Fyrr í dag sendi Tóbaksvarnarþing Læknafélags Íslands frá sér ályktun þar sem lagt er til að tóbak verði bannað á Íslandi.* Mun þetta vera klassískt dæmi um góðborgara sem telja sig geta bjargað heiminum með boðum og bönnum. Slíkt hefur auðvitað verið reynt áður, til dæmis með ofstækisfullu banni við neyslu áfengis í gamla daga og annarra vímuefna í dag. Árangur af slíkum bönnum er vægast sagt umdeildur og hefur yfirleitt verið mældur í aukinni undirheimastarfsemi, glæpum, ofbeldi og annarri misnotkun.
Þó að bann við mannlegum breyskleika myndi skila árangri er vafasamt að slíkt bann gæti talist siðferðilega rétt. Ég minni á gamla Sovét, þriðja ríki nasismans, fjölmörg múslimaríki og sæluríkin Kína og Norður-Kóreu í þessu samhengi. Öll þessi „velferðarríki“ reyndu, og reyna, að búa til fyrirmyndarsamfélag með boðum og bönnum. Helst með hörðum refsingum þar sem hinum brotlega er ekki sýnd nein miskunn, öðrum víti til varnaðar.
Tóbaksvarnarþingið, sem auðvitað vill vel, ætlast ekki aðeins til að tóbak verði bannað á Íslandi það telur einnig „óæskilegt“ að „leikarar reyki í íslenskum bíómyndum og á leiksviðum“ og er því hlynnt ritskoðun í anda sæluríkja kommúnisma. Að auki virðast læknarnir góðu vilja að sett verði lög þar sem fólk verði annað hvort sektað eða handtekið fyrir það að reykja á almannafæri.*
Þessi öfgafulla afstaða bendir til þess að það sé til eitthvað sem er jafnvel verra en lögregluríki, og það er þá læknaríki.
Í fljótu bragi sé ég aðeins tvö atriði í ályktun læknanna sem ég gæti stutt. Í fyrsta lagi að vernda þurfi hópa sem enn eru útsettir fyrir óbeinum reykingum. Þetta er sjálfsögð krafa, enda á fíkn eins í reykingar ekki að hafa bein áhrif á aðra sem kæra sig ekki um að stunda slíka iðju. Í öðru lagi get ég stutt kröfu um takmarkanir á auglýsingum á tóbaki, þá með það að markmiði að vernda ungt fólk fyrir áróðri.
Annars tel ég að læknarnir ættu að einbeita sér að forvörnum og auka fjölbreytni á úrræðum til að hjálpa fólki að reykja. Eins og með því að leyfa elektrónískar sígarettur.
Nú veit ég ekki hvernig stjórnvöld taka ábendingum læknanna en eitt er víst. Ef sæluríki lækna verður að veruleika er ég fluttur úr landi.
*Úr ályktun Tóbaksvarnarþings:
„• Að hætta sölu tóbaks í matvöruverslunum og á bensínstöðvum fyrir árslok árið 2010.
• Að hætta sölu tóbaks í söluturnum árið 2012.
• Stefna að því að Ísland verði fyrsta landið í heiminum til að taka tóbak alfarið úr almennri sölu.
• Nýjar dreifingar og söluleiðir á tóbaki (t.d. öll sjálfsafgreiðsla) verði óheimilar.
• Tóbak verði tekið úr sölu í fríhöfnum íslenskra flugvalla.
• Aldur til að geta keypt tóbak verði hækkaður í 20 ár fyrir árslok 2010.
• Aldur til að afgreiða tóbak verði hækkaður í 20 ár fyrir árslok 2010.
• Að hnykkt verði á banni við að auglýsa eða selja varning með nafni eða merki sem tóbak er einnig fáanlegt undir.
• Auglýsingar, t.d. á kappakstursbílum eða í íþróttaútsendingum, verði takmarkaðar með því að skylt verði að útmá auglýsingarnar í t.d. sjónvarpsútsendingu eða tímariti.
• Þingið telur óæskilegt að leikarar reyki í íslenskum bíómyndum og á leiksviðum.
• Vernda þarf hópa sem enn eru útsettir fyrir óbeinum reykingum s.s. fangar, fangaverðir og starfsmenn vistheimila.
• Stefnt verði að því að afnema reykingar á almannafæri.
• Að taka tóbak út úr vísitöluútreikningi.
• Stefnt skal að því að útsöluverð á tóbaki standi undir samfélagslegum kostnaði við neyslu þess.“