Er Fréttablaðið ritskoðað?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

05/11/2003

5. 11. 2003

Áhugaverð umræða var í Íslandi í dag í gærkvöldi vegna hugsanlegra kaupa eigenda Fréttablaðsins á hinu gjaldþrota DV. Margir hafa áhyggjur af því að eignarhald fjölmiðla sé að færast á of fáar hendur hér á landi. Mörg dæmi eru um það víðs vegar um heiminn að eigendur fjölmiðla misnoti vald sitt og því ekki óeðlilegt […]

Áhugaverð umræða var í Íslandi í dag í gærkvöldi vegna hugsanlegra kaupa eigenda Fréttablaðsins á hinu gjaldþrota DV. Margir hafa áhyggjur af því að eignarhald fjölmiðla sé að færast á of fáar hendur hér á landi. Mörg dæmi eru um það víðs vegar um heiminn að eigendur fjölmiðla misnoti vald sitt og því ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að slíkt hið sama gæti gerst á Íslandi.


Reynir Traustason, blaðamaður á Fréttablaðinu, fullyrti í gær að Jón Ásgeir hafi aldrei skipt sér af ritstjórn blaðsins. Ég myndi líklegast trúa Reyni ef ég vissi ekki af þeim afskiptum sem Jón Ásgeir hafði af ritstjórn www.visir.is á meðan sá vefur var enn á lífi.

Veit ég til þess að Jón Ásgeir skipaði blaðamönnum og yfirmönnum á Vísi að taka út ýmsar fréttir sem hann vildi ekki að yrðu birtar. Þó að blaðamenn (þar á meðal undirritaður) neituðu að fylgja þessum fyrirskipunum hurfu fréttirnar samt. Þegar blaðamenn kvörtuðu var einfaldlega sagt að hafa þyrfti í „huga hver eigandi miðilsins er“ áður en fréttir yrðu birtar.

Er það því skrítið að ég efist um hlutleysi eigenda Fréttablaðsins?

 

Deildu