Réttlætanlegt stríð en barist á röngum vígstöðvum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

08/06/2002

8. 6. 2002

SÁÁ (Neytendasamtök vímuefnaneytenda?) birtu eina af mánaðarlegum verðkönnunum sínum um daginn. Í henni kom m.a. fram að verðið á hassi hefur hækkað um 34% (kostar nú 2470 kr. en kostaði áður 1840 kr.). Mörgum þykir þetta eflaust jákvæð tíðindi – Ekki mér! Vegna þess hve yfirvöld hafa verið dugleg við að handtaka hasssmyglara er e-taflan […]

SÁÁ (Neytendasamtök vímuefnaneytenda?) birtu eina af mánaðarlegum verðkönnunum sínum um daginn. Í henni kom m.a. fram að verðið á hassi hefur hækkað um 34% (kostar nú 2470 kr. en kostaði áður 1840 kr.). Mörgum þykir þetta eflaust jákvæð tíðindi – Ekki mér!


Vegna þess hve yfirvöld hafa verið dugleg við að handtaka hasssmyglara er e-taflan nú orðin jafn dýr og hass. Jafnframt hefur verðið á kókaíni nánast staðið í stað. Hvaða skoðun sem menn hafa á vímuefnum, þá getum við öll verið sammála um að sum vímuefni eru verri en önnur. Kannabisefni teljast til mun hættuminni efna en t.d. e-taflan, hvað þá kókaín. Er þá eitthvað vit í því að berjast af sömu hörku gegn vægari vímuefnum og barist er gegn þeim hörðu? Er hægt að gleðjast yfir því, þegar vægari efnin hækka í verði en sterkari efnin standa í stað, eða jafnvel lækka í verði vegna aðgerða yfirvalda?

Reynslan frá Noregi
Samkvæmt nýlegri könnun er velferðaríkið Noregur eitt mesta vímuefnabæli í Evrópu. Óvenju margir deyja t.d. í Osló vegna of stórra vímuefnaskammta og tíðni glæpa, tengdum vímuefnum, er þar há. Ein ástæðan fyrir ástandinu í Noregi er hátt verð á áfengi, sérstaklega bjór. Bjórinn er svo dýr að ráðvilltir og áhrifagjarnir unglingar taka þá óheillavænlegu ákvörðun að kaupa frekar hörð vímuefni með fyrrgreindum afleiðingum. Verndarstefna yfirvalda hefur því augljóslega ekki tilætluð áhrif.

Barist á röngum vígstöðvum
Það er þess virði að berjast gegn því, af miklu afli, að börn og unglingar leiðist út í vímuefnaneyslu, löglega sem og ólöglega. Ungt fólk hefur ekkert með það að gera að vera undir áhrifum vímugjafa. Vímuefnin hafa, eins og menn vita, valdið mörgum óbætanlegum skaða. Baráttan gegn neyslu ungmenna á vímuefnum er því réttmæt en því miður er barist á röngum vígstöðvum.

Refsienglar samfélagsins sem telja sig geta skapað himnaríki á jörð með boðum og bönnum hafa ekki aðeins rangt fyrir sér, heldur eru þeir einnig hættulegir. Refsistefna þeirra veldur ómældri óhamingju og skaðar fjölmarga óbreytta borgara og gerir oft líf þeirra sem þeir telja sig vera að vernda enn verra. Það sem meira er, þá draga þeir athyglina frá raunverulegum orsökum vandans.

Vímuefnavandinn er fyrst og fremst heilbrigðisvandi sem orsakast af ýmsum félagslegum vandamálum. Félagsleg vandamál verða ekki leyst með boðum og bönnum heldur með markvissum og yfirveguðum aðgerðum.

Þrjár markvissar aðgerðir til að draga úr vímuefnavandanum

Eflum sjálfsvitund
Ástæða þess að ungt fólk misnotar vímuefni verður fyrst og fremst rakin til félagslegra aðstæðna, líðan og félagslegrar færni þeirra. Þeir sem vilja gera eitthvað gagn í baráttunni gegn vímuefnum verða því að einbeita sér að þessum þáttum.

Samkvæmt 2. gr. laga um grunnskóla er það m.a. hlutverk skólans að ,,…búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi…“ Líf og starf sem felur m.a. í sér frelsi til orða og athafna, réttinn til að velja og hafna og sú skylda að bera ábyrgð á eigin lífi.

