Heilbrigðisþjónusta á forsendum heilbrigðis?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/06/2007

9. 6. 2007

Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég frétti að sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson væri orðinn heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins. Ég man satt að segja ekki eftir því að sá ágæti maður hafi oft tjáð sig um heilbrigðismál eða hefði mikinn áhuga á þessum málaflokki. Ég er nokkuð viss um að kona hans […]

Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég frétti að sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson væri orðinn heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins. Ég man satt að segja ekki eftir því að sá ágæti maður hafi oft tjáð sig um heilbrigðismál eða hefði mikinn áhuga á þessum málaflokki. Ég er nokkuð viss um að kona hans (Ágústa Johnson líkamsræktarþjálfari) hafi mun meiri áhuga á málaflokknum og eigi eftir að hafa töluverð áhrif störf ráðherrans þegar fram líða stundir.


Hver ætli hafi samið eftirfarandi setningu í ræðu ráðherrans við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra?:

„Hreyfingarleysi og offita ungmenna getur skapað stórkostlegt heilbrigðisvandamál fyrir einstaklinga síðar á lífsleiðinni.“

Að mér læðist sá grunur að líkamsræktarþjálfarinn og framkvæmdastjóri Hreyfingar hafi haft þar einhver áhrif.

Annars get ég tekið undir ýmislegt sem fram kom í ræðu heilbrigðisráðherra. Á einum stað segir hann:

„Við eigum það til að skilgreina heilbrigðismál út frá forsendum heilsubrests. Umræða um heilbrigðisþjónustu snýst gjarnan um hvernig best sé að bregðast við því sem afvega fer. Ég tel mikilvægt að við nálgumst heilbrigðisþjónustu ekki síður út frá forsendum heilbrigðis. Markmið okkar hlýtur að vera að auka heilbrigði þjóðarinnar og draga úr líkum á vanheilsu.“

Ég tek heilshugar undir þessi sjónarmið og hvet ráðherrann til að láta aðgerðir fylgja þessum orðum. Ljóst er að fjölmargir einstaklingar verða fyrir heilsubresti af því ekki er brugðist við aðstæðum þeirra strax með viðeigandi úrræðum. Á þetta við um margt eldra fólk, börn í ýmislegum vanda og einstaklinga með geðræn vandamál, svo einhverjir hópar séu nefndir.

Ég minni heilbrigðisráðherra á að nú nýverið var ákveðið að loka iðjuþjálfadeild LSH vegna skorts á starfsfólki. Launin eru svo lág að enginn fæst til að vinna á það mikilvæga verkefni að efla bata geðsjúkra og aðstoða þá við að taka þátt í samfélaginu að nýju.

Áður hef ég sagt að aðeins í heilbrigðiskerfi þar sem meiri áhersla er lögð á meðhöndlun sjúkdóma en á að viðhalda heilbrigði eru slíkir starfshættir viðhafðir.

Ef eitthvað er að marka stefnuræðu heilbrigðisráðherra má ætla að einhver breyting til batnaðar muni eiga sér stað.

Deildu