Carl Sagan – Verðug fyrirmynd II

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

05/05/2003

5. 5. 2003

Vísindamaðurinn, rithöfundurinn og mannvinurinn Carl Sagan (1934-1996) er einn þeirra fáu einstaklinga sem hafa haft mikil áhrif á mig. Ljóðrænar lýsingar hans á alheiminum hafa nánast trúarleg áhrif á mann og hugleiðingar hans um rökhugsun og umburðarlyndi eru svo skilmerkilega settar fram að enginn sem þær les eða heyrir getur verið ósnortinn. Því miður þekkir […]

Vísindamaðurinn, rithöfundurinn og mannvinurinn Carl Sagan (1934-1996) er einn þeirra fáu einstaklinga sem hafa haft mikil áhrif á mig. Ljóðrænar lýsingar hans á alheiminum hafa nánast trúarleg áhrif á mann og hugleiðingar hans um rökhugsun og umburðarlyndi eru svo skilmerkilega settar fram að enginn sem þær les eða heyrir getur verið ósnortinn.

Því miður þekkir flest ungt fólk Carl Sagan einungis vegna þess að hann er höfundur skáldsögunnar Contact, sem síðar var gerð að vinsælli bíómynd. Ég segi því miður ekki vegna þess að myndin er slæm, þvert á móti, heldur vegna þess að það voru ekki skáldsagnahæfileikar Sagan sem gerðu hann að merkilegum einstaklingi, heldur yfirgripsmikil þekking hans á vísindum og hæfileiki hans til þess að miðla þeirri þekkingu til annarra. Carl Sagan var og er hinn fullkomni kennari.

Í bókum sínum telur hann ekki aðeins upp þurrar og leiðinlegar staðreyndir heldur blæs hann lífi í þekkingu og staðreyndir með draumkenndum frásagnarmáta sem skilur lesandann eftir djúpt hugsi. Eftir lestur bóka Sagan getur lesandinn vart annað en hugsað… VÁ!

Ég á mér fjórar uppáhaldsbækur eftir Carl Sagan. Þær eru Cosmos, Billions and Billions, Demon Haunted World og Pale Blue Dot.

Cosmos er skrifuð eftir samnefndum sjónvarpsþáttum sem Carl Sagan framleiddi og stýrði á áttunda áratugnum. Í bæði bókinni og þáttunum fjallar Sagan um upphaf lífsins á jörðinni, upphaf og endalok alheimsins, sagnfræði, pólitík, heimspeki, trú og umburðarlyndi. Hann sýnir að með réttum efnistökum er hægt að kveikja áhuga nánast hvers sem er á þekkingu og sjálfstæðri hugsun um lífið og tilveruna. Eitthvað sem skólakerfið ætti að gera, en mistekst þar sem flestum leiðist á skólabekk.

Kaflar bókarinnar (og einstakir þættir í þáttaröðinni) heita ljóðrænum og heillandi nöfnum: „The Shores of the Cosmic Ocean“, „One Voice in the Cosmic Fugue“, „The Harmony of the Worlds“, „Heaven and Hell“, „Blues for a Red Planet“, ,,Travelers’ Tales“, The Backbone of Night“, Travels in Space and Time“, „The Lives of the Stars“, „The Edge of Forever, „The Persistence of Memory“, „Encyclopedia Galactica“, „Who Speaks for Earth?“

Eftir lestur Cosmos getur maður ekki annað en dáðst af stórfengleika alheimsins. Sagan bendir á þennan stórfengleika með mörgum mögnuðum samlíkingum. Hann bendir til dæmis á að í handfylli af sandkornum eru að finna um 10 þúsund sandkorn, en það er álíka mikill fjöldi og fjöldi þeirra stjarna sem við, jarðarbúar, sjáum með berum augum frá jörðu. Hins vegar er heildarfjöldi stjarna (fjarlægra sóla) í alheiminum mun meiri en fjöldi þeirra sandkorna sem finnast á ÖLLUM ströndum jarðarinnar…

Þeir sem heillast af umfjöllun Sagan um alheiminn í Cosmos verða líka að lesa Pale Blue Dot, sem er óbeint framhald af Cosmos. Í Pale Blue Dot heldur hann áfram að fjalla um fegurð og stórfengleika heimsins, í þetta sinn með hjálp hundruð litmynda.

