Athugasemd við verðtryggingargrein

Logo

19/03/2013

Höfundur:

19. 3. 2013

Aðsend grein: Pétur Óli Jónsson bregst við greininni „Afnám verðtryggingar er barbabrella“. Þessi grein eru athugasemdir við grein sem birtist á þessari vefsíðu fyrir stuttu.  Tilefnið er að greinarhöfundur, Sigurður Hólm Gunnarsson, er að mínu mati ekki að draga réttar ályktanir í grein sinni um verðtryggingu. Greinarhöfundur segir að það brjóti eignarréttarákvæði að hafa afnámið […]

Aðsend grein: Pétur Óli Jónsson bregst við greininni „Afnám verðtryggingar er barbabrella“.

Skoðun - aðsend greinÞessi grein eru athugasemdir við grein sem birtist á þessari vefsíðu fyrir stuttu.  Tilefnið er að greinarhöfundur, Sigurður Hólm Gunnarsson, er að mínu mati ekki að draga réttar ályktanir í grein sinni um verðtryggingu.

Greinarhöfundur segir að það brjóti eignarréttarákvæði að hafa afnámið afturvirkt.  Hann nefnir það ekki að það hafa komið upp leiðir þar sem sýnt hefur verið fram á að kröfuhafi fái allt sitt, en lántaki greiði af lægri fjárhæð (afskrifuðum höfuðstól).  Það hefur líka verið sýnt fram á að það fyrirkomulag skili sér til baka með jákvæðri ávöxtun.

Annað sem er gagnrýnivert af hálfu greinarhöfundar eru atriðin sem hann nefnir sem populisma.  Fyrsti punktur hans um að verðtryggingu sé hruninu og skuldavanda að kenna er nokkuð gott pólitískt svar fjarri raunveruleikanum.  Þetta er ansi frjálslega farið með staðreyndir, já fært í svona stjórnmálamannastíl.

Annar punktur um að afnám þýði sjálfkrafa niðurfellingu aftur í tímann, er eitthvað sem ákveðinn hópur telur en alls ekki allir sem eru gegn verðtryggingu.  Reyndar tel ég það nauðsynlegt að hafa niðurfellinguna afturvirkt að einhverju leiti.  En sjálfvirk er hún ekki og ekki sjálfgefin.

Varðandi þriðja atriði um skyndilegan aðgang að ódýrari lánum.  Þá verður hér að grípa inn í og bjóða upp á óverðtryggð lán á nokkuð lágum kjörum.  Það væri t.d hægt að hafa 7-7,5% vexti (sem er reyndar mjög hátt).  Slíkir vextir munu dekka vænta verðtryggingu miðað við markmið Seðlabanka Íslands.  Ákjósanlegast væri þó að hafa um 4-5% vexti.  Hér þyrfti sjálfsagt að handstýra í fyrstu.  En þetta er hægt sbr. leiðina sem ég nefni hér efst.  Heimilin þola hærri vexti ef verðtrygging er ekki við lýði.  Af hverju, jú vaxtavextirnir falla niður.  Til lengri tíma verður verðbólguþrýstingur minni, því ávöxtunarkrafa mun lækka í samfélaginu til langs tíma.

Niðurfelling lána er í raun tvískipt.  Þ.e. framtíðargreiðsluflæði verði án verðtryggingar (afnámið fellst í að stoppa hækkun vegna verðtryggingar) og síðan að skoða söguna það sem liðið er, að fella niður aftur í tímann.

Rök greinarhöfundar og gagnrýni hans á skoðun þeirra sem vilja verðtryggingu sé misjöfn er grátbrosleg.  Þó menn og konur sameinist um að verðtrygging sé dragbítur, en eru ekki sammála hvaða aðrar aðgerðir skuli grípa til getur varla talist rök gegn afnámi verðtryggingar.  Hér er greinarhöfundur að gefa eitthvað í skyn sem ég er ekki alveg að skilja.  Verðtrygging er mjög flókið og skiljanlegt að sumir skilja lítið í henni.  Menn og konur eru þó að komast á þá skoðun og sjá að hún er ekki að ganga upp.  En þó sú skoðun er uppi við þá getur verið erfitt fyrir suma að ræða verðtrygginguna í smáatriðum.  Það gerir skoðun þeirra ekki endilega þar með síðri.  Ég til að mynda hef mjög takmarkaða læknisfræðilega þekkingu, en tel mig þó mega hafa skoðun á heilbrigðiskerfinu.

Verðtrygging prentar peninga og aukning í peningamagni veikir viðkomandi gjaldmiðil.  Sá gjaldmiðill veikist sem veldur verðbólgu og verðtryggð lán hækka aftur.  Síðan veikist gjaldmiðillinn aftur og hringrásin heldur áfram.

Markmið með verðtryggingu er að tryggja raunverðmæti.  Ef við náum því ekki (því verðtrygging eykur peningamagn sem eykur verðbólgu) þá erum við eins og hundurinn sem eltir skottið sitt.  Við rétt náum markmiðinu um stund, en bara í smástund.

Ef verðtrygging getur ekki tryggt raunverðmæti, sem eru rökin með henni, til hvers erum við þá með verðtryggingu?

Aðsend grein – Pétur Óli Jónsson

 —–

Athugasemdir ritstjóra:

1. Í grein minni: „Afnám verðtryggingar er barbabrella“ var ég að fjalla um popúlískan áróður sem heyrist nú í samfélaginu sem gengur út á það að verðtryggingin sé helsti vandi þjóðarinnar. Ég held því fram að það sé beinlínis rangt. Aðal orsök hrunsins er bóluhagkerfið sem kynt var undir með alltof auðveldu aðgengi að lánum og reglu- og eftirlitsleysi í anda frjálshyggjunnar. Við megum ekki gleyma ástæðunum fyrir því að allt fór á hliðina.

2. Ég segi hvergi að verðtrygging sé hruninu að kenna. Ég segi að hrunið sé ekki verðtryggingunni að kenna. Stór munur er á þessu tvennu.

3. Stjórnmálamenn sem áður gáfu í skyn að þeir ætluðu að afnema verðtryggingu afturvirkt hafa dregið það loforð til baka. Enda gangi afturvirkt afnám gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. – „Það hefur enginn sagt að það eigi að afnema verðtryggingu á lánum afturvirkt

4. Ég hef ekki neitað því að verðtrygging geti aukið á verðbólgu. Líklega gerir hún það og ég er ekki sérstakur aðdáandi verðtryggingar. Ég er einfaldlega að gagnrýna áróðurinn um að verðtryggingin sé vandamálið með stóru V-i. Verðtrygging er ekki aðalorsök verðbólgu.

5. Ég tel, eins og ég segi í greininni, að það geti vel verið bæði „sanngjarnt og jafnvel nauðsynlegt“ koma til móts við fólk í skuldavanda vegna verðtryggðra lána. Um það ætla ég að fjalla síðar.

Annars þakka ég áhugann á hugleiðingum mínum og gagnlegri umræðu.

Sigurður Hólm Gunnarsson

—–

Deildu