Alltaf þegar Siðmennt – félag siðrænna húmanista – lætur í sér heyra birtast fullyrðingar um Siðmennt, trúleysi og húmanisma í fjölmiðlum og á netinu sem eiga lítið eða ekkert skylt við sannleikann. Ég vil því nota tækifærið og afhjúpa topp tíu ranghugmyndir um Siðmennt, trúleysi og húmanisma.
1. Siðmennt er á móti trúarbragðafræðslu í skólum.
Þessi fullyrðing heyrist oft. Oft reyndar frá fólki sem veit betur. Sannleikurinn er sá að Siðmennt hefur alltaf stutt öfluga kennslu um trúarbrögð. Siðmennt mótmælir aðeins því að trúboð og trúarlegar athafnir fari fram í opinberum skólum. Opinberir skólar eiga að vera fyrir alla og eiga að vera lausir við hvers kyns áróður.
2. Siðmennt er á móti trúarbrögðum og vill láta banna þau.
Þetta er klassískt áhyggjuefni margra. Hið rétta er að Siðmennt og húmanistar almennt eru gagnrýnir á fullyrðingar og, í sumum tilfellum á starfsemi, trúarbragða. Eitt helsta baráttumál Siðmenntar hefur þó alla tíð verið að tryggja fullt trúfrelsi á Íslandi. Það táknar meðal annars frelsi allra til að stunda og boða þá trú sem þeir kjósa. Eina krafa Siðmenntar er að ríkisvaldið og opinberar stofnanir verði ekki notaðar til að boða trú eða ákveðna lífsskoðun. Hlutverk ríkisins er að „tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram aðrar.” (Úr stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum)
3. Siðmennt er á móti Þjóðkirkjunni.
Siðmennt er á móti þjóðkirkjufyrirkomulaginu en styður rétt hinnar evangelísku lútersku kirkju til að starfa. Siðmennt kann að gagnrýna ýmislegt sem trúarsöfnuðir gera en það þýðir ekki að félagið sé „á móti“ þeim. Yfirveguð og málefnaleg gagnrýni á trúfélög á jafn rétt á sér og gagnrýni á stjórnmálaflokka. Í frjálsu lýðræðissamfélagi á opinber trúarstofnun þó ekki rétt á sér.
4. Trúleysi er trú.
Algengur þvættingur sem heyrist oft er að trúleysi sé trú rétt eins og guðstrú. Það að trúa að Jesú sé Guð er semsagt það sama og að trúa því að hann sé ekki Guð. Þetta er orðaleikur sem dæmir sig sjálfur. Trúleysi er ekki trú frekar en það að safna ekki frímerkjum er áhugamál. Eru kannski allir þeir sem trúa ekki á jólasveininn, tannálfinn og páskakanínuna þá trúaðir?
5. Trúleysingjar eru kommúnistar.
Þar sem kommúnistar hafa á tímum bannað trúarbrögð þá hljóta trúleysingjar að vera kommúnistar, ekki satt? Rangt. Húmanismi er eins langt frá kommúnisma og hægt getur. Jafnvel þó sumir kommúnistar hafi í gegnum tíðina hafi verið trúleysingjar þá voru þeir líka sanntrúaðir á heimsendastefnu sem kommúnisminn óneitanlega er. Húmanistar eru lýðræðissinnar sem berjast fyrir frjálsri hugsun á öllum sviðum. Húmanistar gagnrýna alla forræðishyggju og einræðistilburði. Ólíkt kommúnistum vilja húmanistar ekki banna neitt. Húmanistar berjast fyrir jafnrétti lífsskoðana en ekki afnámi trúarbragða með stjórnvaldi.
6. Húmanistar vilja gera alla að trúleysingjum.
Þetta er aðeins rétt að því leyti að húmanistar telja vitanlega að best væri ef sem flestir væru skynsemismenn í trúmálum og húmanistar. Það sem er rangt, og það sem er beint og óbeint gefið í skyn, er að Siðmennt og aðrir húmanistar vilji beita ríkisvaldi (eða öðru valdi) til að þvinga skoðun sína upp á aðra. Eins og áður hefur komið fram berjast húmanistar einungis fyrir jafnrétti í trúmálum og frelsi til að tala opinskátt um trúarbrögð og lífsgildi.
