USA – þar sem tryggingar snúast um fólk?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

24/06/2007

24. 6. 2007

Ég horfði á Sicko – nýjustu áróðursmynd Michael Moore – áðan. Umfjöllunarefnið er heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum og fórnarlömb þess. Mynd Moore er, eins og hans fyrri myndir, áróðurskennd og einhliða en engu að síður afar áhugaverð. Spilað er á tilfinningar áhorfenda og er það gert vel. Ekki er laust við að rakastigið í mínum augum […]

Ég horfði á Sicko – nýjustu áróðursmynd Michael Moore – áðan. Umfjöllunarefnið er heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum og fórnarlömb þess. Mynd Moore er, eins og hans fyrri myndir, áróðurskennd og einhliða en engu að síður afar áhugaverð. Spilað er á tilfinningar áhorfenda og er það gert vel. Ekki er laust við að rakastigið í mínum augum hafi aukist nokkuð á meðan myndinni stóð. Hvað sem menn vilja annars segja um Moore og vinnubrögð hans er öllum ljóst að eitthvað er verulega rotið í Kanaveldi.

Sicko fjallar ekki sérstaklega um þær 47 milljónir Bandaríkjamanna sem hafa enga sjúkratryggingu (af því þeir hafa ekki efni á henni) heldur er einblínt á þá sem eru svo „heppnir“ að vera tryggðir. Því eins og margir tryggingartakar vita þá eiga slagorð eins og „Ef þú ert tryggður, þá færðu það bætt“ oft til að vera innantóm (mundu að lesa smáaletrið).

Flestir Íslendingar þekkja sögur af hrakförum einstaklinga við að fá tjón sitt bætt hjá tryggingafélögunum. Hvað sem auglýsingarnar annars segja þá reyna tryggingafélögin alltaf að komast undan því að greiða. Tryggingar eru buisness! Það sama á við hvort um er að ræða bílatryggingar eða sjúkratryggingar.

Samkvæmt því sem fram kemur í Sicko fá starfsmenn sjúkratryggingafélaga t.a.m. bónus og launahækkanir ef þeir eru duglegir við að koma vinnuveitanda sínum hjá því að greiða fyrir læknismeðferð viðskiptavina sinna. Því færri sem fá þjónustu því meira græðir fyrirtækið. Trygginga- og lyfjafyrirtækin greiða svo fúlgur fjár á hverju ári til að lobbíera gegn öllum lagabreytingum sem gætu komið þeim illa. Sýni bandarískir stjórnmálamenn minnsta stuðning við opinbera heilbrigðisþjónustu eru þeir umsvifalaust stimplaðir kommúnistar og bendlaðir við Stalín og aðra brjálæðinga. „Opinber heilbrigðisþjónusta? Hvað næst? Samyrkjubú og myndir af Maó formanni inn á öll heimili?“ Það kemur því vart á óvart að algengasta gagnrýni á myndina og Moore er sú að myndin sé „kommúnistaáróður“ og Moore hreinræktaður „Bandaríkjahatari“ sem eigi að halda kjafti og hypja sig til Kanada, eða jafnvel enn verr til Frakklands.

Ég mæli semsagt með Sicko þó eflaust megi gagnrýna Moore fyrir áróðurskennd vinnubrögð. Bandaríska heilbrigðiskerfið er rotið og víti til að varast.

Sjá nánar:
Sicko (IMdb)

Deildu