Munurinn á tekjum og tekjum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/10/2003

23. 10. 2003

Ögmundur Jónasson, alþingismaður og formaður BSRB, flutti áhugaverða setningaræðu á 40. þingi BSRB. Kjörorð þingsins í ár eru „Réttlátir skattar – undirstaða velferðar“. Ögmundur spyr hvers vegna launamenn þurfa að greiða mun hærri skatta en þeir sem lifa á vöxtum og arðgreiðslum, en hinir síðarnefndu þurfa einungis að greiða 10% af tekjum sínum aftur til […]

Ögmundur Jónasson, alþingismaður og formaður BSRB, flutti áhugaverða setningaræðu á 40. þingi BSRB. Kjörorð þingsins í ár eru „Réttlátir skattar – undirstaða velferðar“. Ögmundur spyr hvers vegna launamenn þurfa að greiða mun hærri skatta en þeir sem lifa á vöxtum og arðgreiðslum, en hinir síðarnefndu þurfa einungis að greiða 10% af tekjum sínum aftur til samfélagsins. Sá sem þetta skrifar hefur aldrei skilið hvers vegna þessi mismunun á sér stað. Ég hlýt því að spyrja eins og Ögmundur: „Finnst mönnum eðlilegt að mismuna í skattlagningu launatekjumanninum í óhag?“

Sjálfur hef ég aldrei að fullu skilið rök þeirra sem vilja fjármagnstekjuskattinn mun lægri en launaskattinn. Hvað þá kröfu sumra frjálshyggjumanna um að leggja skattinn niður með öllu. Menn geta deilt um það hve skattar eigi að vera háir og um hve mikil eða lítil umsvif ríkisins eiga að vera. Það finnst mér eðlilegt. En mér finnst eitthvað siðferðislega rangt við að þeir sem vinna fyrir laununum sínum þurfi að greiða mun meira til samfélagsins en þeir sem lifa á arði og vöxtum.

Í ræðu sinni segir Ögmundur meðal annars:

Algengt er að sama skattprósenta gildi um laun og fjármagn en sums staðar eru skattar á arðgreiðslur eftir öðru hlutfalli. Hér er skattur á vexti og arð 10%. Arðgreiðsluskatturinn í Sviss er 42,4%, Japan 50%, Þýskalandi 51,2%, Noregi 28, Svíþjóð 30, Bretlandi 32, Danmörku 43% og þannig mætti áfram telja. Allt tal um að hækkun fjármagnstekjuskatts myndi þýða stórfelldan fjármagnsflótta úr landinu er gersamlega út í hött. Það færi ekki króna úr landi, einfaldlega vegna þess að jafnvel hækkun íslenska fjármagnsskattsins um helming, um 100%, þýddi að eftir sem áður væri hann lægstur hér á landi samanborið við nánast öll lönd sem tíðkast að bera Ísland saman við.

Hvers vegna er fjármagnstekjuskattur svo lágur hér á landi? Telja Íslendingar að þeir sem lifi á fjármagnstekjum eigi hreinlega ekki að borga eins mikið til samfélagsins og aðrir? Eða eru menn hræddir um að ef fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður að þá myndi fjöldi fyrirtækja og athafnamanna einfaldlega flýja úr landi? Þetta eru yfirleitt rök frjálshyggjumanna. Samkvæmt Ögmundi er þetta ekki rétt:

Þeir aðilar sem þegar hafa leitað í skattaskjólin á Ermarsundinu, Gíbraltar og víðar fara sínu fram, algerlega óháð skatthlutfallinu hér á landi. Í þessu sambandi er einnig til þess að líta að innan OECD er staðfastlega unnið að því að útrýma skattaskjólum á þeirri forsendu að þau séu samfélagslega skaðleg.

Hver sem ástæðan er held ég að það sé löngu orðið tímabært að skoða betur skattamál hér á landi. Hinum vinnandi manni þykir þetta fyrirkomulag ósanngjarnt og er það skiljanlegt.

Deildu