Siðmennt hefur sent frá sér opið svarbréf við svarbréfi Karls Sigurbjörnssonar biskups. Biskup dró ekki til baka né baðst afsökunar á ummælum sínum um að Siðmennt væru „hatrömm samtök“. Það sem meira er þá heldur biskup því enn fram að Siðmennt hafi verið á móti fræðslu um kristna trú í skólum en sé nú búið að skipta um skoðun. Þetta er auðvitað alrangt eins og fram kemur í svari Siðmenntar. Ég hvet alla til að lesa svarið hér fyrir neðan eða á vefsíðu Siðmenntar.
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hefur borist svarbréf biskups Íslands við opnu bréfi félagsins frá 4. desember 2007 þar sem stjórn félagsins óskaði eftir afsökunarbeiðni biskups vegna orða hans í fjölmiðlum. Biskup verður ekki við afsökunarbeiðninni og gefur upp ástæður þess. Af því tilefni vill Siðmennt benda á eftirfarandi og eru tilvitnanir í svarbréf biskups breiðletraðar í gæsalöppum.
“Félagar Siðmenntar hafa undanfarið gengið hart fram gegn kirkju og kristni með einstrengingslegum málflutningi og kröfum um boð og bönn.”
Siðmennt hefur ávallt einsett sér að koma fram af virðingu gagnvart viðmælendum sínum þrátt fyrir að ágreiningur sé um lífsskoðanir og útfærslu mannréttinda. Í svari sínu getur biskup þess að félagið hafi „amast við“ ýmsum athöfnum í opinberum skólum sem að mati félagsins flokkast undir trúboð, m.a. „að lita og teikna trúarlegar myndir“. Þar er hann að vísa í bréf sem Siðmennt hefur sent yfirvöldum menntamála á Íslandi undanfarin ár t.d. til Menntaráðs Reykjavíkur.
Við þetta stendur félagið, en það er ekki Siðmennt sem upphaflega setti fram þá skilgreiningu sem vitnað er í heldur er hún sótt í smiðju Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í lok ársins 2005 samþykkti nefndin einróma ályktun vegna máls foreldra og barna þeirra í Noregi. Foreldrarnir höfðu krafist þess að yfirvöld menntamála þar í landi virtu hinn veraldlega grunn sem fylgja á í skólastarfi. Hér að neðan birtum við þau atriði sem teljast til trúarathafna og tilheyra EKKI skólastarfi samkvæmt áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna:
– að læra og fara með bænir
– að syngja sálma og trúarleg lög
– að taka þátt í trúarathöfnum
– að fara í skoðunarferðir í kirkjur
– hverskonar trúarlegar yfirlýsingar
– lita eða teikna trúarlegar myndir
– þátttaka í helgileikjum
– að þurfa að taka á móti trúarlegu efni s.s. biblíum (nú eða Nýja testamentinu) eða þátttaka í hverskonar samkomum með trúarlegum áherslumÞað eru mannréttindi allra að fá að lifa eftir eigin lífsskoðun svo lengi sem hún brýtur ekki á öðrum. Það eru einnig mannréttindi að fá frið fyrir trúboði í opinberum skólum. Trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar tryggir þann rétt. Krafa um trúfrelsi felur ekki í sér aðför að trú eða trúarbrögðum, hvorki kristnum né öðrum.
“Ýmsir talsmenn Siðmenntar hafa leyft sér þann málflutning að tala niðrandi um trú og krefjast banns við helgileikjum og jólaguðspjöll í skólum. Ég leyfi mér að nota orðið „hatrammur“ um þennan málflutning.”
Því miður endurtekur biskup að málflutningur Siðmenntar sé hatrammur. Samkvæmt orðabókum þýðir orðið; sá sem hatar sterkt. Siðmennt fær ekki skilið hvernig gagnrýni félagsins á afskipti trúfélaga í opinberum skólum geti talist hatrömm eða hvernig hún getur talist niðrandi tal um trú. Siðað fólk heldur uppi rökræðu um ágreiningsefni sín án þess að hatast eða nota gífuryrði.
