Deilt um borgaralegar fermingar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

20/04/2003

20. 4. 2003

Það er áhugavert að lesa mismunandi skoðanir fólks á borgaralegum fermingum. Umræður um BF fara fram t.d. þessum síðum: 1, 2. Alltaf skal fólk gagnrýna að Siðmennt noti orðið ,,ferming“. En það er vegna þess að fólk heldur að ,,ferming“ sé sérstaklega kristið orð og eigi því megi enginn annar nota það. Þetta er hins […]

Það er áhugavert að lesa mismunandi skoðanir fólks á borgaralegum fermingum. Umræður um BF fara fram t.d. þessum síðum: 1, 2. Alltaf skal fólk gagnrýna að Siðmennt noti orðið ,,ferming“. En það er vegna þess að fólk heldur að ,,ferming“ sé sérstaklega kristið orð og eigi því megi enginn annar nota það. Þetta er hins vegar misskilningur.

Svipuð umræða skapaðist í fyrra og þá skrifaði ég greinina: Mikill áhugi á borgaralegum athöfnum. Þar segi ég meðal annars:

Orðið ferming er dregið að latneska orðinu ,,confirmare“ sem táknar m.a. ,,að styrkjast“ eða ,,að styðja“. Í fermingarfræðslu Siðmenntar læra nemendur að tileinka sér heilbrigð og farsæl viðhorf eins og þau að bera virðingu fyrir náunganum. Þau læra einnig töluvert um rökhugsun og umburðalyndi, frelsi, að bera ábyrgð á eigin lífi og mannleg samskipti. Því má segja að með borgaralegri fermingu séu börnin að styrkjast í þeirri viðleitni sinni að vera ábyrgir fullorðnir einstaklingar sem eru reiðubúnir að taka þátt í samfélaginu á uppbyggilegan máta.

Kjarni málsins er hins vegar sá að borgaralegar fermingar eru mikilvægur valkostur fyrir alla þá sem vilja taka þátt í manndómsvígslu án þess þó að strengja trúarheit.

Ástæðurnar geta verið margar. Viðkomandi getur til dæmis verið trúlaus eða einfaldlega ekki reiðubúinn til að strengja trúarheit.

En gera krakkarnir þetta ekki bara fyrir pakkana?
Jú eflaust margir. Það er líka gaman að halda veislu. Krakkar hafa heyrt talað um ferminguna nánast allt sitt líf. Haldin verður veisla þar sem allir vinir og ættingjar mæta. Boðið verður upp á kökur og mat og fullt af pökkum. Þetta er auðvitað mjög spennandi. Mjög margir krakkar láta ferma sig kirkjulega einmitt út af þessu. Enda ekkert skrítið.

Þetta vita bæði foreldrar og prestar en samt er fjöldi barna látinn fermast þótt allir viti þau geri það ekki vegna þess að þau eru trúuð. Þetta kalla ég hræsni.

Þegar ég fermdist var ég mjög trúaður. Ég man að mér fannst nánast enginn annar sem tók þátt í fermingarfræðslunni vera trúaður (nema kannski með 1-2 undantekningum). Ég var sá sem fékk 10 í öllum prófunum og vissi mjög mikið um trúarbrögðin (enda hafði alltaf verið forvitinn um trú. Það var einmitt þessi forvitni sem á endanum gerði mig að trúleysingja).

Góður vinur minn ætlaði hins vegar ekki að gerast hræsnari eins og allir hinir í bekknum. Hann sagðist ekki trúa á guð og ætlaði því ekki að fermast. Umburðalyndi mitt og rökhugsun var ekki það þroskuð þá að ég man að ég hneykslaðist mikið á þessari afstöðu. Hvernig gat Guð ekki verið til? Allt fullorðna fólkið, sem hlaut að vita meira um lífið og tilveruna en við unglingarnir, sagði að hann væri til!

En hvað um það? Þessi vinur lét til leiðast og fermdist að lokum. Það kostaði reyndar pabba hans 100 þúsund krónur. Þ.e. honum var mútað til að fermast. Fjölskyldan varð brjáluð þegar hún komst að því að hann vildi ekki fermast. Pabbi hans bauð honum því 100 þúsund krónur fyrir að fermast. Vinur minn þáði það og fermdist.

Í dag geta unglingar tekið þátt í manndómsvígslu, haldið upp á daginn, boðið í veislu og fengið pakka án þess að gerast hræsnara. Það finnst mér mikilvægt val.

Deildu