Eftir: Thomas Paine
Umfjöllun:
The Age of Reason (Öld skynseminnar) er tímamótaverk sem allir verða að lesa. Í þessari bók, sem kom fyrst út árið 1795, fjallar mannvinurinn Thomas Paine um kristna trú og Biblíuna. Paine útskýrir hér hvers vegna hann trúir ekki á guð Biblíunnar og sýnir jafnframt fram á að Biblían er hvorki óskeikult rit né innblásið orð guðs.
Í inngangi bókarinnar rökstyður Paine fimlega hvers vegna menn eiga að bera virðingu fyrir skoðunum annarra:
I put the following work under your protection. It contains my opinion upon religion. You will do me the justice to remember, that I have always strenuously supported the right of every man to his own opinion, however different that opinion might be to mine. He who denies to another this right, makes a slave of himself to his present opinion, because he precludes himself the right of changing it
Næst kom óður Paine til rökhugsunar:
The most formidable weapon against errors of every kind is reason. I have never used any other, and I trust I never shall
Paine gagnrýnir hina helgu bók
Gagnrýni Paine á Biblíuna í The Age of Reason má gróflega skipta í þrjá hluta. Biblían er í flestum tilvikum án höfunda, hún inniheldur fjölmargar mótsagnir og í henni er að finna ómælda grimmd.
Paine sýndi glögglega fram á að Biblían er samansafn rita sem eru í flestum tilfellum eftir alls óþekkta höfunda. Paine benti til dæmis á með óyggjandi hætti að Mósebækur voru ekki ritaðar af Móse, að Jósúabók var ekki eftir Jósúa o.s.frv. En það var þvert á það sem flestir héldu fram á þessum tíma (og sumir gera enn). Paine taldi að nafnlaus rit væri aldrei hægt að taka alvarlega sérstaklega ekki sem opinberun guðs:
It has often been said, that anything may be proved from the Bible, but before anything can be admitted as proved by the Bible, the Bible must be proved to be true; for if the Bible be not true, or the truth of it be doubtful, it ceases to have authority, and cannot be admitted as proof of anything.
Paine benti á að Biblían er uppfull af mótsögnum, fölsunum og röngum staðhæfingum sem ómögulegt er að hugsa sér að alvaldur guð gæti framkvæmt. Paine taldi einnig að öll sú grimmd og allt það óréttlæti sem kemur fyrir í Biblíunni væri sönnun þess að Guð gæti ekki verið höfundur bókarinnar.
Eins og við var að búast vakti The Age of Reason hörð viðbrögð jafnt meðal almennings og talsmanna kirkjunnar og var Paine umsvifalaust stimplaður sem siðlaus og trúleysingi en hvorug ásökunin átti við rök að styðjast. Paine var langt frá því að vera siðlaus en var þvert á móti mikill baráttumaður fyrir sannleikanum og réttlæti og var auk þess mikill mannvinur. Paine titlaði sjálfan sig heldur ekki trúleysingja og kom það skýrt fram í The Age of Reason. Hann trúði einfaldlega ekki á Biblíuna og var því ekki kristinn:
I believe in one God, and no more; and I hope for happiness beyond this life. I believe in equality of man; and I believe that religious duties consist in doing justice, loving mercy, and endeavoring to make our fellow-creatures happy.
But, lest it should be supposed that I believe many other things in addition to these, I shall, in the progress of this work, declare the things I do not believe, and my reasons for not believing them.
Það kemur því vart á óvart að ég tel að allir þeir sem hafa áhuga á að fræðast um trúarbrögð og gagnrýna hugsun eigi að lesa þessa bók.