“Í tillögum sem Siðmennt lagði fram á fundi Menntaráðs Reykjavíkur í febrúar 2005 segir: “Í stað þess (letur breyting KS) að einskorða kennslu við kristinfræði er
heillavænlegt að kenna almenna siðfræði, heimspeki og gagnrýna hugsun.” Ég fagna því ef Siðmennt vill nú styðja kristinfræðikennslu og trúarbragðafræðslu í skólum eins og fram kemur í opna bréfi félagsins til mín. Það er sannarlega gleðilegt ef Siðmennt vill taka þannig höndum saman við Þjóðkirkjuna.” [undirstrikun Siðmenntar]Siðmennt áréttar að félagið hefur alltaf verið hlynnt fræðslu um trúarbrögð, þar á meðal um kristni. Þrátt fyrir ítrekaðar leiðréttingar gefur biskup enn í skyn að um sé að ræða nýja stefnu félagsins. Af einhverjum ástæðum telur biskup að Siðmennt hafi verið á móti fræðslu um kristna trú af því félagið vill ekki einskorða trúarbragðakennslu við kristna trú. Orðið „einskorða“ merkir að sjálfsögðu ekki að Siðmennt vilji enga fræðslu um kristna trú. Siðmennt vill trúarbragðafræðslu á breiðari grundvelli.
Siðmennt hefur frá upphafi lagt áherslu á trúarbragðafræði, siðfræði, heimspeki og gagnrýna hugsun. Innan trúarbragðafræðinnar er eðlilegt að kristni og ásatrú séu gerð sérstaklega góð skil í ljósi sögu þjóðarinnar. Einnig er þó mikilvægt að fræða nemendur um mikilvægi upplýsingarinnar, efahyggju og húmanisma og áhrif þessara hugmyndakerfa á þróun frelsis og mannréttinda.
Siðmennt tekur undir orð biskups að mikilvægt sé að allir læri um sögu trúarbragða og evrópska menningu.„Ég legg mikla áhersla á að trúarbragðafræðsla, kristinfræði OG fræðslu um ólík lífsviðhorf fari fram á faglegum forsendum skólans og að fyllsta tillit sé tekið til mismunandi lífs-og trúarskoðana af virðingu og umburðarlyndi. Það gerist ekki með því að útiloka hinn trúarlega þátt og kærar hefðir eins og hatrammlega hefur verið kallað eftir í umræðunni undanfarið.“
Að mati félagsins er það trúboð þegar prestar, djáknar og guðfræðingar koma í reglubundnar heimsóknir í skóla. Til trúboðs og trúarlegrar starfsemi telur félagið einnig Vinaleið kirkjunnar. Kennsla í trúarbragðafræði, kristinfræði, heimspeki og siðfræði á að vera í höndum fagmanna – kennara. Kirkjan hefur húsnæði, starfsfólk og fjármagn til þess að sinna boðunarstarfi í kirkjum sínum. Trúarlegt uppeldi barna er á ábyrgð foreldra þeirra og geta þeir sem það vilja sótt aðstoð kirkju sinnar án þess að það gerist í opinberum skólum. Trúarlegi þátturinn á ekki að vera hluti af skólastarfi. Skólar eru ekki trúboðsstofnanir. Siðmennt hefur heldur ekki krafist sinnar aðkomu að skólum og heldur sín fermingarnámskeið utan þeirra. Siðmennt hefur ekki farið fram á afnám neinna hefða í íslensku þjóðlífi – allt tal um annað eru rangfærslur.
Siðmennt hefur áhyggjur af ófriði um skólastarf og vill leggja sitt af mörkum til þess að friður náist um það. Friður kemst ekki á nema skólar verði lausir undan ágangi trúboðs.
9. desember 2007
Hope Knútsson
Formaður Siðmenntar