Þrátt fyrir ofangreint markmið grunnskólans, vanrækja menntamálayfirvöld nánast algerlega að veita ungu fólki þá þjálfun sem þeim er nauðsynleg til að geta tekið að fullu þátt í frjálsu samfélagi. Án heimspekilegrar yfirvegunar, þekkingar á rökfræði, þekkingarfræði og færni í mannlegum samskiptum eru einstaklingar vart frjálsir, en eru fremur þrælar umhverfisins og viðtekinna hugmynda.

Ungt fólk sem á erfitt með mannleg samskipti hlýtur einnig að vera líklegra til að misnota vímuefni. Þau sem eru feimin leita hugrekkis í vímunni og þegar víman er eina leiðin sem þau þekkja til vellíðunar er ekkert undarlegt að þau leita í hana. Það er beinlínis skiljanlegt.

Á meðan skólayfirvöld halda áfram að vanrækja að kenna ungu fólki samskiptahæfileika og að hugsa rökrétt er gulltryggt að óhófleg vímuefnaneysla ungs fólks verður viðvarandi mikið vandamál.

Afnemum bann við vægari efnum
Það er löngu orðið tímabært að gera skynsamlegar breytingar á lögum um sölu, neyslu og meðhöndlun vímuefna. Hvort sem menn vilja það eða ekki, þá er skaðsemi kannabisefna afar lítil samanborið við harðari efni og meira að segja samanborið við suma löglega vímugjafa. Það er því í það minnsta tvennt sem er beinlínis rangt við að viðhalda ströngu banni við neyslu kannabisefna. Í fyrsta lagi er það siðlaust að gera fólk að glæpamönnum fyrir það eitt að reykja hass á meðan stjórnmálamenn sem viðhalda banninu skemmta sér í kokteilboðum á kostnað skattgreiðenda. Í öðru lagi er það varasamt að setja samansem merki milli vægari efna og harðari vímugjafa. Ungur einstaklingur sem nú þegar hefur gerst brotlegur við landslög fyrir það eitt að neyta kannabisefna þarf ekki að taka stórt skref til að prufa harðari efni. Hann er nú þegar stimplaður glæpamaður.

Skynsamlegast væri að afnema bann við kannabisefnum. Ef menn telja ekki ráðlegt að leyfa almenna sölu á slíkum efnum þá væri í það minnsta ráð að leyfa almenningi að rækta þessi efni heima hjá sér til einkanota.

Lítum á misnotkun vímuefna sem heilbrigðisvandamál
Hvort sem stjórnmálamenn vilja það eða ekki mun líklegast alltaf vera til fólk sem ánetjast vímuefnum. Þetta fólk á við heilbrigðisvanda að stríða. Það verður að fá skammtinn sinn hvort sem hann er löglegur eða ólöglegur og hvort sem það á pening eða ekki. Ef brjóta þarf lög til að verða sér úti um skammt, þá verður það gert. Svo einfalt er það. Aldrei mun sá sem þetta skrifar leggja það til að hin svokölluðu hörðu vímuefni verði lögleyfð til almennrar neyslu, annað hvort með sölu í þar til gerðum búðum eða apótekum. Sala á efnum sem eru beinlínis lífshættuleg og mjög ávanabindandi í ,,venjulegum“ skömmtum er aldrei réttlætanlegt að leyfa sölu á með þeim hætti. Hins vegar er skynsamlegt að líta á forfallna vímuefnaneytendur sem sjúklinga og meðhöndla þá sem slíka. Yfirvöld ættu beinlínis að gefa fíklum efnin sín undir vernduðum kringumstæðum og án allra annarra skilyrða. Með þessu myndi í það minnsta þrennt ávinnast. Tíðni glæpa vegna verslunar með vímuefni myndi lækka. Dregið væri verulega úr líkum þess að fíklar dræpu sjálfan sig með of stórum og/eða óhreinum skömmtum eða aðra í þeim tilgangi að verða sér út um vímu. Auk þess sem komið væri í veg fyrir að siðlausir glæpamenn (les dópsalar) græði á óförum annarra.

Drögum úr vímuefnaneyslu
Nauðsynlegt er að stjórnmálamenn, og aðrir þeir sem móta stefnu yfirvalda í vímuefnamálum opni augu sín fyrir raunverulegum orsökum vímuefnamisnotkunar. Refsistefna í anda lögregluríkis er ekki vænleg lausn, eins og best má sjá með því að skoða ástandið í Bandaríkjunum.

____________
Heimildir:
1. www.drugpolicy.org
2. www.guardian.co.uk
3. www.althingi.is
4. www.saa.is

Deildu