Þegar ég átti að lækna botnlangakast með Coke og næstum dó

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

05/06/2013

5. 6. 2013

Sif Sigmarsdóttir skrifar áhugaverða grein um Læknavaktina sem birtist á Vísi í dag. Hún óskar eftir reynslusögum í pósti. Ég ætlaði að senda henni þessa en ákvað í staðinn að birta sögu mína hér. Það var nokkrum dögum fyrir jól árið 2003 sem ég fékk brjálæðislega verki í kviðarholi. Þrem dögum eftir að verkirnir byrjuðu […]

landspitalinn (1)Sif Sigmarsdóttir skrifar áhugaverða grein um Læknavaktina sem birtist á Vísi í dag. Hún óskar eftir reynslusögum í pósti. Ég ætlaði að senda henni þessa en ákvað í staðinn að birta sögu mína hér.

Það var nokkrum dögum fyrir jól árið 2003 sem ég fékk brjálæðislega verki í kviðarholi. Þrem dögum eftir að verkirnir byrjuðu var ég einn heima og alveg að drepast. Þar sem ég hafði aldrei upplifað svona sársauka og ég 97% viss um að ég væri ekki óléttur ákvað ég að hringja á Læknavaktina.

Þar svaraði kona sem hlustaði á raunir mínar. Mér leið eins og ég væri að hringja í Þjóðarsálina. Ég sagði henni að verkurinn væri gífurlegur, að ég gæti ekki rétt úr mér, maginn viðkvæmur fyrir allri snertingu og það sem meira er þyrfti ég ekki að kúka. Ég man að mér fannst eitthvað vandræðalegt að segja frá því.

Konan, sem mig minnir að hafi verið afskaplega vingjarnleg, tjáði mér að þetta væri líklegast magakveisa og hvatti mig til að drekka gos (ég er ekki að grínast). Ég þakkaði aðstoðina og fékk mér Coke.

Nokkrum tímum seinna hafði ástand mitt versnað og ég hringdi aftur hálf grátandi í Læknavaktina. Þá svaraði önnur kona. Hin líklegast búin með vaktina sína. Ég byrjaði að gefa þessari nýju sömu lýsingar og áður en fékk ekki að klára söguna. Hún stoppaði mig af og sagði „bíddu aðeins…“ (sem var mikill léttir þar sem mig langaði ekki til að segja aftur frá getuleysi mínu á klósettinu). Ég beið í örskamma stund og öskraði smá í hljóði. Nokkrum sekúndum síðar heyrðist „það er sjúkrabíll á leiðinni, á hvaða hæð ertu?“.

Ferðin með sjúkrabílnum var dásamleg. Ég bjó í Grafarvogi og þar spretta hraðahindranir upp eins og gorkúlur. Í hvert sinn sem sjúkrabíllinn keyrði yfir eina slíka emjaði ég af sársauka og spurði sjálfan mig af hverju í ósköpunum bílstjórinn ákvað að fara þá leið í gegnum úthverfið þar sem hraðahindranir virtust beinlínis fjölga sér. Bílstjórinn góði fengi ekki jólakort í ár.

Á sjúkrahúsinu var mér tilkynnt að ég væri með botnlangabólgu og þyrfti að fara strax í aðgerð. „Ertu búinn að drekka eitthvað?“ spurði einhver nafnlaus spítalastarfsmaður. „Ehh, já Coke samkvæmt ráðleggingum Læknavaktarinnar!“ sagði ég. Fresta varð aðgerðinni um nokkra tíma. Það má víst ekki drekka neitt fyrir svæfingu… Ég fékk morfín sem hafði engin áhrif á verkina. Eftir nokkra tíma, öskur, grátur og meira morfín (sem virtist aldrei hafa nein sérstök áhrif á verkina) var ég sendur í aðgerð…

Nokkrum vikum síðar var lífið gott á ný. Ég fór á pöbbinn og fékk mér bjór, hugsanlega tvo. Þegar leið á kvöldið kallaði á mig maður sem ég kannaðist ekkert við: „Hey, ert þú ekki Sigurður?“ Ég starði á manninn í drykklanga stund, velti fyrir mér hvort ég væri nokkuð rangt skráður á einkamal.is, og svaraði síðan „ehh jú ég heiti Sigurður. Hver ert þú fyrirgefðu?“ –  „Ha ha, ég er skar þig upp um daginn. Hvernig hefur þú það?“„Já ok“ sagði ég undrandi og þakkaði síðan fyrir mig. Hvernig átti ég að þekkja mann sem skar mig upp? Ég var sofandi í aðgerðinni!

Læknirinn hélt áfram: „Þú varst heppinn. Botnlanginn var næstum sprunginn. Ef það hefði gerst hefði þetta verið töluvert flóknari aðgerð.“ Síðan bætti læknirinn við nánari upplýsingum um það hvað það getur verið hættulegt ef botnlangi springur. Ég hefði víst getað dáið!

Undrandi og ringlaður eftir allar þessar upplýsingar lagði ég frá mér bjórinn, fór heim og fékk mér Coke.

Deildu