Samtryggðar tennur takk

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/01/2013

21. 1. 2013

Ung stúlka fellur í yfirlið, dettur og brýtur tennur. Er með sérstaka tryggingu frá tryggingafélagi en þarf samt að borga um milljón fyrir tannviðgerðir. Tryggingafélagið sleppur við að borga þar sem það leið víst yfir stúlkuna af því hún var veik en ekki af því hún lenti í slysi. Þvílíkt og annað eins rugl. Það […]

Ung stúlka fellur í yfirlið, dettur og brýtur tennur. Er með sérstaka tryggingu frá tryggingafélagi en þarf samt að borga um milljón fyrir tannviðgerðir. Tryggingafélagið sleppur við að borga þar sem það leið víst yfir stúlkuna af því hún var veik en ekki af því hún lenti í slysi. Þvílíkt og annað eins rugl. Það á enginn að þurfa að vera sérstaklega tryggður fyrir því óláni að detta og brjóta tennur. Algerlega óháð því hvort viðkomandi er veikur eða lendir í slysi.

Eins og ég fjallaði um í pistli um daginn tel ég að læknisfræðilega sé enginn munur á brotnum tönnum og brotnum beinum. Almannatryggingar eiga að greiða kostnaðinn. Íþróttamaður sem lendir í „samstuði“ á æfingu og brýtur fót fær því sem næst ókeypis læknisþjónustu. Maður sem hrasar á dansgólfinu, á fimmta bjór, og brýtur rófubein fær einnig samstundis aðstoð.

Eftir stendur að ef þú dettur í hálkunni og brýtur bein þá ertu samtryggður. Færð fína, næstum fría, þjónustu frá opinberu heilbrigðiskerfi.  Þú gætir þó þurft að bíða í nokkra tíma á biðstofunni þar til að læknir getur sinnt þér. Á biðstofunni er fínn sjálfsali sem selur reyndar aðallega nammi. Ef þú ákveður að fá þér að borða á meðan þú bíður skaltu fara varlega. Passaðu þig sérstaklega á því að borða ekkert hart.  Því ef þú verður fyrir því óláni að brjóta tönn þá gætir þú þurft að að selja bílinn þinn og taka lán fyrir viðgerðinni.

Sjá nánar:
Brotin bein og brotnar tennur

Deildu