Klerkaveldið í Bandaríkjunum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/10/2003

17. 10. 2003

Fáum dylst að hinn kristni „móralski meirihluti“ ræður nú ríkjum í Bandaríkjum Norður Ameríku. Kristnir öfgasinnar eru við það að yfirtaka repúblíkanaflokk Bush og vísanir í Guð og önnur trúarstef verða sífellt algengri hjá stjórn hans. Nú síðast sagði William Boykins, yfirmaður leyniþjónustusviðs varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, Bush vera kyndilbera Guðs sem ætti í hetjulegri baráttu við […]

Fáum dylst að hinn kristni „móralski meirihluti“ ræður nú ríkjum í Bandaríkjum Norður Ameríku. Kristnir öfgasinnar eru við það að yfirtaka repúblíkanaflokk Bush og vísanir í Guð og önnur trúarstef verða sífellt algengri hjá stjórn hans. Nú síðast sagði William Boykins, yfirmaður leyniþjónustusviðs varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, Bush vera kyndilbera Guðs sem ætti í hetjulegri baráttu við myrkraöfl Satans í löndum múslima.

Það hefur lengi valdið áhyggjum hve bókstafstrú er algeng um þessar mundir í löndum múslima. Vaxandi áhrif bókstafstrúarafla í Bandaríkjunum valda ekki síður miklum áhyggjum enda afar hættuleg þróun þegar öflugasta ríki heims tekur upp á því að réttlæta heimsvaldastefnu sína með tilvísunum í hinn „eina rétta guð“.

Í frétt Rúv um ofangreind ummæli Williams Boykins segir:

George Bush Bandaríkjaforseti er kyndilberi Guðs og berst hatrammri baráttu, ekki við Saddam Hussein og Osama bin Laden, heldur Satan sjálfan. Þetta eru ummæli Williams Boykins hershöfðingja, nýskipaðs yfirmanns leyniþjónustusviðs varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, Pentagon.

Rannsóknarfréttamenn NBC sjónvarpsstöðvarinnar vestan hafs og stórblaðsins Los Angeles Times hafa grafið upp ýmiss ummæli hershöfðingjans sem er kristinn og heittrúaður eftir að hann var skipaður einn nánasti samstarfsmaður Donalds Rumsfelds varnarmálaráðherra. Boykins mun meðal annars stýra leitinni að Saddam og Osama bin Laden.

Á einni trúarsamkomu spurði Boykin hvers vegna Bush væri í Hvíta húsinu og benti á að meirihluti Bandaríkjamanna hefði ekki kjörið hann í embætti. Bush væri í Hvíta húsinu af því að Guð hefði sett hann þangað.

Í janúar sýndi hann babtistum í Flórída mynd af Mogadisjú, höfuðborg Sómalíu, og var svartur blettur á henni miðri. Boykin staðhæfði að bletturinn sannaði að myrkraöfl væru í borginni, Guð hefði sýnt sér djöfulinn, óvininn mikla.

Fréttaskýrendur segja afhjúpanir fjölmiðlanna setja Bush í vanda, ekki síst vegna margra yfirlýsinga Boykins um að Guð Bandaríkjamanna væri Guð Biblíunnar, aðrir guðir, einkum þó Allah, væru skurðgoð og falsguðir.

Er það undarlegt að margir óttist nýtt tímabil krossfara og trúarátaka í heiminum?

Deildu