Gengisfelling stjórnmálanna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

13/06/2003

13. 6. 2003

Hvers vegna tekur fólk þátt í pólitísku starfi? Líklegast eru ástæðurnar margar. Þegar ég tók virkan þátt í starfsemi Ungra jafnaðarmanna gerði ég það vegna þess að ég hef skoðun á því hvernig samfélagi ég bý í og tel mig hafa ýmislegt til málanna að leggja. Barátta fyrir því að halda einhverjum gaur í íslenska […]

Hvers vegna tekur fólk þátt í pólitísku starfi? Líklegast eru ástæðurnar margar. Þegar ég tók virkan þátt í starfsemi Ungra jafnaðarmanna gerði ég það vegna þess að ég hef skoðun á því hvernig samfélagi ég bý í og tel mig hafa ýmislegt til málanna að leggja. Barátta fyrir því að halda einhverjum gaur í íslenska landsliðinu í fótbolta eða fyrir því að veita Eurovisionpoppurum fálkaorðu er ekki pólitík, heldur gengisfelling á stjórnmálum og þeim sem starfa á pólitískum vettvangi.

Er enginn í pólitík sem nennir að berjast fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralagi lengur?

Undarlegar ályktanir
Fyrir þau ykkar sem hafið ekki hugmynd um hvað ég er að tala er líklegast vænlegast að ég útskýri mál mitt.

Í dag sendu Ungir jafnaðarmenn á Siglufirði frá sér ályktun þar þeir hvöttu til þess að einhver Guðni Bergsson myndi hætta við að hætta í íslenska landsliðinu í fótbolta. Hvað þetta kemur pólitísku starfi við er mér hulin ráðgáta. Kannski skiptir þessi Guðni þjóðina svona miklu máli að hugsjónahraustir ungir jafnaðarmenn verða að láta til sín taka með þessum hætti. Hver veit?

Skömmu fyrir Eurovision keppnina sendu aðrir ungir hugsjónamenn frá sér merkilega ályktun. Þá voru það Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík sem sáu sig nauðbeygða til að leggja fram ályktun þess efnis að Birgittu Haukdal og co yrði veitt fálkaorðan, skildu þau sigra í evrópsku (og ísraelsku) söngvakeppninni. En Birgitta sigraði ekki (þó hún hafi staðið sig vel að mínu mati) og útskýrir það væntanlega hvers vegna Ungir jafnaðarmenn hafa ekki enn tekið sér mótmælastöðu fyrir framan Bessastaði.

Hvað varð um hugsjónir?
Til hvers er þetta fólk í stjórnmálum? Augljóslega ekki af hugsjónaástæðum. Hvers vegna þá? Vill það fá athygli? Komast á þing? Eða leiðist því bara heima hjá sér? Ég veit ekki hvert svarið er, en eitt veit ég að svona kjánaskapur kemur ekki aðeins illa út fyrir þá sem starfa í þessum félögum nú, heldur einnig fyrir þá sem kjósa að starfa innan þeirra í framtíðinni.

Palli: ,,Hverjir voru að mótmæla skólagjöldum í grunnskóla?“

Jói: ,,Æji, það voru þessir ungu jafnaðarmenn“

Palli: ,,Hverjir?!?“

Jói: ,,You know, snillingarnir sem eru alltaf að álykta um fótbolta og söngvakeppnir.“

Palli: ,,Ohh, já þeir! Bíddu eru það ekki þeir sömu og vændu Jón Gnarr um að níðast á börnum og vildu ritskoða húmor?“

Jói: ,,Jú, einmitt, þeir hinir sömu!“

Palli: ,,Ja hérna, og halda þeir virkilega að einhverjir taki mark á þeim?…“

Jói: ,,Já ég er viss um að ÞEIR halda það.“

Stuttu síðar uppgötvuðu Palli og Jói, sér til mikillar skelfingar, að þeir voru hugarfóstur Sigurðar Hólm Gunnarssonar og ákváðu því að detta í það.

THE END

Deildu