Saga tveggja flokka

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

01/02/2000

1. 2. 2000

Allt frá því farið var að vinna í því að koma Samfylkingunni á fót hafa ýmsir talsmenn hennar valið sér breska Verkamannaflokkinn sem fyrirmynd. Samt finnst manni sem ansi margt sé ólíkt með þessum tveimur flokkum. Þar má meðal annars taka samskipti þeirra við verkalýðshreyfinguna. Að efla tengslin Margt forystufólk Samfylkingar hefur talað um nauðsyn […]

Allt frá því farið var að vinna í því að koma Samfylkingunni á fót hafa ýmsir talsmenn hennar valið sér breska Verkamannaflokkinn sem fyrirmynd. Samt finnst manni sem ansi margt sé ólíkt með þessum tveimur flokkum. Þar má meðal annars taka samskipti þeirra við verkalýðshreyfinguna.


Að efla tengslin
Margt forystufólk Samfylkingar hefur talað um nauðsyn þess að Samfylkingin og verkalýðshreyfingin ættu gott samstarf. Í sama streng hafa ýmsir verkalýðsforkólfar, með forystumenn Alþýðusambandsins í forystu, tekið. Með slíku samstarfi hafa menn viljað efla mátt hvoru tveggja. Nú þegar er þessi þróun gengin svo langt að Alþýðusambandið er orðið aðili að SAMAK, samtökum norrænna jafnaðarflokka og verkalýðshreyfinga sem Alþýðuflokkurinn – jafnaðarmannaflokkur Íslands hefur löngum átt aðild að.

Breski Verkamannaflokkurinn hefur hins vegar á undanförnum árum verið að minnka vægi verkalýðshreyfingarinnar og draga úr áhrifum þeirra innan flokksins. Þetta hefur forysta flokksins gert með það fyrir augum að auka sjálfstæði flokksins, raunverulegt og ímyndað, gagnvart verkalýðshreyfingunni. Andstæðingar flokksins á hægri vængnum töluðu löngum um að ef Verkamannaflokkurinn kæmist til valda í Bretlandi væri hætt við að þjóðin lenti í gíslingu verkalýðshreyfingarinnar.

Um hvað snýst þetta
Nú ætla ég ekki að segja að það sé líklegt að verkalýðshreyfingin á Íslandi myndi halda íslensku þjóðfélagi í gíslingu kæmist Samfylkingin til valda. Þó ekki væri nema fyrir það að hér eru of margir flokkar til að mynda einsflokks stjórn og Samfylkingin of lítil til að hafa sömu áhrif á þjóðfélagið og jafnaðarmannaflokkar í flestum löndum Evrópu. Þó hefur löngum verið litið svo á að mikil áhrif verkalýðsleiðtoga, sem og reyndar atvinnurekenda, innan stjórnmálaflokka og ríkisstjórna gætu haft slæm áhrif á þróun mála sem þarf að vinna að. Besta dæmið um þetta er ástandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

Deildu