Sú krafa Davíðs Oddssonar forsætissáðherra, og annarra sjálfstæðismanna, að sett verði íþyngjandi lög um fjölmiðla ber sterkan keim af ofsóknaræði. Frjálshyggjusinnaðir sjálfstæðismenn sem oftast eru á móti öllum samkeppnislögum virðast nú hlynntir lögum um fjölmiðla og íhaldssamir flokksbræður þeirra, sem hafa alltaf hatast út í þá hugmynd að opna bókhald stjórnmálaflokkana krefjast þess nú að eignarhald á fjölmiðlum verði gert opinbert. Menn sem ekki kvika frá sínum hugsjónum?
Mikilvægt er að til séu sanngjarnar reglur um fjölmiðla sem vernda tjáningarfrelsið og tryggja lágmarks fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Málefnaleg rök eru fyrir slíkum reglum.
Enn sterkari rök eru fyrir því að opna bókhald stjórnmálaflokkana. Ef mikilvægt er að menn viti hverjir eiga fjölmiðla þá hljóta að vera enn sterkari rök fyrir því að almenningur fái að vita hverjir „eiga“ stjórnmálaflokkana.
Ef rík ástæða er til að draga úr samþjöppun á fjölmiðlamarkaði (sem vel kann að vera) þá er enn ríkari ástæða til að draga úr völdum ráðamanna. Þegar pirringur forsætisræðaherra er farinn að hafa veruleg áhrif á starfsemi fyrirtækja og hundruð starfsmanna þeirra þá hljóta menn að sjá hve nauðsynlegt það er að draga úr völdum ráðherra og löggjafans.
Samsæriskenningar – barátta við djöfulinn
Ekki misskilja mig. Ég tel leikreglur og lög nauðsynlegar til að vernda lýðræðið og tjáningarfrelsið. Slíkar leikreglur á hins vegar ekki að setja nema að undangenginni ítarlegri umræðu en ekki á nokkrum dögum fyrir lok þings. Af hverju eru sjálfstæðismenn svona stressaðir? Af hverju þarf þessi lög strax, án ítarlegrar umræðu? Ein ástæðan er eflaust allar þær stórundarlegu, en oft skemmtilegu, samsæriskenningar sem heyrast reglulega um „Baugsveldið“.
Ég heyrði eina magnaða í gær. Mér var sagt af ungum sjálfstæðismanni að það væri augljóst að Fréttablaðið væri gefið út í pólitískum tilgangi. Þar væru fréttir reglulega skrifaðar til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Þegar ég bað um dæmi var mér bent á frétt sem birtist í síðustu viku. Frétt um það þegar víkingasveitin ruddist vopnuð inn á heimili manns og gerði þar upptækt þýfi.
Sjálfstæðismanninum unga fannst út í hött að það hefði þótt sértaklega fréttnæmt að víkingasveitin hefði verið sent á vettvang. Hann sagði augljóst að hér hefði Fréttablaðið fyrst og fremst verið að reyna að koma höggi á Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Manninum var fúlasta alvara og er þessi kenning í takt við ótal aðrar sem ég hef fengið að hlusta á síðustu misserin.
Þessir sjálfstæðismenn minna mig stundum á miðaldapresta sem sjá djöfulinn í hverju horni. Allt sem úrskeiðis fer er djöflinum að kenna og honum verður að útrýma. Ef Baugsveldið er djöfullinn, hver ætli þá að sé yfirsæringarmaðurinn?
Áhugaverðar síður:
Greinagerð um eignarhald á fjölmiðlum
Open Secrets