til að aðstoða börnin sín við nám mismunandi. Afar óeðlilegt er því að nám barna sé að veigamiklum hluta í höndum forráðamanna.[/pullquote]Gæðastundum foreldra og barna fækkar. Í staðinn fyrir að gera eitthvað skemmtilegt saman eftir vinnu (skóli er vinna) þurfa foreldrar að sjá til þess að börnin læri heima það sem þau áttu að læra í skólanum. Heimanám getur valdið togstreitu og pirringi milli foreldra og barna. Alveg að óþörfu.

Foreldrar og forráðamenn eru ólíkir. Menntun, færni, frítími og heilsa foreldra er misjöfn og því er geta þeirra til að aðstoða börnin sín við nám mismunandi. Afar óeðlilegt er því að nám barna sé að veigamiklum hluta í höndum forráðamanna.

Heimalærdómur getur dregið úr áhuga barna til að læra. Eins mótsagnakennt og það hljómar þá er það þannig að of mikið skyldunám utan skóla kann að fæla börn frá því að verða sér út um þekkingu á eigin forsendum. Börn eru í eðli sínu mjög forvitinn og ef þau fá frið og næði til þess að leita sér þekkingar þá gera þau það. Ekki fyrir eitthvað próf eða verkefni heldur af áhuga. Íþyngjandi heimalærdómur býr til neikvæða tengingu við skóla og nám. Mörg börn fara að líta á skólann og nám sem eitthvað „leiðinlegt“.

Vegna heimalærdóms þurfa börn að ganga með oft þungar skólatöskur til og frá skóla. Skólatöskur eru stundum svo þungar að til er hópur sérfræðinga (þar á meðal iðjuþjálfar eins og ég) sem ráðleggur fólki hvernig töskur á að kaupa svo þyngslin fari ekki illa með litlu líkamana. Þar að auki eru góðar skólatöskur sem styðja vel við bak, mjóhrygg og axlir rándýrar. Allur þessi burður barna og fjárútlát eru óþarfi vegna þess að án heimalærdóms er lítil þörf fyrir dýrar skólatöskur.

Hugsanlega væru allir þessir ókostir og fleiri til réttlætanlegir að einhverju marki ef heimalærdómur skilaði einhverjum mælanlegum árangri. Vandinn er að árangurinn er nánast enginn og stundum beinlínis neikvæður.

Meintir kostir heimanáms
[pullquote]Spyrjum börnin reglulega hvernig þeim líður í skólanum og um hvað þau hafa verið að gera. Verum í góðu sambandi við kennara og fylgjumst vel með hvernig börnunum gengur og þá sérstaklega hvernig þeim líður. Líðan barna í skólum er það sem skiptir mestu máli.[/pullquote]Augljóslega læra börn meira ef þau gera heimaverkefni! Til þess að verða góður í einhverju þarftu að æfa þig. Því meira því betra! Eru þetta ekki augljós sannindi? Svarið er nei!

Árangur heimalærdóms hefur einfaldlega verið rannsakaður töluvert og niðurstaðan er sú að heimalærdómur skilar ekki neinum árangri sem skiptir máli. Meiri heimalærdómur skilar heldur ekki meiri árangri en minni eða enginn heimalærdómur. Sumar rannsóknir sýna reyndar að því meira sem börnin þurfa að læra heima því verr gengur þeim í skóla. Tengsl milli efnahaglegrar- og félagslegrar stöðu foreldra og námsárangurs eru miklu sterkari en á tengslin á milli heimalærdóms barna  og námsárangurs þeirra.

Til eru rannsóknir sem benda til þess að heimalærdómur skili einhverjum árangri en sá árangur er yfirleitt það lítill að þó að þær niðurstöður væru réttar myndu þær ekki réttlæta þá áherslu sem oft er lögð á heimaverkefnin.  Ókostirnir eru of margir.

Hendum skólatöskunum
Af hverju eru börn reglulega send heim með verkefni ef heimalærdómur skilar engum árangri? Þetta er góð spurning sem verðugt er að spyrja sem flesta kennara og skólastjórnendur út í.

Ef skólayfirvöld geta ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti að heimalærdómur sé nauðsynlegur og bæti líf barnanna legg ég til að við hendum skólatöskunum og notum frítíma okkar til að gera eitthvað skemmtilegt, uppbyggilegt og fræðandi með börnunum okkar.

Með þessu er ég ekki að segja að forráðamenn eigi ekki að taka þátt í skólagöngu barna sinna. Ég er heldur ekki að tala gegn því að börn lesi fyrir foreldra sína heima eða sýni þeim hvaða verkefni þau eru búin að leysa í skólanum. Ég er aðeins að benda á að hefðbundinn heimalærdómur og heimaverkefni eru gagnslaus og því óþarfi.

Hvernig líður barninu?
Auðvitað er gagnlegt að við sýnum námi barna okkar áhuga og athygli. Spyrjum börnin reglulega hvernig þeim líður í skólanum og um hvað þau hafa verið að gera. Verum í góðu sambandi við kennara og fylgjumst vel með hvernig börnunum gengur og þá sérstaklega hvernig þeim líður. Líðan barna í skólum er það sem skiptir mestu máli.

Vísanir:

Ítarefni og gagnlegar heimildir um heimanám:

Deildu