Titill bókarinnar Pale Blue Dot vísar til þess hvernig Jörðin, heimili okkar og eini staðurinn sem vitað er um að vitsmunalíf þrífst, lítur út ef við erum stödd við jaðar okkar eigin sólkerfis. Jörðin sést varla, er daufur og ómerkilegur ljósblár punktur í hafsjó stjarna og stjörnuþoka. Ef við værum ferðalangar frá öðrum stjörnum myndum við líklegast ekki taka eftir Jörðinni. Því ættum við að gera það?

Sagan heldur áfram á heimspekilegum nótum. Fjallar um hugsanlega framtíð mannkyns í geimnum. Hvort við munum ná að ferðast til fjarlægra stjarna og kynnast vitsmunalífi frá öðrum hnöttum eða hvort okkur muni takast að eyða okkur, einfaldlega vegna þess að okkur hefur ekki tekist að rækta það vitsmunalíf sem fyrirfinnst á okkar eigin plánetu.

Demon-Haunted World, er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi bók er óður Sagan til rökhugsunar. Hann fjallar á skemmtilegan og grípandi hátt um gagnrýna hugsun og hvað það er auðvelt fyrir okkur að falla fyrir að ósönnuðum hugmyndum ef við höfum ekki tamið okkur að hugsa gagnrýnið um alla hluti.

Eins og alltaf tekst Sagan að fjalla um viðfangsefni sín með hrífandi og jafnvel töfrandi hætti. Hann er aldrei hrokafullur eða neikvæður. Um leið og hann bendir á hvernig hægt er að temja sér sjálfstæða hugsun bendir hann á margar ógnvekjandi staðreyndir. Til að mynda segir hann frá nýlegum skoðanakönnum sem sýna að meira en helmingur Bandaríkjamanna trúir á tilvist djöfulsins en aðeins 9% trúir meginniðurstöðum þróunarkenningarinnar.

Meirihluti almennings veit ekki að risaeðlunar dóu út áður en mannveran varð til eða að rafeindin sé minni en atóm. Það sem merkilegra er þá veit um helmingur allra Bandaríkjamanna EKKI að jörðin snýst í kringum sólina og það tekur hana eitt ár að ferðast einn hring!

Ef þú ert kennari og vilt kenna nemendum þínum gagnrýna hugsun og um leið fá þau til að spyrja sig spurninga um lífið og tilveruna, þá mæli ég eindregið með Demon-Haunted World. Allir hafa gott af því að lesa þessa bók! Ef bækur Carl Sagan yrðu gerðar að skyldulesningu í öllum skólum væri, að mínu mati, búið að stórbæta skólakerfið.

Í Billions and Billions heldur Sagan einnig áfram á þeirri braut sem hann hóf í Cosmos. Í Billions and Billions er þó meira fjallað um samfélagsmál og pólitík í bland við vísindi. Sagan fjallar með sínum einstaka hætti um alheiminn, vísindi og trúarbrögð, umhverfismál, fóstureyðingar, stjórnmál stórveldanna, kalda stríðið og líf og dauða. Síðustu kaflar bókarinnar skrifar Sagan stuttu áður en hann lést úr sjaldgæfum sjúkdómi. Um yfirvofandi dauða sinn segir hann:

,,I’ve learned much from our confrontations – especially about the beauty and sweet poignancy of life, about the preciousness of friends and family, and about the transforming power of love. In fact, almost dying is such a positive, character-building experience that I’d recommend it to everybody – except, of course, for the irreducible and essential element of risk.

I would love to believe that when I die I will live again, that some thinking, feeling, remembering part of me will continue. But as much as I want to believe that, and despite the ancient and worldwide cultural traditions that assert an afterlife, I know of nothing to suggest that it is more than wishful thinking…“

Enginn verður ósnortinn af lestri Billions and Billions. Eftir lestur bókarinnar fann ég fyrir söknuði. Ég sakna Carl Sagan, samt þekkti ég hann auðvitað ekki persónulega. Þrátt fyrir það hafði hann og hefur mikil áhrif á hugsanir mínar, lífskoðun og áhuga…

Nánar:
www.carlsagan.com
The Planetary Society: Tribute to Carl Sagan
Profiles in Scientific Courage
In Memory of Carl Sagan
Tilvitnanir I
Tilvitnanir II
Tilvitnanir III
Tilvitnanir IV

Tengt:
Thomas Paine – Verðug fyrirmynd

Deildu