Nú eru innflytjendamálin komin til umræðu enn á ný. Eins og oft áður einkennist umræðan af ógeðfelldri blöndu af útlendingaótta og pólitískum rétttrúnaði. Ekkert nýtt hefur komið fram í umræðunni og engar nýjar lausnir á meintum vanda. Ég skrifaði grein um nákvæmlega þessi mál árið 2000 og benti á þrjár mögulegar “lausnir” við meintum innflytjendavanda.
1. Við getum bannað öllum þeim sem ekki eru nógu ríkir, nógu menntaðir eða iðka nógu líka menningu og hinn meðal Íslendingur að setjast að hér. Þannig komum við vissulega í veg fyrir hinn svokallaða útlendingavanda en förum um leið á mis við að auðga íslenskt mannlíf auk þess sem við vanrækjum þá skyldu okkar að aðstoða flóttafólk og annað bágstatt fólk til að öðlast von um betra líf.
2. Við getum gert sömu mistök og margar þjóðir með því að leyfa nánast ótakmörkuðum fjölda útlendinga að setjast hér að án þess að veita þeim nægilega aðstoð við að aðlagast nýju landi.
3. Við getum lært af mistökum annarra þjóða og veitt innflytjendum næga aðstöð til að aðlagast nýju samfélagi. Til dæmis með öflugu tungumálanámi, tækifærum til menntunar o.s.frv. Einnig þarf að mínu mati að stórbæta kennsluaðferðir í skólum landsins til að kenna börnum að vera umburðalynd gagnvart fólki af öðrum kynþáttum og frá öðrum menningarsvæðum.
Leið eitt er að mínu mati ómannúðleg einangrunarhyggja, leið tvö er heimskuleg þar sem hún leiðir óhjákvæmilega til félaglegra vandamála á meðan leið þrjú er mannúðleg, skynsamleg og þar af leiðandi rétt.
Vandinn er sá að stjórnvöld gera ekki nógu mikið til að aðstoða útlendinga við að aðlagast íslensku samfélagi. Þeim er ekki boðin ókeypis íslenskukennsla á vinnutíma, tvítyngd börn fá ekki kennslu í eigin móðurmáli (þrátt fyrir að rannsóknir sýni það auki sjálfstraust þeirra og auðveldi þeim að læra ný tungumál) og alltof lítið er gert í því að kenna börnum almennt umburðarlyndi og gagnrýna hugsun.