7. Siðmennt vill að trúleysi verði kennt í skólum.
Þetta er rétt í ákveðnu samhengi. Það er sjálfsagt að segja frá ólíkum lífsskoðunum í skólum, þar með talið húmanisma og trúleysi. Siðmennt hefur þó engan áhuga á að „boða“ trúleysi eða aðrar skoðanir í skólum. Boðun á ekki heima í skólum, sama hvort hún kemur frá stjórnmálaflokkum, fyrirtækjum, trúfélögum eða öðrum aðilum. Siðmennt hvetur til öflugrar fræðslu og þjálfun í siðfræði, tjáningu og gagnrýnni hugsun. Það á að hjálpa börnum að leita sannleikans en ekki „finna“ sannleikann fyrir þau.
8. Siðmennt vill fá stuðning frá ríkinu.
Þetta er aðeins rétt að því leyti að Siðmennt vill njóta sambærilegrar stöðu á við trúfélög hér á landi. Margir innan Siðmenntar (undirritaður meðtalinn) eru almennt á móti því að ríkið styðji eða taki þátt í starfsemi trúfélaga. Það verður þó að teljast ólíklegt að hægt sé að sannfæra yfirvöld til hætta stuðningi við trúfélög (þrýstihóparnir eru of sterkir). Næst best er því að tryggja að húmanísk, veraldleg lífsskoðanafélög eins og Siðmennt njóti sömu stöðu og trúarleg lífsskoðanafélög. Ríkið styður nú ótal mörg trúfélög með því að innheimta fyrir þau sóknargjöld og útvega þeim lóðir undir starfsemi. Ástæðan er sú að trúfélög eru talin veita mikilvæga samfélagsþjónustu. Meðal þeirra eru aðstoð við greftranir, nafngiftir, fermingar og giftingar. Húmanistar, sem vilja veita slíka þjónustu, fá engan stuðning frá hinu opinbera sem hlýtur að teljast óréttlátt og mismunun.
9. Trúleysingjar eru siðlausir.
Ákveðnir aðilar í okkar samfélagi þreytast seint á að halda því fram að trúlaus maður hljóti að vera siðlaus. Það þarf þó ekki mikla íhugun til að komast að því að trú á eitt eða fleiri yfirnáttúruleg fyrirbrigði hefur ekkert með siðferði að gera. Siðfræði fjallar um atferli manna og áhrif þess á náungann. Húmanistar halda því fram að trúarbrögð hafi í raun oft hamlandi áhrif á siðferðisumræðu. Trúleysingjar geta einbeitt sér að því að ræða siðferðileg álitamál út frá því hvaða áhrif atferli okkar hefur á náungann og samfélagið í heild. Trúaðir einstaklingar þurfa hins vegar að samræma allt sitt atferli því sem stendur í eldgömlum trúarbókum og kennisetningum. Þannig eru margir prestar sammála því að samkynhneigðir eigi að njóta sömu réttinda og virðingar og aðrir en geta ekki sagt það opinberlega því það stangast á við trúarrit þeirra. Þannig getur hin umburðarlynda Þjóðkirkja ekki gefið út einfalda siðferðilega afstöðu í þessum málum. Allt þarf að fara í gegnum „kenningarnefnd“.
10. Siðmennt er hávær minnihlutahópur.
Í sjálfu sér er ekkert rangt við þessa fullyrðingu eina og sér. Félagar í Siðmennt eru vissulega í minnihluta í samfélaginu og líklegast má rökstyðja það að við getum verið ansi hávær. Við látum í okkur heyra þegar við verðum vör við óréttlæti. Það sem gefið er í skyn er þó það að ekki þurfi að taka tillit til minnihluta. Þeir sem tala á þessum nótum gera sér ekki grein fyrir því að réttlæti hefur ekkert með prósentutölur að gera. Þannig eiga konur rétt á sömu launum og karlar, ekki af því þær eru jafn margar í samfélaginu og karlmenn, heldur einfaldlega vegna þess að þær eru manneskjur. Það er ekki rétt að mismuna einstaklingum eða hópum einfaldlega vegna þess að þeir eru í minnihluta. Annað hvort er eitthvað sanngjarnt eða ekki. Ef réttlæti er háð fjölda þá hlýtur maður að spyrja hvaða prósentutala nægir til að minnihluti fái sanngjarna meðferð? Er töfratalan 10%, 30%, 49% eða jafnvel 51% (semsagt aðeins hugsað um réttindi meirihlutans)? Staðreyndin er sú að við búum ekki í kristnu þjóðfélagi, heldur þjóðfélagi sem er fullt af ólíku fólki með ólíkan bakgrunn. Allir eiga rétt á sanngjarnri meðferð og allir eiga að vera jafnir fyrir lögum. Tímabil forréttinda kristinna, miðaldra, hvítra karla ætti að vera löngu liðið.
Sjá nánar:
Stefna Siðmenntar í trúfrelsismálum