„Hnefaleikamaður um þrítugt slasaðist alvarlega á hnefaleikamóti í Vestmannaeyjum í gær þegar hann hlaut svokallað rothögg, sem leiddi til blæðinga inn á heila.“ – www.ruv.is 30.11.2003 16:00
Ég er einn af þeim sem var á móti því að leyfa „ólympíska“ hnefaleika hér á landi. Ástæðan er einföld. Markmiðið með hnefaleikum er meðal annars það að berja andstæðinginn sem oftast og fastast í höfuðið. Ég tel að siðmenntuð samfélög geti og eigi að setja reglur um „íþróttir“ sem ganga út á það að meiða og slasa.
Þegar ég skrifaði fyrst um hnefaleika á þessum síðum í maí árið 2000 var ég fljótlega sakaður um að vera kommúnisti og um að líkjast suður amerískum hershöfðingja.
Sem kommúnisti og suður amerískur hershöfðingi varaði ég við því að ef ólympískir hnefaleikar yrðu leyfðir á Íslandi mættum við eiga von á því einhver myndi örkumlast eða jafnvel deyja við iðkun þessarar „íþróttar“ hér á landi.
Þeir sem töluðu harðast fyrir því að leyfa ólympíska hnefaleika gerðu lítið úr rannsóknum sem sýna að ólympískir hnefaleikar geta verið stórhættulegir. Aðrir töluðu um það væri heilagur réttur einstaklingsins að setja sjálfan sig í slíka hættu. Frelsi einstaklingsins er vitaskuld afar mikilvægt en réttlætir það allt? Ég held ekki.
Í grein minni Hnefaleikar og mannréttindi spyr ég meðal annars: „Er þá nokkuð því til fyrirstöðu að lögleiða einvígi fyrir þá sem vilja gera upp sín mál á þann máta?“
Lögleiðing ólympískra hnefaleika var ekki sjálfsögð aðgerð. Málið er ekki svart/hvítt frekar en flest önnur mál. Ég tel að það sé hollt að hafa það í huga. Frekari umfjöllun um hnefaleika má finna í neðantöldum greinum: