Fordómar lita afstöðu til trúfrelsis

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

27/04/2003

27. 4. 2003

Fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga sæti á þingi mættu til fundar hjá Kirkjuráði Þjóðkirkjunnar síðastliðinn miðvikudag. Tilgangur fundarins var að fjalla um hlutverk kirkjunnar í samfélaginu og afstöðu flokkanna til tengsla ríkis og kirkju. Undirritaður vill nota tækifærið og gera athugasemdir við málflutning fulltrúanna á umræddum fundi. Því miður virðist vera sem nokkur skortur […]

Fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga sæti á þingi mættu til fundar hjá Kirkjuráði Þjóðkirkjunnar síðastliðinn miðvikudag. Tilgangur fundarins var að fjalla um hlutverk kirkjunnar í samfélaginu og afstöðu flokkanna til tengsla ríkis og kirkju. Undirritaður vill nota tækifærið og gera athugasemdir við málflutning fulltrúanna á umræddum fundi.

Því miður virðist vera sem nokkur skortur sé á þekkingu á þeirri mismunun sem fólk verður fyrir hér á landi vegna ólíkra trúarskoðana, auk þess sem nauðsynlegt er að gera alvarlegar athugasemdir við fordóma sumra þingmanna gagnvart öðrum trúar- og lífsskoðunum. Fordómar sem virðast lita afstöðu þeirra til aðskilnaðar ríkis og kirkju og þar með fulls trúfrelsis á Íslandi.

Stjórnarandstaðan frekar hlynnt aðskilnaði
Ágætt er að byrja á jákvæðum nótum og benda á að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna tóku nokkuð vel í þá hugmynd að skilja að ríki og kirkju. Sama verður ekki sagt um fulltrúa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Frjálslyndi flokkurinn er þó eini flokkurinn sem tekur þá afdráttarlausu afstöðu að stefna beri að aðskilnaði ríkis og kirkju.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, benti réttilega á að á Íslandi væri fólk sem aðhylltist ýmis trúarbrögð og að það ætti að gera öllum trúfélögum jafn hátt undir höfði. Hann benti jafnframt á að það sé kveðið á um það í stjórnarskránni að ekki megi mismuna fólki vegna trúarskoðana.

Fram kom að innan bæði Samfylkingar og Vinstri grænna væru raddir sem boðuðu aðskilnað en hvorugur þessara flokka hefur myndað sér formlega stefnu í málinu.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar, fjallaði reyndar mikið um gildi kristni útfrá siðferðilegum gildum og hélt því meðal annars fram að kristni og jafnaðarmennska væru af sama meiði, án þess þó að rökstyðja það frekar. Í sögulegu samhengi verður þessi trú Össurar að teljast byggð á afar veikum grunni. Sagan kennir okkur að siðferði manna er ekki sprottið upp úr einstökum trúarbrögðum, enda er siðferði algerlega óháð trú.*

En hvaða afstöðu eða trú fólk hefur til tengsla siðferðis samfélagsins og kristinnar trúar ætti það ekki að hafa áhrif á afstöðu þeirra til aðskilnaðar ríkis og kirkju sem og trúfrelsis.

Sjálfstæðisflokkur á móti aðskilnaði en með ,,kristilegu siðgæði“
Ljóst er af málflutningi Sólveigar Pétursóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, og Jónínu Bjartmarz, Framsóknarflokki, að stjórnarflokkarnir vilja ekki aðskilnað ríkis og kirkju.

Sólveig vitnaði, rétt eins og Guðjón A., í stjórnarskránna, en í 62. grein hennar þar sem segir: ,,Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“ Hún fjallaði hins vegar ekki um þá mótsögn að í 1. málsgrein 65. greinar sömu stjórnarskrár segir að: ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Þessi afstaða Sjálfstæðisflokksins er hreint ótrúleg sérstaklega í ljósi þess að Sjálfstæðismenn hafa alltaf haldið því fram að meginbaráttumál þeirra sé frelsi einstaklingsins.

Kirkjumálaráðherrann tók skýrt fram að hún telji að ekki beri að stefna að aðskilnaði ríkis og kirkju og áréttaði reyndar að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hafi verið ályktað um mikilvægi ,,kristilegs siðgæðis“ í samfélaginu.

Er í lagi að mismuna fólki vegna lífsskoðana þess vegna þess að það stendur í stjórnarskránni? Er eðlilegt að stjórnvöld fjalli sérstaklega um mikilvægi siðferði einna trúarbragða umfram önnur? Samræmist slík afstaða réttlætissjónarmiðum og ,,kristilegu siðgæði“? Hvað um þá sem eru annarrar trúar eða trúlausir eins og undirritaður? Er okkar siðferði ekki nægjanlega gott?

