Ímyndaður útlendingavandi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/11/2004

17. 11. 2004

Ný könnun Gallups um afstöðu Íslendinga til útlendinga er skýrt dæmi um nauðsyn þess að halda uppi opinni og gagnrýnni umræðu um málefni innflytjenda. Samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallups hafa fordómar gagnvart útlendingum aukist nokkuð og fleiri en áður eru á móti því að útlendingar fái að setjast að og vinna hér á landi. Afstaða fólks […]

Ný könnun Gallups um afstöðu Íslendinga til útlendinga er skýrt dæmi um nauðsyn þess að halda uppi opinni og gagnrýnni umræðu um málefni innflytjenda. Samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallups hafa fordómar gagnvart útlendingum aukist nokkuð og fleiri en áður eru á móti því að útlendingar fái að setjast að og vinna hér á landi. Afstaða fólks virðist byggjast á ótta sem ekki er í samræmi við neinar staðreyndir. Tölulegar staðreyndir sýna ekki fram á nein “vandamál” vegna innflytjenda á Íslandi sem geta útskýrt vaxandi óþol Íslendinga gagnvart þeim.

Könnun Gallups er reyndar nokkuð þversagnarkennd. Langflestir sem tóku þátt virðast vera sammála því að Íslendingar hafi gott af því að kynnast framandi menningu (76,5%*) og að þeir sem flytjast til Íslands eigi rétt á því að viðhalda eigin menningu (64,3%*). Þegar spurt er hvort leyfa ætti fleiri útlendingum að vinna hér á landi verður afstaða landans mun neikvæðari, en einungis tæpur þriðjungur svarenda (28,1%*) var þeirrar skoðunar. Enn færri (27,5%*) telja að Íslendingar ættu að taka við fleiri flóttamönnum. Þeim sem vilja leyfa fleiri útlendingum að vinna hér hefur fækkað um heil 14% frá því 1999 og 18% færri vilja nú að Íslendingar taki við fleiri flóttamönnum.

Fréttnæmi vandamála
Hvað veldur þessari neikvæðu breytingu á viðhorfum landsmanna? Valda innflytjendur einhverjum sérstökum vandamálum á Íslandi? Svarið við þessari spurningu er nei. Þrátt fyrir neikvæða afstöðu Íslendinga hefur atvinnuþátttaka útlendinga haldið uppi hagvexti á Íslandi. Útlendingar taka nefnilega að sér vinnu sem innfæddari vilja ekki af ýmsum ástæðum og með þátttöku sinni taka útlendingar um leið þátt í því að skapa aukin atvinnutækifæri fyrir alla sem búa á Íslandi.

“Hvað sem öðru líður þá eru innflytjendur á Íslandi mjög virkir á vinnumarkaðnum og atvinnuleysi meðal þeirra er minna en meðal Íslendinga sjálfra. Þeir hafa mætt mikilli eftirspurn eftir vinnuafli, iðulega í störf sem Íslendingar hafa ekki áhuga á að sinna og þar með átt sinn þátt í að halda uppi hagvexti og hagsæld þjóðarinnar. Það ber að virða og þakka.”
Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar – “Eins og fólk er flest” 14. nóvember 2004.

Að sama skapi bendir ekkert til þess að innflytjendur fremji frekar glæpi en Íslendingar og eins og staðan er í dag virðast innflytjendur laga sig ágætlega að íslensku þjóðfélagi.

“Fátt bendir til að hlutur útlendinga sé stærri í hegningarlagabrotum en fjöldi þeirra í íslensku samfélagi segir til um.”
Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands – “Eins og fólk er flest” 14. nóvember 2004.

