Enn eitt fórnarlambið í stríðinu gegn fíkniefnum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

08/05/2009

8. 5. 2009

Ragnar Erling Hermannsson er nú er vistaður í fangabúðum í Brasilíu fyrir tilraun til að smygla inn fíkniefnum. Ragnar er að mínu viti lítið annað en eitt fórnarlambið enn í stríðinu gegn fíkniefnum. Ég finn til með því fólki sem hefur tjáð sig í fjölmiðlum undanfarið og lýst því glaðhlakkalega yfir að maðurinn eigi þetta […]

drugwarRagnar Erling Hermannsson er nú er vistaður í fangabúðum í Brasilíu fyrir tilraun til að smygla inn fíkniefnum. Ragnar er að mínu viti lítið annað en eitt fórnarlambið enn í stríðinu gegn fíkniefnum. Ég finn til með því fólki sem hefur tjáð sig í fjölmiðlum undanfarið og lýst því glaðhlakkalega yfir að maðurinn eigi þetta skilið. Staðreyndin er sú að þeir sem lenda í steininum (eða í fangabúðum út í heimi) fyrir brot af þessu tagi eru oftar en ekki fórnarlömb aðstæðna. Einstaklingar sem hafa misstigið sig á lífsleiðinni en ekki svívirðilegir glæpamenn. Harðlínustefna í fíkniefnamálum er lítið annað en fróun góðborgara sem telja sig getað bjargað heiminum með refsivendinum einum saman. Það er nefnilega einfaldara að refsa og fordæma en að ráðast að raunverulegum orsökum vandans og horfast í augu við eigið getuleysi.

Úr greininni „Réttlætanlegt stríð en barist á röngum vígstöðum

„Refsienglar samfélagsins sem telja sig geta skapað himnaríki á jörð með boðum og bönnum hafa ekki aðeins rangt fyrir sér, heldur eru þeir einnig hættulegir. Refsistefna þeirra veldur ómældri óhamingju og skaðar fjölmarga óbreytta borgara og gerir oft líf þeirra sem þeir telja sig vera að vernda enn verra. Það sem meira er, þá draga þeir athyglina frá raunverulegum orsökum vandans.

Vímuefnavandinn er fyrst og fremst heilbrigðisvandi sem orsakast af ýmsum félagslegum vandamálum. Félagsleg vandamál verða ekki leyst með boðum og bönnum heldur með markvissum og yfirveguðum aðgerðum.“

Svo ég verði ekki settur í skammarkrókinn þá ítreka ég hér þá skoðun mína að misnotkun vímuefna er alvarlegt vandamál sem ekki má gera lítið úr. Það breytir því þó ekki að harðlínustefna gegn fíkniefnum bjargar engum heldur gerir illt verra. Stríðið gegn fíkniefnum hefur, rétt eins og önnur stríð, í för með sér ómælda óhamingju og fórn á saklausum borgurum og þeim sem minna mega sín.

Auðvitað verður fólk að taka ábyrgð á eigin gjörðum en enginn á skilið að vera vistaður í ómannúðlegum og yfirfullum fangabúðum. Ég hvet því íslensk stjórnvöld til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma Íslendingum sem búa við slíkar aðstæður til bjargar. Það er beinlínis skylda þeirra sem bera virðingu fyrir mannréttindum.

Deildu