Er hagfræði gervivísindi?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

22/01/2013

22. 1. 2013

Það má færa ágæt rök fyrir því að hagfræði sé gervivísindi. Í það minnsta má segja að ríkjandi hagfræðimódel séu lítið annað en töfraþulur. Margt í okkar hagkerfi er svo flókið að færustu hagfræðingar virðast ekki geta spáð fyrir um framtíðina og tekið skynsamlegar ákvarðanir. Ágæt dæmi um þetta eru hagfræðingarnir Robert Merton og Myron […]

Það má færa ágæt rök fyrir því að hagfræði sé gervivísindi. Í það minnsta má segja að ríkjandi hagfræðimódel séu lítið annað en töfraþulur. Margt í okkar hagkerfi er svo flókið að færustu hagfræðingar virðast ekki geta spáð fyrir um framtíðina og tekið skynsamlegar ákvarðanir. Ágæt dæmi um þetta eru hagfræðingarnir Robert Merton og Myron Scholes sem fengu nóbelsverðlaun 1997 fyrir aðferðir sínar við að meta virði afleiðusamninga. Þessir snillingar, sem voru (og jafnvel eru) taldir vera með þeim færustu í heimi í hagfræðiæfingum, hafa stofnað fyrirtæki sem hafa tapað milljörðum dollara.

Af hverju? Vegna þess að meira að segja nóbelsverðlaunahafar í afleiðusamningum skilja ekki afleiðusamninga.

Fæstir af bestu stjörnuspekingum, ég meina hagfræðingum, heimsins spáðu fyrir um þá kreppu sem nú gengur yfir. Reyndar kepptust flestir við að fullyrða að kreppa sem þessi væri óhugsandi.

Er þá eitthvað undarlegt að venjulegir fjárfestar og almenningur geri í brækunar þegar kemur að fjárfestingum? Nei auðvitað ekki. Þegar venjulegt fólk fær ráðleggingar frá hagfræðingum, bankafólki og viðskiptagúrúum sem trúa á gallaðar kenningar er ekkert undarlegt að fjöldinn allur tapi miklum peningum.

Einfaldar hagfræðikenningar sem byggja á hinum frjálsa markaði (sem er ekki til), einstaklingshyggju (í þeim skilningi að allir vilji bara hugsa um eign hag og græða) og skynsemi fjöldans (það sem fjöldinn gerir hlýtur að vera rétt) ganga ekki upp. Hvorki í fræðiheimum né í raunheimum. Þess vegna er mikilvægt að fara varlega í að trúa á orð sérfræðinga í blindni og líklegast nauðsynlegt að banna suma viðskiptagjörninga. Því eins og við Íslendingar þekkjum ágætlega þá getur hugmyndafræði byggð á gervivísindum nánast knésett heilt samfélag.

Deildu