Elektrónískar sígarettur (enska = Electronic Cigarettes) er tiltölulega ný vara sem reynst hefur mörgum vel í baráttunni gegn tóbaksfíkn. Það sem gerir þessa vöru einstaka er að hún líkir eftir reynslu reykingamannsins án þess að þó að innihalda tóbak eða önnur þau krabbameinsvaldandi efni sem eru í sígarettum .[1]
Þrátt fyrir að það sé öruggt að þessi vara er margfalt skaðminni en hefðbundnar sígarettur (sem seldar eru á hverju götuhorni) er bannað að flytja hana inn á Íslandi. Ástæðan er sú að samkvæmt íslenskum lögum er ekki „heimilt að flytja inn vöru sem inniheldur lyfjavirkt efni þegar varan hefur ekki verið framleidd og markaðssett sem lyf.“ (Skrifleg samkipti við Lyfjastofnun)
Þessum lögum verður að breyta enda um mikilvægt heilbrigðismál að ræða. Til að vekja athygli á þessari nýjung hef ég sett saman eftirfarandi upplýsingar sem lesendur gætu haft gagn af:
Almennt um e-rettur
Hefðbundinn e-retta samandsendur af þrem hlutum. Batteríi, úðara og hylki sem inniheldur (í flestum tilfellum) nikótín, bragðefni og efni sem framkallar gervireyk (propylene glycol). Batteríið hitar hylkið og við hitann myndast „gufa“ sem inniheldur bragðefni og í flestum tilfellum nikótín. Enginn bruni á sér stað eins og í sígarettum og því engin hætta á óbeinum reykingum.
Í hefðbundnum sígarettum eru „4.000 efnasambönd og af þeim eru að minnsta kosti 40 sem vitað er að valda krabbameini“ . [2] Talið er að um 260 Íslendingar deyi ár hvert af vegna neysla þeirra skaðlegu efna sem eru að finna í tóbaki.[3]
Eins og áður segir eru þessi krabbameinsvaldandi efni ekki í e-rettunum. Þess í stað inniheldur e-rettan bragðefni, vatn og efni sem kallast propylene glycol (hér eftir „pc“). Pc er meðal annars notað í matvörum og í reykvélum sem er að finna t.d. á skemmtistöðum og jafnvel leikfangareykvélum sem fást í leikfangabúðum á Íslandi.[4] Pc er almennt talið hættulítið og því leyft til notkunar í matvörum. Þó að yfirleitt sé að finna nikótín í e-rettum er það í öllum tilfellum í minna mæli en í hefðbundnum sígarettum.[5], [6]
Mikilvægt er að taka fram að nikótín veldur ekki krabbameini og getur „eitt og sér getur verið gagnlegt í lyfjafræðilegu tilliti og er til dæmis talið að það kunni að hafa áhrif á hrörnunarsjúkdóma í miðtaugakerfi svo sem Alzheimerssjúkdóm og Parkinsonsveiki“.[7]
Það er því ljóst að það ætti að hafa jákvæð áhrif á heilsu reykingamanna að nota e-rettur í stað hefðbundinna sígaretta.
Hér á landi er nú þegar hægt að kaupa alls kyns nikótínvörur (tyggjó, plástrar, munnsogslyf o.fl.) til að aðstoða reykingamenn við að hætta reykingum. Rétt eins og á við um e-retturnar innihalda þessar vörur nikótín í mismiklum mæli. Árangur af notkun þessara vara er nokkuð misjafn. Það kemur þannig mörgum á óvart að rannsóknir benda til þess að færri en 9% þeirra sem nota nikótínplástra eða -tyggjó tekst að hætta að reykja. Árangurinn er í raun lítið betri en hjá þeim sem hætta án nokkurra hjálpar.[8],[9]
Ný aðferð í baráttunni gegn reykingum
E-rettur hafa hingað til ekki verið markaðssettar sem lyf þar sem markmiðið er ekki að koma í veg fyrir nikótínþörf notenda. Um er að ræða vöru sem reykingamenn geta notað í stað tóbaks.
