Pólitískir peningar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

03/02/2000

3. 2. 2000

Það hefur líklegast ekki farið fram hjá neinum að fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna hafa verið mikið til umfjöllunar í fréttum síðustu daga. Í kjölfar þessarar umfjöllunar hafa ýmsir spurt hvort ekki sé kominn tími til að settar verði einhverjar reglur um fjármál stjórnmálaflokka hér á landi. Opið bókhald Nú er ég einn af þeim sem […]

Það hefur líklegast ekki farið fram hjá neinum að fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna hafa verið mikið til umfjöllunar í fréttum síðustu daga. Í kjölfar þessarar umfjöllunar hafa ýmsir spurt hvort ekki sé kominn tími til að settar verði einhverjar reglur um fjármál stjórnmálaflokka hér á landi.

Opið bókhald
Nú er ég einn af þeim sem er ekkert sérstaklega hlynntur óþarfa lögum og reglum eða boðum og bönnum. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að til séu reglur um það hvernig stjórnmálaflokkar fjármagna starfsemi sína. Mér þykir það lágmarkskrafa að stjórnmálaflokkar verði skyldaðir til að birta nöfn þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem styrkja þá. Kjósendur hafa að mínu mati fullan rétt á að fá upplýsingar um hvaða aðilar standa á bak við þá stjórnmálaflokka sem í boði eru hverju sinni.

Ýmsir hafa mótmælt tillögum sem þessum um opið bókhald og bent á að einstaklingar og fyrirtæki veigri sér við að styrkja stjórnmálaflokka ef nöfn þeirra verði gerð opinber. Þetta kann að vera rétt. En á móti kemur að ef að fullkomin leynd ríkir um þá sem leggja fram peninga til stjórnmálasamtaka er aukin hætta á því að fjársterkir aðilar geti haft óeðileg áhrif á einstaka stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn. Ef einstaklingar og fyrirtæki vilja ekki sýna stuðning sinn undir nafni þá verður það bara að vera þeirra mál.

Margir benda á að það geti verið, af augljósum ástæðum, ógn við lýðræðið að einstakir fjársterkir aðilar leggi fram háar fjárfúlgur til styrktar ákveðnum stjórnmálaflokki, sérstaklega ef sá flokkur er í ríkisstjórn. Nú legg ég alls ekki til að einstaklingum og fyrirtækjum verði bannað að styrkja einstaka stjórnmálaflokka. Heldur legg ég til að bókhald þeirra flokka sem taka við styrkjum verði galopið. Þannig geta kjósendur sjálfir skorið úr um það hvort einstaka styrktaraðilar hafi einhver áhrif á stefnu og framkvæmdir flokkanna.

Deildu