Frá árinu 2000 hefur dauðarefsingum verið beitt gegn barnungum afbrotamönnum í aðeins fimm löndum í heiminum. Bandarísk dómsvöld hafa verið duglegust við að dæma börn til dauða, en í landi frelsis og trúfestu hafa alls níu einstaklingar verið aflífaðir á þessari öld fyrir afbrot sem þeir frömdu á barnsaldri. Hin löndin, sem Bandaríkin virðast bera sig saman við, Kína, Kongó, Pakistan og Íran, hafa ekki verið alveg eins dugleg. Þau hafa þó samanlagt dæmt jafn mörg börn til dauða og Bandaríkin.
Það er ótrúlegt að í öflugu lýðræðisríki eins og Bandaríkjunum sé enn lögð meiri áhersla á refsingu frekar en réttlæti. Börn eru þar ítrekað dæmd til langrar fangelsisvistar og skera Bandaríkjamenn sig þannig úr hópi vestrænna lýðræðisþjóðfélaga sem hafa talið börn þurfa sérstaka vernd og umönnun. Á meðan börn eru “dæmd” til umönnunar og aðstoðar í Evrópu eru þau send í fangelsi í Bandaríkjunum.
Bandaríkjastjórn hefur, ólíkt stjórnvöldum annarra vestrænna ríkja, ekki viljað samþykkja að fullu 37. grein Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna þar sem segir.
“Aðildarríki skulu gæta þess að:
a) Ekkert barn sé látið sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ekki skal ákveða dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn fyrir afbrot sem yngri menn en 18 ára hafa framið.”
Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty hafa 22 einstaklingar verið aflífaðir í Bandaríkjunum frá 1977 fyrir glæpi sem þeir frömdu þegar þeir voru yngri en 18 ára. Fleiri en 70 bíða þess nú að verða teknir að lífi. Fjölmörg börn til viðbótar eru dæmd, rétt eins og fullorðnir einstaklingar, til langrar fangelsisvistar og vitað er að allt niður í 13 ára gömul börn hafa verið höfð í haldi í herstöð Bandaríkjanna í Guantánamo. Það er undarlegt að hugsa til þess að þessir glæpir gegn börnum eru framdir í þjóðfélagi þar sem meirihluti almennings telur trúarleg og “siðferðileg gildi” skipta sig mestu máli þegar hann kýs sér ráðamenn.
Fáfræði og fátækt eru helstu orsakir glæpa. Lausnirnar felast því í betri almennri menntun og fjárhagslegu sjálfstæði sem flestra, ekki fangelsum og rafmagnsstólum. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir erfiðum aðstæðum. Þjóðir sem geta ekki byggt réttarkerfi sín á þessum augljósu staðreyndum geta vart talist til siðmenninga. Því miður trúa sumir enn að ill og góð yfirnáttúruleg öfl stjórni heiminum og að einstaklingar séu í eðli sínu góðir eða slæmir. Fólk sem trúir slíkri vitleysu er ekki líklegt til að berjast fyrir menntun og félagslegum úrbótum til að koma í veg fyrir glæpi. Slíkt fólk kallar á hertari refsingar og stærri fangelsi.
Rómverska leikritaskáldið Seneca, sem var uppi fyrir 2000 árum síðan, virðist hafa skilið réttlæti og tilgang refsinga betur en öflugasta lýðræðisríki heims gerir í dag. Er það ekki svolítið sorglegt?
“The wise man will not pardon every crime that should be punished, but he will accomplish in a nobler way all that is sought in pardoning. He will spare some and watch over some because of their youth, and others on account of their ignorance. His clemency will not fall short of justice, but will fulfil it perfectly.” – Seneca 5 f.o.t. – 65 e.o.t.