Þegar staðreyndir sýna að innflytjendur á Íslandi hafi fyrst og fremst jákvæð áhrif á íslenskt samfélag en séu ekki sérstakt vandamál er undarlegt að lesa niðurstöður kannana þar sem óþol og fordómar gagnvart þeim fara vaxandi. Ég tel helstu ástæðuna vera þá að þegar fjölmiðlar fjalla um útlendinga er það yfirleitt gert með neikvæðum formerkjum:

“Maður frá Útlendingalandi stakk Íslending í áflogum um helgina”, “Kona frá Annarstaðarríki hefur í hótunum”, “Þrjú ungmenni ættuð frá Svartalandi voru handtekin með þrjú grömm af amfetamíni á laugardaginn”.

Fyrirsagnir og upphrópanir sem þessar eru óþolandi algengar í fréttum og dægurmálaefni fjölmiðla. Undarleg tilhneiging fjölmiðlafólks til að minnast sérstaklega á upprunaland afbrotamanna veldur fordómum og umræðum á kaffihúsum sem hljóma einhvern veginn svona:

Jón: “Lastu fréttina af ekki-kristintrúarmanninum sem barði konuna sína í Breiðholtinu um daginn?”

Gunnar: “Já, þetta er rosalegt. Það er löngu kominn tími til að henda þessu ekki-kristintrúarfólki út úr landinu!”

Jón: “Já það þarf í það minnsta tryggja að þeir taki upp íslenska siði.”

Fjölmiðlar hafa gríðarleg áhrif á skoðanir fólks og í leit af fyrirsögnum og fréttum sem selja er mikil áhersla lögð á neikvæðar fréttir um eitthvað hrikalega hættulegt. Neikvæðni og ótti selur. Í Bandaríkjunum bendir til dæmis margt til þess að fjölmiðlaumfjöllun um glæpi hafi aukist töluvert á síðustu árum þrátt fyrir að glæpatíðnin hafi farið lækkandi á sama tíma. Að sama skapi virðist neikvæð umræða um innflytjandamál á Íslandi vera nokkuð mikil og stöðug þrátt fyrir að raunveruleikinn gefi tilefni til mun jákvæðari umfjallana.

Það má þó ekki gleymast að ýmis vandræði geta auðvitað fylgt innflytjendamálum og því er nauðsynlegt fyrir alla að vera á varðbergi. Nauðsynlegt er að ala á umburðarlyndi gagnvart ólíkum lífsviðhorfum og tryggja það að aðbúnaður minnihlutahópa sé á öllum tíma sem bestur.

“Minnihlutahópar með háa tíðni glæpa og fangelsana á Vesturlöndum eru yfir höfuð lakar settir félags- og efnahagslega en aðrir – ekki síst ólöglegir innflytjendur. Rannsóknir hafa lengi sýnt að eftir því sem staða fólks er bágbornari aukast líkurnar á margvíslegum afbrotum eins og ofbeldi og auðgunarbrotum. Sambandið er þó ekki algilt, undantekningar finnast. Önnur skýring er að eftir því sem menning og siðir innflytjenda er ólíkari nýja landinu aukist líkurnar á frávikshegðan og afbrotum.”
Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands – “Eins og fólk er flest” 14. nóvember 2004.

Hugarfar og pólitískur vilji
Framtíð innflytjandamála á Íslandi er undir okkur sjálfum komin. Við getum valið um að ala upp á fordómum gagnvart útlendingum og öðrum menningarheimum eða við getum tileinkað okkur hugarfar heimsborgarans með því að rækta innra með okkur umburðarlyndi og þrá til að kynnast nýju fólki og framandi menningu. Við getum lokað landamærunum og sett skilyrði í lög um að allir Íslendingar skuli vera hvítir og kristnir af ótta við að allt sem er öðruvísi sé hættulegt. Við getum líka reynt að skapa opið samfélag þar sem fólk frá öðrum menningarsvæðum fær að setjast hér að og auðga um leið atvinnulíf okkar og menningu. Til þess að svo megi verða þurfa stjórnvöld að sjá til þess að aðbúnaður innflytjenda góður og að almenn mannréttindi þeirra tryggð.

*Frekar eða mjög sammála

Ítarefni:
Könnun Gallups
Eins og fólk er flest

Deildu