Á meirihlutinn aðeins að njóta mannréttinda?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/10/2003

21. 10. 2003

Rökin sem heyrast í umræðunni aðskilnað ríkis og kirkju er oft ansi undarleg. Andstæðingar aðskilnaðar gera sitt besta til þess að komast hjá því að fjalla um kjarna málsins. Aðskilnaður ríkis og kirkju er nauðsynlegur til að tryggja jafnrétti fólks og að hér sé fullt trúfrelsi. Jafnrétti og trúfrelsi eru mannréttindi. Mannréttindi einstaklinga eiga aldrei […]

Rökin sem heyrast í umræðunni aðskilnað ríkis og kirkju er oft ansi undarleg. Andstæðingar aðskilnaðar gera sitt besta til þess að komast hjá því að fjalla um kjarna málsins. Aðskilnaður ríkis og kirkju er nauðsynlegur til að tryggja jafnrétti fólks og að hér sé fullt trúfrelsi. Jafnrétti og trúfrelsi eru mannréttindi. Mannréttindi einstaklinga eiga aldrei að vera háð því hvort þeir eru í minnihluta eða ekki. Biskup Íslands er þessu ósammála.

Kristni rétthærri en aðrar lífsskoðanir
Nýjustu rök Karls Sigurbjörnssonar*, biskups Íslands, gegn aðskilnaði ríkis og kirkju eru þau að hann telur hreinlega ekki eðlilegt að „allur siður sé jafnrétthár“. Hann segir „bestu og heillavænlegustu leiðina í siðferðilegum efnum […] að finna í kristinni trú“ og er því greinilega þeirrar skoðunar að sú trú eigi að vera rétthærri en aðrar lífsskoðanir.

Ræður meirihlutinn alltaf?
Biskupinn bendir á að níu af hverjum tíu börnum eru skírð á fyrsta ári og sama hlutfall fermist í þjóðkirkjunni ár eftir ár.

Svo spyr biskup: „Er það ekki frumforsenda lýðræðisins að sjónarmið meirihlutans vegi þyngst, að teknu tilliti til grundvallaréttinda minnihlutans?“

Svarið við þessari hugleiðingu biskups er vitaskuld nei. Mannréttindi fólks eiga ekki að vera háð því hverjir eru í meirihluta. Trúfrelsi er þar á meðal. Þess vegna stendur í 65. grein stjórnarskrár okkar:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Svo lengi sem ein trúarbrögð fá meiri vernd í lögum og hærri styrki frá yfirvöldum er verið að mismuna fólki vegna þeirra lífsskoðana sem það aðhyllist. Það er einfaldlega ekki í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskráinnar. Þetta veit biskup en vill ekki viðurkenna. Í staðinn reynir hann að fela sig á bak við það að mikill meirihluti þjóðarinnar er í lútersku kirkjunni. Ef það skiptir einhverju máli þá hlýtur að vera eðlilegt að spyrja biskupinn einnar siðferðilegrar spurningar. Hvað þarf minnihlutinn að vera stór til að hann fái að njóta eðlilegra mannréttinda?

Það er ekki hægt að svara þessari spurningu þar sem hún er kjánaleg, álíka kjánaleg og sú hugmynd biskups að í lagi sé að skerða mannréttindi fólks svo lengi sem það tilheyrir nógu litlum minnihlutahóp.

Er fjölmenningarlegt samfélag á Íslandi?
Karl biskup er samt augljóslega þeirra skoðunar að mannréttindi séu háð atkvæðavægi. Í Fréttablaðinu í dag efast hann meira að segja um að hér á landi sé fjölmenningarlegt samfélag. Honum finnst greinilega ekki vera nógu margir hér á landi sem hafa aðra lífsskoðun en hann sjálfur til að þeir geti talist hluti af sérstökum menningarhóp. Því er eðlilegt að spyrja biskup aftur hve marga einstaklinga þurfi til? Hve fjölmennur þarf hópur að vera til að hann myndi sérstakan menningarhóp? Hvar á að draga mörkin?

Frelsi ekki ætlað öllum
Biskup skilur hugtakið frelsi enda vill hann aukið frelsi fyrir þjóðkirkjuna þó hann sér harður andstæðingur þess að aðrir njóti trúfrelsis:

„Ég er ekki hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju og þjóðkirkjan er ekki að biðja um hann. Ég er þeirrar skoðunar að auka skuli enn frekar frelsi þjóðkirkjunnar með því að rýmka ramma kirkjulaganna og ljúka samningum milli ríkis og kirkju til að tryggja tekjustofna hennar svo hún geti brugðist við kröfum tímans og sinnt betur skyldum sínum við þjóðina.“

Með þessu er biskup að biðja um frekari forréttindi handa sínu trúfélagi en hafnar því um leið alfarið að aðrir eigi að njóta sama frelsis. Hann vill að kirkjan fái að stjórna sem flestu en senda skattgreiðendum reikninginn. Þetta hlýtur að teljast vægast sagt undarlegur málflutningur.

Trúfrelsi = mannréttindi
Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er einföld krafa um fullt trúfrelsi og þar með krafa um mannréttindi. Öll umræða um hvað trúar/lífsskoðanahópar eru fjölmennir er óviðeigandi í þessu samhengi. Annað hvort er menn fylgjandi mannréttindum til handa öllum eða ekki. Biskup veit þetta líklegast en kýs að reyna rugla fólk í ríminu með málflutningi sem kemur kjarna málsins ekkert við.

*Sjá viðtöl við biskup í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu dagana 19. og 20. október 2003

Nánar:
Stefna Siðmenntar í trúfrelsismálum

Deildu