Umfjöllun um agaleysi á Rás 2

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

20/11/2003

20. 11. 2003

Kristján Sigurjónsson, stjórnandi Morgunvaktarinnar á Rás 2, boðaði mig í stutt viðtal í morgun um agaleysi í skólum. Kristján hafði rekist á nokkrar greinar hér á Skoðun þar sem ég fjalla um nauðsyn þess að kenna mannleg samskipti í skólum og hafði því áhuga á að fjalla um þessar hugmyndir mínar. Þorgerður Guðlaugsdóttir, aðstoðarskólastjóri Giljaskóla […]

Kristján Sigurjónsson, stjórnandi Morgunvaktarinnar á Rás 2, boðaði mig í stutt viðtal í morgun um agaleysi í skólum. Kristján hafði rekist á nokkrar greinar hér á Skoðun þar sem ég fjalla um nauðsyn þess að kenna mannleg samskipti í skólum og hafði því áhuga á að fjalla um þessar hugmyndir mínar. Þorgerður Guðlaugsdóttir, aðstoðarskólastjóri Giljaskóla á Akureyri, átti einnig að vera í þættinum en hún forfallaðist.

Það hefði vitaskuld verið um skemmtilegra að fá viðbrögð Þorgerðar við þessum hugmyndum en skólastarfsmenn hafa stundum brugðist illa við þeirri gagnrýni minni að skortur sé á kennslu í mannlegum samskiptahæfileikum í skólum. Sumir hafa, því miður, túlkað málflutning minn sem árás á kennara og skólastjórendur en það er auðvitað ekki markmiðið.

Í grein minni „Orsök eineltis“ svara ég þeirri algegnu spurningu hvort það sé ekki hlutverk heimila frekar en skóla að sjá um kennslu í mannlegum samskiptum:

„Svarið við þeirri spurningu er auðvitað jú. Það væri óskandi ef foreldrar gætu séð um að kenna börnum sínum allt sem þau þurfa á að halda til að takast á við lífið. Flestir þeirra geta það hins vegar ekki.

Ástæðurnar eru margar, þó einkum tvær. Í fyrsta lagi hafa ekki allir foreldrar tíma til að kenna börnum þessa hluti, til dæmis vegna mikils vinnuálags. Í öðru lagi skortir þá oft þekkingu til að miðla þessum hæfileikum til barna sinna. Kennsla í mannlegum samskiptum krefst mikillar þekkingar og tíma, ekki síður en kennsla í stærðfræði eða tungumálum. Þetta gleymist oft, eða fólk álítur að allt sem tengist mannlegum samskiptum séu meðfæddir eiginleikar. Það er hins vegar ekki rétt. Ef eitthvað er, þá er flóknara að kenna samskiptahæfileika en t.d. stærðfræði og það tekur líklegast einnig meiri tíma.

Menntastofnanir eru því kjörinn vettvangur fyrir slíka þjálfun og fræðslu. Það er þó að sjálfsögðu ekki við kennara að sakast. Einfaldlega vegna þess að kennarar fá ekki úthlutaðan tíma, né kennslugögn til að takast á við þetta mikilvæga viðfangsefni. Þar að auki er þjálfun kennara í samskiptahæfileikum, í því hvernig á að halda uppi aga í skólastofu og hvernig á að koma fram við börn vægast sagt af skornum skammti.“

Í lýðræðisþjóðfélagi er fátt eins mikilvægt og þekking í mannlegum samskiptum, færni til að tjá sig og hæfileikinn til að meta allar þær upplýsingar og allan þann áróður sem við verum fyrir með gagnrýnu hugafari. Kennsla í mannlegum samskiptum er því ekki aðeins skynsamleg heldur nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi.

Deildu