Af hverju ég kýs Samfylkinguna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/04/2009

16. 4. 2009

Í fyrsta skipti í nokkuð langan tíma hef ég tekið virkan þátt í kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar. Ástæðan er sú að ég tel afar mikilvægt að eftir kosningar taki við vinstri-jafnaðarstjórn undir forystu Samfylkingarinnar. Nú vita þeir sem þekkja mig að ég er varla mjög flokkshollur maður og oft ósammála fulltrúum Samfylkingar. Það þarf því nokkuð […]

Í fyrsta skipti í nokkuð langan tíma hef ég tekið virkan þátt í kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar. Ástæðan er sú að ég tel afar mikilvægt að eftir kosningar taki við vinstri-jafnaðarstjórn undir forystu Samfylkingarinnar. Nú vita þeir sem þekkja mig að ég er varla mjög flokkshollur maður og oft ósammála fulltrúum Samfylkingar. Það þarf því nokkuð til að ég nenni að taka þátt í kosningabaráttu. Eins og staðan er í dag tel ég þó að valkostirnir hafi sjaldan verið skýrari. Ástæðurnar fyrir því að ég kýs og styð Samfylkinguna heils hugar nú eru eftirfarandi:

1) Jóhanna Sigurðardóttir

Ég treysti engri manneskju betur til að standa vörð um velferðakerfið, hag heimilana og réttindi þeirra sem minna mega sín en Jóhönnu Sigurðardóttur. Á þetta sérstaklega við ástandið eins og það er nú. Íslenska ríkið er stórskuldugt og augljóst er að einhversstaðar þarf að draga saman seglin og skera niður. Ég veit að Jóhanna mun gera sitt besta til að tryggja að sá niðurskurður komi sem allra minnst niður á þeim sem verst hafa það.

2) Sækja þarf um aðild að ESB

Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB og leggja aðildarsamning undir dóm kjósenda. Það hefur verið karpað um ESB í um 20 ár og enginn botn komist í þá umræðu. Menn geta rætt um kosti og galla ESB þar til þeir verða bláir í framan, niðurstaða fæst ekki þar til við setjum okkur samningsmarkmið, sækjum um aðild og sjáum hvaða samningum við náum. Best væri auðvitað að ríkisstjórn Samfylkingar og VG sjái um aðildarviðræður. Samfylkingarfólk er flest mjög hlynnt inngöngu í ESB á meðan meðlimir í VG eru margir hverjir algerlega á móti. Samningaviðræður undir stjórn þessa tveggja flokka tryggir að umræðan verður ekki of einhliða.

3) Kominn tími á vinstristjórn

Nú, eftir bankahrun í boði Sjálfstæðisflokksins, er kominn tími á vinstristjórn þar sem félagsleg gildi eru sett á oddinn. Ég hef ekki alltaf verið þessarar skoðunar. Hef til að mynda oft verið hlynntur samstarfi jafnaðarmanna og frjálslyndra sjálfstæðismanna. Ekki nú. Nú er kominn tími til að þjóðin fái langa hvíld frá Sjálfstæðisflokknum.

4) Frjálslynd jafnaðarstjórn

Mikilvægt er að næsta stjórn (vonandi vinstristjórn) verði hér eftir kosningar undir forystu Samfylkingarinnar. Ég viðurkenni að mér hefur þótt Vinstri grænir oft allt of íhaldssamir og forsjárhyggjusinnaðir fyrir minn smekk. Því er mikilvægt að Samfylkingin leiði væntanlegt samstarf vinstriflokkanna. Samfylkingin er að mestu leyti frjálslyndur flokkur og umburðarlyndur. Frjálslynd vinstristjórn verður ekki mynduð án forystu Samfylkingarinnar.

5) Spilin upp á borðið

Á næsta kjörtímabili þurfa að fara fram mikilvæg uppgjör. Það þarf að rannsaka orsakir og afleiðingar bankahrunsins, vinda ofan af spillingu og sjá til þess að þeir sem bera ábyrgð beri hana. Aftur treysti ég engum stjórnmálamanni betur en Jóhönnu Sigurðardóttur til þeirra verka. Hún hefur ávalt barist gegn spillingu og fyrir lýðræðislegum leikreglum og verið gagnrýnd fyrir vikið.

Þetta eru, í stuttu máli, ástæðurnar fyrir því að ég styð Samfylkinguna heilshugar nú. X-S.

Deildu