Hamingjan er hér

Logo

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir er fædd 1986 á Akranesi, á þrjá syni, tvo ketti en bara einn mann. Hún starfar sem félagsráðgjafi og hefur áhuga á samskiptum, samfélögum, manneskjum, pólitík og öðrum lífsins gæðum.

20/03/2013

20. 3. 2013

Í dag er alþjóðlegi hamingjudagurinn! Á slíkum degi er gott að staldra við og hugsa hvort maður sé hamingjusamur í því sem maður er að gera. Hvað er það í lífinu sem veitir manni lífsgleði og hamingju. Ef maður er ekki eins hamingjusamur og maður vildi vera, með hvaða hætti væri þá hægt að hámarka […]

Í dag er alþjóðlegi hamingjudagurinn! Á slíkum degi er gott að staldra við og hugsa hvort maður sé hamingjusamur í því sem maður er að gera. Hvað er það í lífinu sem veitir manni lífsgleði og hamingju. Ef maður er ekki eins hamingjusamur og maður vildi vera, með hvaða hætti væri þá hægt að hámarka hamingjuna. Gott er þá að fara til baka í reynslubankann og reyna að átta sig á hvenær maður var sem hamingjusamastur, hvað var að gerast í lífinu þá?

Það er algengt að fólk telji hamingjuna ávalt vera fyrir næsta horn, þegar það kemst í sumarfrí, getur leyft sér að fara út að borða, klárar námið sitt, kemst í aðra vinnu, eignast eitt barn í viðbót, málar eldhúsið o.s.frv. En hamingjan snýst í raun frekar um að skapa sér gleði í hversdagsleikanum. Líða almennt vel í daglegu lífi og njóta litlu hlutana. Þó hríslast um mann hamingjan við að ná mikilvægum markmiðum en sú gleði stendur yfirleitt langt yfir skammt. Stórir áfangar skila manni vissulega hamingju og því mikilvægt að setja sér markmið í lífinu. Þá virðist hamingja virðist að miklu leyti ráðast af sambandi einstaklinga við annað fólk. Þannig er fólk sem er ánægt í hjónabandi eða sambandi líklegt til að vera hamingjusamt sem og fólk sem er í góðum tengslum við ættingja og vini.happiness_400

Það má segja að Íslands sé dæmi um neysluþjóðfélag. Í slíku þjóðfélagi er efnishyggja oft tengd við hamingju fólks. Það er að segja, fólk telur sig verða hamingjusamara með að eiga pening og þegar það eignast eitthvað ákveðið (skó!). Slík gæði gangast undir nafninu sýndargæði og eru til þess fallin að gera eigandann/kaupandann hamingjusamari. Því að með slíkum sýndargæðum hefur einstaklingurinn tök á því að styðja við lífsgildin sín sem þurfa þó ekki að vera efnisleg gildi. Til dæmis gæti það talist til lífsgilda að hafa áhuga á fjallgöngum, sýnargæði sem styðja við þau gildi væru þá t.d. þörfin fyrir nýjum og flottum útivistarbúnaði.  Í uppsveiflunni fyrir hrun (2004 – 2007) bar þó nokkuð á þessu. Fólk langaði að kaupa stærri og betri hús fyrir börnin sín, fara í utanlandsferðir með fjölskyldunni, gefa börnunum sínum flott leikföng o.s.frv. Það er þó áhugavert að á meðan íslenska þjóðin hafi efni á allskyns munaði og var ein af ríkustu þjóðum heims jókst notkun geðdeyfalyfja og var mun meiri í uppsveiflunni en hjá samanburðarþjóðum.

 

Íslensk orðabók skilgreinir hamingju sem gæfa , gengi, gifta, heill, lán og sæla. Áður fyrr vísaði hamingja til einhvers sem viðkomandi gat ekki stjórnað og var oft í líkingu við verndarvætti , heilladís eða fylgju. Nú á dögum vísar hamingja frekar til hugarástands sem fólk skapar sjálft.

 

Hamingja og hagvöxtur

Hugmyndin um að hamingja sé góð vísbending um stöðu samfélags er ekki ný af nálinni en Jeremy Bentham (1748 – 1832) benti á að markmið stjórnvalda ætti að snúa að því að auka hamingju þjóðar. Í mörg ár hefur velferð þjóðar verði metin út frá hagvexti hennar. Út frá kenningum um velferð, samanber Amatrya Sen (1999) ná efnahagsleg kjör ein og sér ekki að útskýra hvað felst í velferð. Það að hagvöxtur þjóðar aukist þýðir ekki endilega að hamingja og velferð almennings sé meiri. Þó svo að hagvöxtur eða landsframleiðsla hafi aukist og dafnað stöðugt í flestum löndum (fyrir efnahagskreppu a.m.k.) benda rannsóknir á að velferð hafi ekki alltaf fylgt í kjölfarið. Einstaklingar geta jafnvel verið verr settir þrátt fyrir stöðugan hagvöxt. Ástæðurnar fyrir því geta verið margþættar en ójöfn dreifing tekna er sá þáttur sem er líklegur til að hafa þar áhrif. Samkvæmt Veenhoven (1991) er samband milli hagvaxtar og hamingju sveiglínulegt (e. polynomial). Þó að tekjur einstaklinga aukist þýðir það ekki að hamingja aukist með sama hætti. Auknar tekjur auka vissulega hamingju upp að ákveðnu marki. Þegar grunnþörfum hefur verið mætt dregur þó verulega úr fylgni milli tekna og hamingju. Sama virðist eiga við um hamingju þjóðar. Þegar grunnþörfum þegnanna hefur verið mætt bætir aukinn hagvöxtur hagkerfisins litlu eða engu við hamingju.0801_happiness_630x420

 

Mælingar á hamingju.

Hamingja er hugarástand sem hver og einn þarf að meta fyrir sig. Þannig er ekki hægt að mæla hamingju annarra nema með sjálfsmati þeirra. Þannig mælir Embætti landlæknis hamingju út frá spurningakönnun þar sem spurt er Þegar á heildina er litið, hversu hamingjusama/n telur þú þig vera og svarendur eru beðnir um að staðsetja sig á skala frá 1-10 þar sem 1 er mjög óhamingjusöm/samur og 10 mjög hamingjusöm/samur. Í mælingum Capacent á lífsmati er byggt á mælikvörðum Cantril lífsánægjustigans. Þá er fólk beðið um að ímynda sér stiga með þrepum númeruð frá núll og upp í tíu þar sem núll lýsir versta mögulega lífi á meðan tíu lýsir besta mögulega lífi. Þeir sem staðsetja sig í sjöunda þrep eða ofar og reikna með að eftir fimm ár muni þeir staðsetja sig í áttunda þrepi eða ofar falla undir hópinn dafna á meðan þeir sem eru í þrepum núll til fjögur og sjá sig einnig þar eftir fimm ár falla undir hópinn í þrengingum. Þeir sem falla svo þar á milli teljast vera í hópnum í basli. Þá mælir Capacent einnig andlega líðan en sá mælikvarði samanstendur af sex spurningum þar sem fólk er beðið um að lýsa líðan sinni stærstan hluta dagsins áður en spurt var. Spurt er út í hamingju, áhyggjur, gleði, depurð, reiði og streitu (Gísli Steinar Ingólfsson, 2011). Alþjóðlegar kannanir sem gerðar hafa verið af Evrópusambandinu og OECD segja ekki til um hamingjusamar eða óhamingjusamar þjóðir heldur er út frá þeim aðeins hægt að álykta hvort meirihluti þjóðar sé hamingjusamur eða ekki.

Deildu