Icesave og sigur lýðræðisins?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/01/2013

28. 1. 2013

Mikið er ég nú ánægður með niðurstöðu EFTA í Icesave málinu hundleiðinlega. Ég er að sama skapi ekki alveg nógu ánægður með hvaða lærdóm margir ætla að draga af þessu máli. Sérstaklega tel ég fullyrðingar um að „lýðræðið hafi sigrað“ vera úr lausu lofti gripnar. Enginn gat vitað fyrirfram hvernig EFTA dómstóllinn myndi dæma í […]

icesaveMikið er ég nú ánægður með niðurstöðu EFTA í Icesave málinu hundleiðinlega. Ég er að sama skapi ekki alveg nógu ánægður með hvaða lærdóm margir ætla að draga af þessu máli. Sérstaklega tel ég fullyrðingar um að „lýðræðið hafi sigrað“ vera úr lausu lofti gripnar. Enginn gat vitað fyrirfram hvernig EFTA dómstóllinn myndi dæma í þessu máli. Hefði sú niðurstaða verið algjörlega fyrirsjáanleg hefði aldrei verið farið í mál. Hvað ef niðurstaða EFTA hefði verið önnur? Hefði „lýðræðið“ þá „tapað“?

Staðreyndin er sú að það voru mjög skiptar skoðanir um það hvort Ísland væri í rétti eða ekki. Þar að auki er alltaf óljóst hvernig viðkvæm mál fara fyrir dómstólum. Niðurstöður eru alltaf háðar túlkunum og jafnvel hinu pólitíska landslagi. Það voru og eru góð rök fyrir því að semja um mál sem þessi. Það voru og eru góð rök fyrir því að leyfa almenningi ekki að kjósa um fjárhagslegar skuldbindingar.

Ég fullyrði að mjög margir sem höfnuðu síðasta samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu höfðu ekki hundsvit á þessu lögfræðilega deilumáli. Sama má auðvitað segja um suma þá sem samþykktu samningana. En það sem er hættulegt við þjóðaratkvæðagreiðslur um fjárskuldbindingar er að það er svo freistandi að segja nei við fjárútlátum. Sérstaklega þegar maður upplifir (eðlilega) að maður hafi orið fyrir barðinu á óréttlátu efnahagskerfi, spilltum stjórnmálum og fjárglæframönnum. Enda sögðu margir nei bara af því að þeir voru ósáttir og reiðir út í „kerfið“.

Umræðan í kringum samningana einkenndist af reiði, réttlætiskennd og þjóðrembu. Ekki fullvissu fyrir því að Ísland væri í lagalegum rétti. Þeir sem reyndu að fjalla um málið út frá lagalegu sjónarmiði töldu að ekkert væri öruggt. Ísland gæti lent í verri stöðu ef málið færi fyrir dóm. Þetta viðurkenna reyndar heitustu „nei“ sinnar í dag. Þeir höfðu ekki „þorað að vona“ að niðurstaðan yrði svona afdráttarlaus. Þeir fagna eins og niðurstaðan hafi ekki verið fullljós frá upphafi, sem hún var auðvitað ekki.

Reiðin sem knúði fólk til að segja nei er skiljanleg og sama má segja um réttlætiskenndina. Þjóðrembuna á ég erfiðara með að skilja. En hún gengur út á það að fólk tekur „afstöðu með Íslandi“ án þess að vita nokkuð um málið. Rétt eins og þegar haldið er með handboltaliði. Það á ekki bara við um Icesave. Það á líka við um rétt Íslendinga til hvalveiða eða sjálfsagðan rétt Íslendinga til að veiða meira af makríl (hvað veit meðal Íslendingur um makríldeiluna?) o.s.frv.

Um leið og ég fagna niðurstöðu EFTA dómstólsins þá efast ég verulega um að „lýðræðið hafi unnið“, ég efast enn um að það sé skynsamlegt að almenningur kjósi um fjárskuldbindingar og ég efast um að niðurstöður í þjóðaratkvæðagreiðslum séu alltaf „réttar“. Sérstaklega þegar reiði og jafnvel þjóðremba ræður för.

Deildu