Kröfur kjósanda

Logo

Valgarður Guðjónsson

Valgarður Guðjónsson vinnur við hugbúnaðargerð hjá Staka. Valgarður er söngvari Fræbbblanna og meðlimur í Siðmennt, Vantrú og Sambindinu.Eiginkona Valgarðs er Iðunn Magnúsdóttir, sálfræðingur, og synirnir Andrés Helgi, Guðjón Heiðar og Viktor Orri. Netfang: valgardur@skodun.is

20/03/2013

20. 3. 2013

Eftirspurnin eftir atkvæðinu mínu í komandi þingkosningum fer sívaxandi með hverju framboðinu sem bætist við. Ég hef enn ekki ákveðið hvernig ég ráðstafa þessu eina atkvæði mínu en sum framboð eru óneitanlega líklegri en önnur – eða kannski frekar sum eru ólíklegri en önnur. En ég er að sjálfsögðu til í að skipta um skoðun […]

AlþingiEftirspurnin eftir atkvæðinu mínu í komandi þingkosningum fer sívaxandi með hverju framboðinu sem bætist við.

Ég hef enn ekki ákveðið hvernig ég ráðstafa þessu eina atkvæði mínu en sum framboð eru óneitanlega líklegri en önnur – eða kannski frekar sum eru ólíklegri en önnur.

En ég er að sjálfsögðu til í að skipta um skoðun og enn hef ég engan útilokað.

Nú geri ég mér auðvitað grein fyrir því að mitt atkvæði eitt og sér er ansi léttvægt og á ekki von á að mörg framboðanna leggi í mikla vinnu til að ná í þetta eina atkvæði.

En mig grunar að ég sé ekki einn um að gera ákveðnar lágmarkskröfur til framboða. Það væri gaman að fá víðtækan stuðning við ákveðnar grunn kröfur til stjórnmálahreyfinga – kröfur sem við getum gert hvar í flokki sem við stöndum, hverjar sem lífsskoðanir okkar eru og hvort við teljum okkur til „hægri“ eða „vinstri“.

Fyrsta sían sem ég set á hverjir koma til greina er nefnilega eitthvað sem ég vona að sem flestir geti fallist á. Hún er reyndar í nokkrum liðum en er einhvern veginn svona:

  • í stefnuskrá framboðsins kemur skýrt fram hvað á að gera og hver markmiðin eru
  • í stefnuskrá eru markmiðin skýr og mælanleg
  • í stefnuskránni fram kemur skýrt fram hvernig á að leysa þau verkefnin og ná þeim markmiðum sem tilgreind eru
  • stefnuskráin er í innbyrðis samræmi

Og þegar á þing er komið

  • þingmenn þurfa að geta rætt málefnalega, tekið rökum og skipt um skoðun ef ný rök eða betri upplýsingar koma fram
  • þingmennskan er ekki keppni, þingmenn standa ekki alltaf með „sínu“ fólk, eru ekki alltaf á móti „hinum“ og það er ekki sérstakt keppikefli að „spæla“ andstæðinginn (eins og það var kallað í gamla daga) í umræðum eða gera lítið úr honum
  • þingflokkurinn beitir ekki „flokksaga“ og hefur skilning á því að mismunandi skoðanir geti þrifist innan þingflokka
  • þingflokkurinn beitir ekki málþófi
  • þingflokkurinn tekur vilja þjóðarinn fram yfir eigin hagsmuni

Auðvitað reynir ekki á þessi seinni atriði fyrr en eftir kosningar. En ég vil loforð framboða um að þetta verði skilyrðislaust virt.

 

Deildu