Mannréttindadómstóll Evrópu gagnrýnir kristinfræðikennslu í opinberum skólum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

06/07/2007

6. 7. 2007

Siðmennt var að senda frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu: Mannréttindadómstóll Evrópu (ME) í Strasbourg kvað upp sögulegan dóm í máli nokkurra norskra foreldra gegn norska ríkinu þann 29. júní s.l. Um var að ræða fimm foreldra sem eru meðlimir í félagi húmanista í Noregi (Human-Etisk Forbund) og börn þeirra sem öll höfðu verið talin beitt misrétti […]

Siðmennt var að senda frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Mannréttindadómstóll Evrópu (ME) í Strasbourg kvað upp sögulegan dóm í máli nokkurra norskra foreldra gegn norska ríkinu þann 29. júní s.l. Um var að ræða fimm foreldra sem eru meðlimir í félagi húmanista í Noregi (Human-Etisk Forbund) og börn þeirra sem öll höfðu verið talin beitt misrétti vegna fyrirkomulags kennslu í kristinfræði, trúfræði og lífsskoðunum (KRL – kristendomskunnskap med religions- og livsynsorientering) í norska skólakerfinu að mati foreldrana.

Norska ríkið braut á rétti foreldra
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að norska ríkið hefði brotið á rétti barna til að fá tilhlýðilega menntun. Dómurinn komst jafnframt að því að brotið hefði verið gegn trú- og samviskufrelsi kærenda. Þessi dómur er í samræmi við niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna frá 25. mars 2002.


Niðurstaða dómsins er í stuttu máli þessi:
1) Fyrirkomulag kennslu í Kristinfræði, öðrum trúarbrögðum og heimspeki er þess eðlis að verulega er hallað á önnur trúarbrögð og aðrar lífsskoðanir en Kristni.
2) Illfært er fyrir foreldra að nýta sér rétt til undanþágu frá trúarbragðakennslu þar sem erfitt sé að fylgjast með hvenær námsefnið er við hæfi að þeirra mati.
3) Erfitt er fyrir börn og foreldra að forðast iðkun bæna, sálmasöngva, kirkjuþjónustu og trúarleg skólaleikrit á skólatíma. Því sé ekki viðeigandi að slík starfsemi fari fram í opinberum skólum.
4) Dómurinn kemst að því að yfirvöld í Noregi hafi ekki gætt þess nægjanlega að námsefni sé borið fram á hlutlausan, gagnrýninn og fjölmenningarlegan máta.

Niðurstöður ættu að hafa áhrif á Íslandi
Siðmennt og fleiri aðilar hérlendis hafa bent á sams konar galla í íslenskum skólum og skort á hlutleysi í Námsskrá Grunnskóla. Þá hefur Siðmennt bent á að trúarlegar athafnir eins og bænir, kirkjuferðir og trúarleg leikrit og söngvar séu óviðeigandi í opinberum skólum sem eiga að vera fyrir alla. Það er ljóst að dómur rennur stoðum undir gagnrýni Siðmenntar hér á landi. Það er von Siðmenntar að íslensk stjórnvöld kynni sér dóminn og beiti sér umsvifalaust fyrir því að tryggja hlutleysi í íslenskum skólum.

Sjá nánar:
Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu

Trúfrelsisstefna Siðmenntar

Nánari upplýsingar veita:
Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar
sími: 898-7585
siggi@sidmennt.is

Svanur Sigurbjörnsson, varamaður í stjórn Siðmenntar
sími: 896 3465

Deildu