Þá er maður búinn að panta miða á tónleika Eika Hauks, Ken Hensley og Dúndurfrétta í Austurbær 30. apríl. Það verða margir úr minni fjölskyldu á tónleikunum. Þar á meðal Pálína, bræður hennar, Halli bróðir minn og Pabbi okkar. Þetta verður því eins og fermingarveisla, nema bara skemmtilegt.
Eiríkur Hauksson er í miklu uppáhaldi hjá mér og sama má segja um Dúndurfréttir. Hef farið nokkrum sinnum á tónleika með bæði Eika og Dúndurfréttum og alltaf skemmt mér konunglega (Nema reyndar þegar Eiríkur hélt tónleika í spinningsalnum í Veggsporti þar sem hann söng og við hin hjóluðum við dúndrandi Deep Purple lög. Það var meira svona vont-gott …).
Eiríkur Hauks er bestur þegar hann er í metalinu og er ég þannig enn mikil aðdáandi ARTCH – gamla þungarokksbandinu hans. Fyrir þá sem ekki vita gaf ARTCH út tvo brilliant metaldiska: Another Return (1988) og For The Sake Of Mankind (1991).
Dúndurfréttir eru vægast sagt frábært band. Hef nokkrum sinnum hlustað á þá flytja lög eftir Pink Floyd, Led Zeppelin, Deep Purple og fleiri óaðfinnanlega. Að sumu leiti er ég spenntari fyrir því að hlusta á íslensku kappana en Hensley sem ég hef lítið fylgst með nema í gegnum Uria Heep (sem áttu mörg mjög góð lög).