Það sem gerir e-retturnar einstakar er að þær líkja eftir venjulegum reykingum og geta því betur komið í stað reykingahegðunar. Hluti af fíkn reykingamanna byggist á þeirri venju sem felst í að reykja. Hefðbundnar nikótínvörur líkja ekki eftir hegðun reykingamanna og því svala þær ekki þörfinni við að „fá sér smók“. E-rettan ætti því að vera kærkomin viðbót í baráttunni gegn reykingum.
Taka verður tillit til þess að nikótín er afar vanabindandi efni. Útskýrir það hvers vegna flestum reynist svo erfitt að hætta reykingum. Þær nikótínvörur sem nú eru á markaðnum hafa ekki reynst sérlega vel (þ.e. árangurinn er takmarkaður) og því mikilvægt að bjóða upp á fjölbreyttari valkosti.
Staða e-rettna í heiminum
Elektrónískar sígarettur eru seldar víðs vegar um Evrópu, Bandaríkjunum og víðar en misjafnt er hvaða reglur gilda um sölu og dreifingu. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef eru þessar vörur seldar í Bretlandi, Hollandi, Ítalíu, Pólandi, Danmörku, Grikklandi og víðar. Í flestum tilfellum er hægt að kaupa vörurnar (þar með talið nikótínhylkin) beint í gegnum hefðbundnar búðir og á netinu.
___
Ofangreind greinargerð er byggð á fyrirspurn undirritaðs til Lyfjastofnunnar. Svarið sem ég fékk var eftirfarandi:
„Ekki er heimilt að flytja inn vöru sem inniheldur lyfjavirkt efni þegar varan hefur ekki verið framleidd og markaðssett sem lyf. Nikótín er flokkað sem lyfjavirkt efni og er virka efnið í fjölda mörgum lyfjum sem hafa markaðsleyfi hér á landi. Sér lög og ákvæði gilda hinsvegar um tóbak og eru það einu vörurnar sem innihalda nikótín sem slík sérákvæði gilda um. Ekki er hægt að fá lækni til að skrifa lyfseðil eða vottorð upp á vöru sem ekki er framleidd sem lyf.“
Þar höfum við það. Landsmönnum er bannað, lögum samkvæmt, að leita nýrra leiða í baráttunni við tóbaksdjöfulinn.
[1] E-cigarette
http://en.wikipedia.org/wiki/E-cigarette
[2] Hvers vegna eru seldar sígarettur ef það er vitað að þær drepa?
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=7131
[3] Hversu margir deyja á Íslandi af völdum reykinga?
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6664
[4] Sem dæmi er hægt að kaupa stóra brúsa af propylene glycol í reykvélar fyrir börn í leikfangabúðum Toys R Us á Íslandi.
[5] Hægt er að fylla á e-rettur með hylki sem inniheldur vökva með 16mg, 12mg, 6mg eða 0mg af nikótíni. Í hæsta styrkleikaflokki er minna af nikótíni en í hefðbundinni sígarettu.
[6] Um 30mg af nikótíni eru að finna í einum sígarettupakka á meðan 16mg eru i einu hylki af sterkasta nikótínvökva fyrir e-rettur. Notkun á einu hylki samsvarar notkun á einum til einum og hálfum pakka af sígarettum (Fer auðvitað eftir notkunarmynstri).
http://www.healthnz.co.nz/ecigarette.htm
[7] Hvaða áhrif hefur nikótín á líkamann?
http://visindavefur.is/svar.php?id=2309
[8]„Real-World“ – Nicotine Patch and Gum Rates
http://whyquit.com/whyquit/A_RealWorldNRT.html
[9] NICOTINE GUM HELPS SOME (BUT ONLY SOME) SMOKERS QUIT.
http://general-medicine.jwatch.org/cgi/content/full/1988/923/1