Geert Wilders, Fitna og íslamaphóbían

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

29/03/2008

29. 3. 2008

Íslamaphóbían nær nýjum hæðum í „heimildarmyndinni“ Fitna eftir hollenska hægrimanninn Geert Wilders (Sjá Fitna). Þessi svokallaða heimildarmynd er lítið annað en samansafn af neikvæðum fréttum um múslima sem gefur mjög villandi mynd af þeim (ekki ólíkt myndinni sem ég birt hér af Wilders sjálfum – sem ég valdi úr hundruðum annarra mynda þar sem hann […]

Íslamaphóbían nær nýjum hæðum í „heimildarmyndinni“ Fitna eftir hollenska hægrimanninn Geert Wilders (Sjá Fitna). Þessi svokallaða heimildarmynd er lítið annað en samansafn af neikvæðum fréttum um múslima sem gefur mjög villandi mynd af þeim (ekki ólíkt myndinni sem ég birt hér af Wilders sjálfum – sem ég valdi úr hundruðum annarra mynda þar sem hann er ekki með penna upp í nefinu á sér).

Vandinn við mynd Wilders er að í henni gefur hann í skyn að það eitt að vera múslimi sé nægjanleg forsenda fyrir því að verða hryðjuverkamaður og siðblindur ofbeldismaður. Þetta er bæði kjánaleg og hættuleg einföldun. Afskaplega auðvelt væri að klippa saman 15 mínútna myndband sem sýnir kristni í nákvæmlega sama ljósi. Þannig væri hægt að notast við brot úr myndum og þáttum á borð við: Root of All Evil?, The Doomsday Code, The God Who Wasn‘t There og Jesus Camp. Einnig væri afar auðvelt að birta brot úr viðtölum og predikunum þekktra kristna predikara um gervallan heim þar sem þeir fjalla um réttindi kvenna, samkynhneigðra, fólks með aðrar lífsskoðanir o.s.frv. (Til að ná fullum áhrifum mæli ég með því Carmina Burana eftir Orff verði spilað undir).

Í engri af ofangreindum myndum er reyndar gefið í skyn að allt kristið fólk sé stórhættulegt ofstækisfólk. Það er einmitt það sem Wilders gerir í sinni mynd. Wilder gerir enga tilraun til að útskýra hatur og ofbeldisverk sumra múslima með öðrum hætti en að þeir séu Íslamtrúar.


Hugsunarháttur trúarinnar

Ég hef fjallað um það margoft áður að það eru ekki einstök trúarbrögð sem eru hættuleg heldur bókstarfstrú almennt (Sjá: Ótti við íslamisma er ótti við bókstafstrú). Bókstafstrú er síðan pakkað inn í bómull af hófsemdarfólki í trúmálum sem segir beint og óbeint að óviðeigandi og jafnvel bannað sé að gagnrýna trú og trúarbrögð.

En það eru ekki endilega trúarbrögðin sem slík sem eru hættulegust heldur sá hugsunarháttur að í lagi sé að trúa (Trú = að vera sannfærður um eitthvað) einhverju án nokkurra skynsamlegra raka eða vísindalegra sannana. Okkur er kennt frá barnæsku að það sé einhverskonar dyggð að vera trúaður. Þannig er það almennt talinn mannkostur að vera trúrækinn. Það er bara eitthvað svo „fallegt“ að trúa. Þó er það einmitt þessi hugsanaháttur sem veldur því að sumt trúað fólk biður bænir í staðinn fyrir að fara til læknis, notar ekki getnaðarvarnir af því það er þeirra trú að það sé siðlaust eða það sprengir sig í loft upp í mannþröng af því það trúir því að það sé guðs vilji. Blind trú, sama hvaða nafni hún nefnist, er alltaf, til lengri tíma litið, stór hættuleg.

Trúin ein útskýrir ekki allt
Það verður að halda því til haga að trúin er ekki eina ástæða ofbeldis, fordóma og hryðjuverka eins og stundum er haldið fram. Menning, félagslegt umhverfi, fjárhagur, menntun, upplifun einstaklinga á framtíðarmökuleikum sínum, stjórnmálaástand, langvarandi kúgun og margt, margt fleira skiptir máli. Þannig kom trúin á Allah ekki í veg fyrir það að Cordova á Spáni varð, undir stjórn múslima, að einu merkilegasta menningarsamfélagi miðalda. Á meðan kristnir voru uppteknir við að kveikja brennur til að grilla konur, trúvillinga og hugsuði voru múslímar á Spáni uppteknir við að byggja skóla, baðhús, bókasöfn og hvetja til þekkingarleitar. Um þessa sögu fjalla ég um með ítarlegri hætti í greininni Trúarbrögð og siðmenning.

Kóraninn og Biblían
Að lokum vil ég minnast aðeins á notkun Wilders á tilvitnunum í Kóraninn. Hann grefur upp nokkrar tilvitnanir sem eru uppfullar af hatursboðskapi og hvatningum til ofbeldis. Niðurstaða hans er sú að Íslam hljóti að vera vond trú. Þetta er enn ein einföldunin. Flestar trúarbækur eru uppfullar af hatri og ofbeldi, þar á meðal Biblían. Sannleikurinn er sá að hvorki Íslam né Kristni eru falleg trúarbrögð.

Þessi trúarbrögð eiga það sameiginlegt að trúarbækur þeirra innihalda fullt af góðum boðskap (Sjá gott: í Biblíunnií Kóraninum) en jafnframt afar mikið af viðbjóðslegum boðskap (Sjá grimmd: í Biblíunnií Kóraninum). Hverju einstaklingurinn fer eftir fer algerlega eftir því hverju hann er reiðubúinn til að TRÚA. Aftur er það blind trú á órökstuddar og ósannaðar fullyrðingar sem er hættulegust.

Deildu