Stjórnarskrárbundið óréttlæti

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/02/2004

25. 2. 2004

„Frelsisunnandinn“ og „lýðræðissinninn“ George Bush, Bandaríkjaforseti, hefur ákveðið að leggja sitt af mörkunum til að koma í veg fyrir sjálfsögð mannréttindi samkynhneigðra í eitt skipti fyrir öll. Í nafni „lýðræðis“ og til verndar „grundvallarstofnun siðmenningarinnar“ hefur hann ákveðið að hvetja þingheim til að breyta stjórnarskrá Bandaríkjanna þannig að hjónaband verði sérstaklega skilgreint sem samband karls […]

„Frelsisunnandinn“ og „lýðræðissinninn“ George Bush, Bandaríkjaforseti, hefur ákveðið að leggja sitt af mörkunum til að koma í veg fyrir sjálfsögð mannréttindi samkynhneigðra í eitt skipti fyrir öll. Í nafni „lýðræðis“ og til verndar „grundvallarstofnun siðmenningarinnar“ hefur hann ákveðið að hvetja þingheim til að breyta stjórnarskrá Bandaríkjanna þannig að hjónaband verði sérstaklega skilgreint sem samband karls og konu.

Útsendari Guðs á Jörðu
Guðsmenn vestanhafs geta varla leynt kæti sínu yfir þessari „kristilegu“ baráttu Bush gegn „kynvillingum“ og telja nú eðlilegt næsta skref vera að ríkisstjórnin hefji heilagt stríð gegn fóstureyðingum. Bush hefur margsinnis lýst því yfir að hann sé alfarið á móti öllum fóstureyðingum en hefur hingað til ekki viljað banna þær alfarið með lögum. Nú þegar hann hefur fyrirskipað stjórnarskrárbreytingu til að styðja andúð sína gegn samkynhneigðum er varla langt að bíða svipaðrar lagasetningar gegn fóstureyðingum.

Í einhverjum þættinum á íslensku biblíustöðinni Ómega var fullyrt að Bush yngri væri sérstakur „sendiboði Guðs á Jörðu“ og að hann væri augljóslega „blessaður“ í starfi sínu. Líklega hefur hann nú verið tekinn í dýrlingatölu.

Frelsi er ekki það sama og frelsi
Árásir Bush og repúblíkana á mannréttindi bandarískra þegna eru orðnar það harðar og hættulegar að háaldraðir frjálslyndir hæstaréttadómarar eru hræddir við láta af starfi sínu af ótta við að íhaldssamir ofsatrúarmenn verði skipaðir í stað þeirra. Ef það gerist eru félagsleg mannréttindi Bandaríkjamanna í verulegri hættu. Þeim er hér með óskað góðrar heilsu.

En það eru ekki bara ofsatrúarmenn og íhaldsmenn sem styðja Bush og félaga. Fjölmargir ofur-hægrimenn og frjálshyggjumenn styðja hann einnig því þeir virðast telja að frelsi í viðskiptum og skattalækkanir trompi allt félagslegt frelsi og sjálfsögð mannréttindi. Svona getur pólitíkin verið undarleg.

Deildu