Reynir Traustason, blaðamaður á Fréttablaðinu, mætti Andrési Magnússyni í Ísland í bítið á Stöð 2 í morgun til að ræða pistil Andrésar, sem var birtur í Morgunblaðinu í morgun, um meinta ritskoðun Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á ritum sínum. Reynir sagði umfjöllun Andrésar um reynslu mína af ritskoðun á Vísi vera bæði slúðurkennda og loftkennda. Þessi skoðun rannsóknarblaðamannsins er vægast sagt undarleg þegar litið til þess að vitnisburður minn er bæði studdur af óvéfengjanlegum heimildum og nafngreindum vitnum.
Ef það sem ég segi í greinum mínum „Er Fréttablaðið ritskoðað„, „Áfram um ritskoðun“ og í viðtölum mínum við blaðamenn er „slúðurkennt“ eða „loftkennt“ þá hlýtur það sama að eiga við margar þær fréttir sem Reynir hefur skrifað í gegnum tíðina. Í sumum tilfellum er fréttaflutningur Reynis reyndar bæði loftkenndari og slúðurkenndari en frásögn mín því sumar fréttir hefur hann byggt á nafnlausum heimildarmönnum og gögnum sem enginn veit hvernig hann fékk í hendur. Í umfjöllun minni um ritskoðun á Vísi hef ég bæði bent á heimildir og nafngreind vitni.
Í Íslandi í býtið sagði Reynir:
„…sumt er óljóst og slúðurkennt eins og hvað var tekið út af Vísi. Hver sagði Sigurði Hólm að taka þaðan út […] Er Jón Ásgeir þar ritstjóri?“
og
„…það er svona álíka loftkennt og það sem þú ert að tala um Vísi. Þú veist ekki alveg hvað þetta er, en þú veist að það gerðist eitthvað voðalegt…“
Þetta er einfaldlega rangt hjá rannsóknarblaðamanninum (sem aldrei hefur haft fyrir því að rannsaka þetta mál, t.d. með því að hafa samband við undirritaðan). Það er ekkert óljóst og ekkert sem ég segi er byggt á slúðri. Það er alveg ljóst hver vildi taka umrædda frétt út. Því starfsmenn Vísis fengu sendan póst frá yfirmanni þar sem eftirfarandi kom fram: „Jón Ásgeir hafði samband og biður um að frétt sé eytt vegna þess að fréttin er röng.“ Ég á þennan tölvupóst og er ekki sá eini sem á hann því allir starfsmenn Vísis fengu þessi skilaboð.
Þar að auki hefur samstarfsmaður minn á Vísi tekið undir hvert eitt og einasta orð sem ég hef sagt um þessa ritskoðun:
„Ég starfaði á Vísir.is á umræddu tímabili og get staðfest allt sem komið hefur fram hjá Sigurði Hólm. Auk þess eru það hreinir útúrsnúningar að hann hafi látið nota sig, hann neitaði að eyða umræddri frétt en aðrir aðilar gerðu það. Ég starfaði á vísir.is á tímabilinu janúar til júní á þessu ári. Ég kom fremur lítið að almennum fréttum og lenti ekki sjálfur í ritskoðun. En á þessu tímanbili komu upp tvö tilvik þar sem fréttum var eytt með þeim hætti sem Sigurður lýsir, hann átti í hlut í öðru tilvikinu en annar blaðamaður varð fyrir þessu skömmu áður. Ég tek fram að ég átti í ágætu samstarfi við eigendur Vísis á þessum tíma, kunni því vel að vinna fyrir þá og hef ég sjálfu sér ekkert upp á Baug að klaga. En það breytir ekki því að þetta gerðist, ritskoðun var beitt a.m.k. tvisvar á þessu stutta tímabili og mér er tjáð að það hafi gerst a.m.k. einu sinni áður.“ – Ágúst Borgþór Sverrisson
Ég vil því leyfa mér að gagnrýna Reynir Traustason harðlega fyrir að reyna að gera lítið úr ummælum mínum. Gagnrýni Reynis er ekki byggð á neinum staðreyndum eða rannsóknum af hans hálfu. Í raun má segja að ummæli hans séu bæði loft- og slúðurkennd.
Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa um þessi mál var sú að mér (og öðrum) blöskraði þessi ritskoðun og mér fannst eðlilegt að almenningur vissi af henni. Reynir Traustason, rannsóknarblaðamaður, ætti að vera sömu skoðunar því hann veit að ef það er eitthvað sem dregur úr trúverðugleika fréttamiðla þá er það þegar þeir eru ritstýrðir af eigendum sínum.