Rökleysur forsætisráðherra

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/01/2004

14. 1. 2004

Hinrik Már Ásgeirsson skrifar ágæta grein á politik.is í dag þar sem hann fjallar um órökstuddar samsæriskenningar Davíðs Oddssonar. Forsætisráðherra hefur vanist því að kalla andstæðinga sína siðspillta, götustráka og lygara. Í stað þess að rökstyðja skoðanir sínar segir forsætisráðherrann það óþarfi því staðreyndir málsins „blasi við“. Það er hreint ótrúlegt að valdamesti maður þjóðarinnar […]

Hinrik Már Ásgeirsson skrifar ágæta grein á politik.is í dag þar sem hann fjallar um órökstuddar samsæriskenningar Davíðs Oddssonar. Forsætisráðherra hefur vanist því að kalla andstæðinga sína siðspillta, götustráka og lygara. Í stað þess að rökstyðja skoðanir sínar segir forsætisráðherrann það óþarfi því staðreyndir málsins „blasi við“. Það er hreint ótrúlegt að valdamesti maður þjóðarinnar skuli komast upp með það aftur og aftur að fara með slíkar rökleysur.

Persónuárásir og vísun í fjölda
Í grein Hinriks koma fram tvær algengar rökvillur í máli forsætisráðherra þó ekki sé sérstaklega bent á þær. Vil ég bæta úr því.

Ad hominem – persónuárásir
„Forsætisráðherra hefur brennimerkt andstæðinga sína sem siðspillta menn sem séu leynt og ljóst að ráðast gegn persónu sinni. Stór munur er á því að færa rök fyrir sínu máli og að uppnefna menn götustráka og lygara. Slíkar fullyrðingar færa engin sannindi fram í dagsljósið sama hve margir kjósa að trúa og taka undir fullyrðingarnar.“

Í rökfræðinni telst þetta til algengrar rökvillu sem er kölluð Ad hominem, sem er þegar ráðist er á persónur frekar en málefni í rökræðu. Sumum kann að finnast þessi aðferð áhrifarík en sannleikurinn er sá að hún hefur ekkert rökfræðilegt gildi. Persónuárásir hafa ekkert rökfræðilegt gildi og uppnefningar sanna ekki neitt. Þessi rökvilla er afar algeng meðal þeirra sem vita ekkert um rökfræði.

Vísun í fjölda
„Forsætisráðherra var beðinn í útvarpsþættinum Hrafnaþing á Útvarpi Sögu um að nefna dæmi til að rökstyðja fullyrðingar sínar um misnotkun á Fréttablaðinu. Sagði hann enga þörf fyrir dæmi því misnotkunin blasi við fólki og líkti því við álíka sannindi og að jörðin væri ekki flöt heldur kringlótt.“

Hér fremur forsætisráðherra aðra algenga rökvillu. Það er „að vísa í fjöldann“. Dæmi: „Allir (eða flestir) vita að jörðin er kringlótt (eða í raun hnattlaga) og því þarf ekki að benda á nein rök“. Eða „allir (eða flestir) vita að Fréttablaðið er misnotað og því þarf ekki að benda á nein rök því til staðfestingar.“ Fjöldi þeirra sem trúa ákveðinni fullyrðingu hefur ekkert að gera með sannindi fullyrðingarinnar. Nema menn vilji halda því fram að Jörðin hafi í raun og veru verið flöt og í miðju alheimsins á meðan flestir trúðu því.

Það er nokkuð áhyggjuefni að vita til þess hversu illa forsætisráðherra þjóðarinnar er að sér í rökræðum. Það er ekki síður áhyggjuefni að vita til þess hversu fáir fjölmiðlamenn virðast gera sér grein fyrir því.

Deildu