Barnaskapur eða heimsvaldastefna?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

29/01/2004

29. 1. 2004

Það er ótrúlegt að hlusta á viðbrögð stjórnarliða við þeim eðlilegu og sjálfsögðu kröfum um að þeir biðji þjóðina afsökunar fyrir að hafa stutt hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum í Írak. Ekkert bendir til annars en að engin gjöreyðingavopn séu að finna í landinu og því ekki ein einasta réttlæting fyrir stríðrekstrinum. Það er ekkert […]

Það er ótrúlegt að hlusta á viðbrögð stjórnarliða við þeim eðlilegu og sjálfsögðu kröfum um að þeir biðji þjóðina afsökunar fyrir að hafa stutt hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum í Írak. Ekkert bendir til annars en að engin gjöreyðingavopn séu að finna í landinu og því ekki ein einasta réttlæting fyrir stríðrekstrinum. Það er ekkert grín að styðja árásarstríð enda hafa þúsundir manna, kvenna og barna látið lífið og örkumlast fyrir lífstíð vegna stríðsins.

Rétt eins og þeir sem voru á móti árásinni á Írak spáðu fyrir að myndi gerast hafa stríðshaukarnir breytt málflutningi sínum talsvert. Í stað þess að leggja áherslu á meinta gjöreyðingavopnaeign Íraka og þá gríðarlegu ógn sem umheiminum átti að hafa stafað af Saddam Hussein og félögum réttlæta haukarnir stríðreksturinn með mannúðarrökum. Saddam var illmenni og því var það skylda Vesturlanda að koma honum frá völdum.

Ef mannúðarsjónarmið ráða afstöðu hinna viljugu þjóða þá eiga þessar þjóðir mikið verk fyrir höndum svo ekki sé meira sagt. Nóg er af illmennum og einræðisherrum á þessari litlu plánetu okkar til að halda stríðsvél Vesturlanda gangandi um ókomin ár.

Auðblekktir ráðamenn
Utanríkisráðherra, forsætisráðherra og aðrir mætir menn í ríkisstjórn Íslendinga segjast hafa fylgt Bandaríkjamönnum og Bretum í góðri trú. Í þeirri trú að Bush og Blair og leyniþjónustur þeirra hafi verið að segja satt. Gott og vel, það er hægt að ímynda sér að ráðamenn þjóðarinnar séu svolítið auðtrúa. Þeir trúðu áróðrinum þrátt fyrir svarta sögu Bandaríkjastjórnar í utanríkismálum og auðséða viðskiptahagsmuni þeirra af því að ná yfirráðum í Írak.

“Það var auðvitað margt sem kom til álita í Persaflóastríðinu en það sem ég hef vafalítið verið að segja með þessu er, að ef ekki hefði verið olía í Kúveit hefði stríðið til frelsunar ríkisins ekki verið háð. […]” – Jón Ormur Halldórsson*

“Ef Saddam Hussein væri einræðisherra í Afríku en stjórn hans og vopnabúnaður væri nákvæmlega eins og hann er, dettur þá nokkrum manni í hug að þrjúhundruð þúsund hermenn frá Bandaríkjunum og Bretlandi væru núna í stríði til að fella stjórn hans? Datt einhverjum í hug að fara í stríð við Indónesíu þegar það ríki réðist inn á Austur-Tímor, hernam landið og drap fimmtung allra íbúa þess?” – Jón Ormur Halldórsson*

Ef afleiðingarnar væru ekki eins hræðilegar og raun ber vitni væri trúgirni íslenskra yfirvalda næstum því krúttleg. Hún minnir einna helst á lítil börn sem trúa statt og stöðugt á jólasveininn þrátt fyrir allar staðreyndir og jafnvel vegna þeirra. En afleiðingarnar eru hins vegar alvarlegar og íslenskir ráðamenn eru ekki börn. Íslenska þjóðin á því skilið að fá einlæga afsökunarbeiðni frá yfirvöldum.

Nýja gamla lygin afhjúpuð
Nú þegar ljóst er að heimsbyggðinni stafaði engin sérstök ógn að illmenninu í Bagdad hafa stríðshaukarnir framleitt nýja lygi til að réttlæta árásina á Írak. Bandaríkjastjórn og hinir viljugu þjóðþrælar þeirra fóru í stríð við Írak af því þeim var svo annt um hinn almenna borgara í landinu. Þvílíkt kjaftæði. Það sem ég á sameiginlegt með flestum friðarsinnum og öðrum þeim sem mótmæltu árásinni á Írak er einmitt umhyggjan fyrir almenningi í Írak og í öðrum löndum þar sem réttindi manna eru fótum troðin. Bandaríkjastjórn (öðru máli gegnir um marga Bandaríkjamenn) hefur hins vegar verið skítsama um hag almennings í öðrum löndum eins og aðgerðir hennar hafa margoft sýnt.

