Fleiri sólgleraugu og færri Hollendingar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

24/02/2004

24. 2. 2004

Skýrsla bandaríska landvarnaráðuneytisins um þá meintu ógn sem stafar af lofslagsbreytingum á næstu árum og áratugum hefur beint athygli almennings að umhverfismálum enn á ný og varla vanþörf á. Óttast skýrsluhöfundar að náttúruhamfarir og hungursneyð í kjölfar loftlagsbreytinga geti haft þau áhrif að styrjaldir brjótist út í heiminum í auknum mæli. Þeir telja jafnframt að […]

Skýrsla bandaríska landvarnaráðuneytisins um þá meintu ógn sem stafar af lofslagsbreytingum á næstu árum og áratugum hefur beint athygli almennings að umhverfismálum enn á ný og varla vanþörf á. Óttast skýrsluhöfundar að náttúruhamfarir og hungursneyð í kjölfar loftlagsbreytinga geti haft þau áhrif að styrjaldir brjótist út í heiminum í auknum mæli. Þeir telja jafnframt að aukið hitastig geti valdið því að sumar helstu borgir Evrópu fari undir sjó innan aðeins tveggja áratuga.


Þó niðurstaða skýrslunnar sé ekki líkleg, þá er hún möguleg. Hægri íhalds- og frjálshyggjumenn hafa hins vegar fullyrt í mörg ár að slík umhverfisáhrif vegna iðnaðar sé samsæriskenning, en ef ekki þá eigi alls ekki að setja reglur til að draga úr mengun því þær geti skaðað stórfyrirtæki. Háttsettir hægrimenn hafa hins vegar hvatt almenning til að kaupa sér sterkari sólgleraugu, sólvarnir og einfaldlega flytji til landa sem ekki eiga það hættu á að fara undir sjó.

Öfgakennd umræða
Umræðan um umhverfismál er því miður oft afar öfgakennd. Annað hvort spá menn dómsdegi innan örfárra ára eða fullyrða að gróðurhúsaáhrifin og þynning ósonlagsins vegna mengunar séu samsæriskenningar.

Fjölmargar vísindalegar rannsóknir gefa hins vegar til kynna að meðalhitastig jarðar geti hækkað að minnsta kosti um 1-4 °C á næstu 100 árum ef ekkert verður að gert. Slík hækkun á hitastigi gæti haft veruleg áhrif á lífsskilyrði manna. Til dæmis gæti yfirborð sjávar hækkað það mikið að fjölmargar byggðir færu undir sjó.

Lausnir frjálshyggju- og hægrimanna
Þeir fáu frjálshyggju- og hægrimenn sem viðurkenna þann möguleika að mengun vegna iðnaðar gæti haft áhrif á veðurfar og umhverfi jarðar eru þó alfarið á móti öllum reglum sem gætu dregið úr mengun. Hafa þeir líkt slíkum reglum við kommúnisma og stundum jafnvel við hreinræktaðan fasisma.

Það ætti því varla að koma á óvart að Donald Hodels, innanríkisráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn Ronald Reagans, lagði það til, í fúlustu alvöru, að fólk keypti sér sterkari sólgleraugu til að verja sig fyrir geislum sólarinnar ef ósonlagið héldi áfram að þynnast. Ekki kom til greina að herða reglur um meðferð Freons (efni sem veldur þynningu ósonlagsins).

Annar þekktur frjálshyggjumaður, George Reisman, var sömu skoðunar og Hodels. Reisman sem var á sínum tíma meðlimur í sértrúarsöfnuði Ayn Rands, átrúnaðargoði flestra ungra frjálshyggjumanna, lýsti því yfir í bók sinni „Capitalism: A Treatise on Economics“ að ef hitastig jarðar myndi hækka með þeim afleiðingum að Holland færi undir sjó (eins og umrædd spá gerir ráð fyrir) væri einfaldlega best að flytja Hollendinga. Ef Evrópumenn og Bandaríkjamenn myndu bjóða Hollendingum að flytja til sín myndi aukið hitastig jarðar ekki hafa svo mikil áhrif á efnahagslíf heimsins (það eina sem skiptir máli) og fæstir myndu í raun taka eftir nokkrum breytingum (nema kannski Hollendingar?). Reisman lagði til að aðrir jarðarbúar fengju sér betri loftræstingakerfi. Þið megið svo giska á hvaða lausnir Reisman hafði upp á að bjóða til að draga úr skaða vegna minnkandi ósons í lofthjúpi jarðar. Rétt hjá ykkur: „fleiri sólgleraugu, fleiri hattar og betri sólvarnir.“

Raunverulegt vandamál þarf raunverulegar lausnir
Fáum dylst að umhverfisspjöll vegna iðnaðar er raunverulegt vandamál. Það þarf að taka á þeim með raunverulegum lausnum. Ólíkt frjálshyggjumönnum hugnast mér ekki að ganga um með sólgleraugu allt árið eða flytja til fjalla bara til þess að hafa sem minnst áhrif á „efnahagslíf heimsins“. Við „kommúnistarnir“ styðjum því skynsamlegar reglur til að draga úr mengun og koma þannig í veg fyrir náttúruhamfarir af mannavöldum, hvort sem von er á þeim eftir 20 ár eða 200.

Deildu