Hvað ef Gunnar væri ráðherra?…

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

22/11/2004

22. 11. 2004

“[V]ið verðum að skilja eftir siðferðisvitund hjá barninu. […] Hvernig ætlar þú að skila þeim ramma til barnanna ef þú hefur ekki kristin viðmið?” Þetta sagði Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins, í umræðum um trúboð í skólum sem undirritaður tók þátt í á Bylgjunni fyrir skömmu. Aðeins nokkrum vikum áður skrifaði sami siðspekingur á vefsíðu sína […]

“[V]ið verðum að skilja eftir siðferðisvitund hjá barninu. […] Hvernig ætlar þú að skila þeim ramma til barnanna ef þú hefur ekki kristin viðmið?”

Þetta sagði Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins, í umræðum um trúboð í skólum sem undirritaður tók þátt í á Bylgjunni fyrir skömmu. Aðeins nokkrum vikum áður skrifaði sami siðspekingur á vefsíðu sína að samkynhneigðir væru “hundar”, “mannhórur” og “kynvillingar.”

Hvað ef Gunnar væri menntamálaráðherra?…

Málflutningur Gunnars eru bestu rökin fyrir því af hverju það er algerlega nauðsynlegt að tryggja að ríkisreknir skólar séu hlutlausir þegar kemur að trúmálum. Skólar eiga að kenna staðreyndir, þekkingarfræði og mannlega samskiptahæfileika. Það á ekki að troða lífsgildum sumra ofan í kokið á öllum. Gott siðferði er eðlileg afleiðing aukinnar þekkingar og reynslu manna á því hvernig best sé að koma fram við náungann. Siðferði lærist ekki með því að læra gamlar goðsögur utanbókar. Kennum börnum að kenna sér sjálf, kennum þeim að leita sér þekkingar, kennum þeim að vega og meta upplýsingar. Þekking er forsenda siðferðis.

“En ef menn ætla að fara að skera niður kristnifræðslu í skólunum þá eru menn að saga greinina af sem þeir sitja á. Allt hið góða sem við eigum í íslensku þjóðlífi, íslenskri menningu, íslenskri sögu, íslenskri fortíð, nútíð og framtíð byggir á kristni.” – Gunnar Þorsteinsson

Annað hvort er Gunnar einstaklega fáfróður um sögu mannkyns eða hann er hreinlega að ljúga. Bókstafstrúarmenn hafa í sögulegu samhengi alltaf verið síðastir til að berjast gegn kynþáttahatri, þrælahaldi, kvenkúgun og öðru misrétti. Siðferði nútímamannsins er í engum tengslum við siðfræði Biblíunnar. Hvergi er hvatt til lýðræðis, frelsis, málfrelsis eða almennar menntunar í Biblíunni.

Gunnarar fortíðarinnar börðust gegn réttindum kvenna, gegn réttindum fólks af ólíkum kynþáttum og gegn frelsun þræla. Öll þessi siðlausa barátta var háð í nafni Guðs. Gunnarar nútímans láta sér nægja að berjast gegn réttindum samkynhneigðra:

“Ég ætla ekki að fara að útlista þann viðbjóð sem þetta fólk [samkynhneigðir] ástundar í kynlífi sínu, en í raun er það kjarninn sem þessi gleði [Gay Pride] snýst um. Þetta er ekki ástæði til gleði, öllu fremur ógleði.” – Gunnar Þorsteinsson

“Með þennan efnivið [Biblíuna] leggja menn síðan af stað og ætla að búa til sætsúpu sem á að ganga greiðlega niður í kokið á kynvillingunum.” – Gunnar Þorsteinsson

Hvað ef Gunnar væri félagsmálaráðherra?…

Ljóst er að Gunnar myndi aldrei sætta sig við að búa í landi þar sem “múslímskt siðferði” væri hluti af opinberri skólastefnu. Gunnari væri hollt að minnast orða Confúsíusar, sem var uppi meira en 500 árum fyrir krist, sem sagði að menn ættu aldrei að gera öðrum það sem þeir vildu ekki að aðrir gerðu sér.

„Við verðum að skilja eftir kristin viðmið. Annars búum við hér til barbarisma og anarkisma í landinu.” – Gunnar Þorsteinsson

“Dauðarefsins er boð sem Guð endurtekur í öllum fimm Mósebókunum, í Toranu og þetta er einnig skilningur Nýja Testamentisins.” – Gunnar Þorsteinsson

“Þegar Guð hefur talað er málið tæmt og endanlegt, sá einn sem er alvitur og óskeikull hefur sagt sitt álit. Guð gefur mannlegu réttarkerfi það vald í hendur að taka misgjörðamann af lífi.“ – Gunnar Þorsteinsson”

Hvað ef Gunnar væri dómsmálaráðherra?…

Verndum trúfrelsið. Aðskiljum ríki og kirkju.

Sjá nánar:
Trúboð í skólum – Reykjavík síðdegis (texti og upptökur)
Vefleiðarar Gunnars í Krossinum

Af Skoðun
Trúarbrögð og siðmenning
Siðferði, trú og trúleysi

Af vef Siðmenntar:
Trúfrelsisstefna Siðmenntar

Deildu