Vita ráðamenn þjóðarinnar ekki að Bandaríkjastjórn hefur stutt illmenni og einræðisherra um allan heim? Þar á meðal hinn viðurstyggilega Saddam Hussein? Voru það ekki Bandaríkjamenn og Bretar sem meðal annars seldu Hussein efnavopnin sem hann notaði síðan gegn Kúrdum? Vissu ráðamenn þessara sömu þjóða ekki að einræðisherrann myndi nota þessi gjöreyðingavopn gegn fólki? Voru Bandaríkjamenn og Írakar ekki bandamenn þegar Saddam Hussein átti og notaði gjöreyðingavopn sín gegn sinni eigin þjóð?

Hvað í afrekasögu Bandaríkjastjórnar í utanríkismálum gefur til kynna að þeim sé annt um almenning í öðrum löndum?

„Þegar Víetnam gerði innrás í Kambódíu til að koma Pol Pot og mönnum hans frá völdum eftir að Rauðu kmerarnir höfðu drepið eina milljón manna og virtust vera endanlega að missa vitið, þá sögðu Bandaríkin að eitt ríki gæti ekki skipt um ríkisstjórn í öðru og Bandaríkin settu Víetnam í viðskiptabann fyrir að fella ríkisstjórn Pol Pots og tóku upp stuðning við útlagastjórn sem var undir stjórn Rauðu kmerana en það tryggði meðal annars að Rauðu kmerarnir héldu sæti Kambódíu hjá Sameinuðu þjóðunum eftir að drepa meira en milljón samborgara sína.

Og enn má spyrja hefur einhverjum dottið í hug að fara í stríð við Ísrael útaf hernámi Vesturbakkans og Gaza? Það hernám brýtur bæði ályktanir öryggisráðsins og eins alþjóðalög. Með þessu er ekki sagt að mörg önnur sjónarmið en olía komi ekki við sögu í Írak. En án olíunnar hefði þetta stríð ekki verið háð og sú staðreynd er mjög ljós.“ – Jón Ormur Halldórsson*

Er ekki þvert á móti vitað Bandaríkjamenn hafa stutt einræðis- og morðhunda víðsvegar um heiminn til þess eins að styrkja pólitíska stöðu sína? Hefur þá staða almennings í viðkomandi löndum skipt Bandaríkjastjórn einhverju máli?

„Og fólki var auðvitað annt um frelsi þeirra milljóna sem bjuggu undir morðóðum ógnarstjórnum í Mið-Ameríku á síðustu áratugum en einu afskipti umheimsins af því máli voru samt þau að Bandaríkin héldu þessum stjórnum gangandi, þjálfuðu heri þeirra sem breyttust í hryðjuverkasveitir eða svokallaðar dauðasveitir á nóttinni, og borguðu jafnvel í sumum tilvikum laun hermanna sem stunduðu svo umfangsmikil fjöldamorð á óbreyttum borgurum að hundruð þúsunda borgara voru myrtir.

Í skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um El Salvador kom meðal annars fram að þrír af hverjum fjórum þeirra manna sem mesta ábyrgð báru á skipulagningu hryðjuverka sem kostuðu tugi þúsunda mannslífa, höfðu verið þjálfaðir í sama skólanum, Fort Benning í Bandaríkjunum en þar voru líka þjálfaðir menn sem stunduðu álíka hryðjuverk í öðrum ríkjum Mið-Ameríku.“ – Jón Ormur Halldórsson*

Barnaskapur eða heimsvaldastefna?
Eftir stendur að stuðningur íslenskra stjórnvalda við stríðið í Írak verður vart útskýrður nema á tvo vegu. Annað hvort réð barnaskapur og gífurleg vanþekking á sögunni aðgerðum stjórnvalda eða íslensk stjórnvöld styðja í raun og veru þá heimsvaldastefnu sem Bandaríkjastjórn hefur staðið fyrir. Hver svo sem raunveruleg ástæða er þá skulda stjórnvöld Íslendingum afsökunarbeiðni.

* Ofangreindar tilvitnanir eru teknar úr viðtali sem undirritaður tók við Jón Orm Halldórsson, doktor í stjórnmálum Suðaustur-Asíu, fyrir www.visir.is stuttu eftir að innrásin í Írak hófst.

Deildu