Ofangreindar yfirlýsingar dómsmálaráðherra er gróf móðgun við alla þá sem aðhyllast ekki hennar trú og það er óskiljanlegt að ráðherra geti vegið með slíkum hætti að þegnum landsins.

Fordómafullur málflutningur Framsóknarmanns
Jónína Bjartmars, Framsóknarflokki, gekk jafnvel lengra en dómsmálaráðherrann í fordómum sínum gagnvart þeim sem ekki telja sig vera kristnir. Til að mynda sagðist hún vilja vernda kirkjuna og styrkja vegna þess að:

,,Hér ríkir kristilegt siðferði. Margt í öðrum trúarbrögðum stangast á við gott siðferði, til dæmis múhameðstrú og hvernig hún skilgreinir stöðu kvenna.“

Þessi orð Jónínu bera vott um mikla vanþekkingu og fordóma í garð múslima. Í fyrsta lagi er ekkert til sem heitir múhameðstrú, heldur eru menn múslimar eða íslamstrúar. Í öðru lagi er það rangt að siðferði sé verra í öðrum trúarbrögðum en kristni.

Veit Jónína ekki að það tók hinn kristna heim næstum því 2000 ár að viðurkenna rétt kvenna til jafns við karla? Veit hún ekki að fyrir 50 árum, þegar vald trúarinnar var meira, var staða konunnar í hinum vestræna kristilega heimi mun verri en hún er í dag? Gerir hún sér grein fyrir því að farið var með kvenfólk nánast eins og búfénað fyrir aðeins örfáum kynslóðum? Veit hún ekki að meðal deilumála á frægum kirkjuþingum fram eftir öldum var hvort konur hefðu yfirleitt sálir?

Það ætti heldur ekki að koma neinum á óvart sem eitthvað hefur kynnt sér sagnfræði að hin kristna kirkja hefur sjaldan eða aldrei verið í fremstu víglínu í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Veit Jónína ekki að það er örstutt síðan konur fengu yfirleitt að starfa í kirkjum á jafnréttisgrundvelli?

Hefur Jónína eitthvað fyrir sér í því að múslimatrú boðið meiri kúgun kvenna en kristin trú? Hefur hún kynnt sér önnur trúarbrögð? Hefur hún kynnt sér boðskap Biblíunnar um málefni kynjanna og veit hún að réttlæting fyrir valdi karlmannsins yfir konunni er að finna á mörgum stöðum í hinni helgu bók? (sjá t.d.: 1 Cor.11:3, 1 Cor.14:34-36, Eph.5:22-24, Col.3:18, 1 Tim.2:11-15, 1 Pet.3:1)**

Ég hvet Jónínu til að kynna sér málin örlítið betur og í kjölfarið biðja alla múslima búsetta í Íslandi afsökunar, enda er málflutningur hennar líklegur til að auka á fordóma gagnvart þessum minnihlutahóp.

Kjarni málsins – trúfrelsi
Það er ekki óeðlilegt að í lýðræðissamfélagi sé ætlast til að stjórnmálamenn og valdhafar sýni gott fordæmi þegar það kemur að því að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Stjórnvöld eiga að vernda rétt almennings til að lifa eftir eigin lífsskoðunum en ekki að berjast fyrir því að gera eina lífsskoðun rétthærri á kostnað annarra.

Það er sorglegt að hlusta á málflutning stjórnmálamanna þegar þeir ræða um aðskilnað ríkis og kirkju sem og trúfrelsi. Í stað þess að taka efnislega afstöðu til þess hvort lagaleg, fjárhagsleg og félagslega staða lífsskoðanahópa eigi að vera jöfn eða ekki er alltaf fjallað um meinta yfirburði kristilegs siðgæðis. Slíkur málflutningur er ekki bara óviðeigandi, heldur kemur hann ekki heldur kjarna málsins við. Kjarni málsins er auðvitað sá að það er óréttlátt að stjórnvöld hygli einum hópi fólks umfram aðra.

Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er krafa um frelsi og jafnrétti. Annað hvort eru stjórnmálamenn fylgjandi frelsi og jafnrétti manna eða ekki. Ef menn eru hlynntir jafnrétti verða þeir að vera fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju og að ólík staða mismunandi lífsskoðanahópa verði jöfnuð. Svo einfalt er það nú.

_________

* Thomas Paine, sem oft hefur verið nefndur upphafsmaður nútímalegrar jafnaðarstefnu, var ekki kristinn meðal annars vegna þess að honum blöskraði sá siðferðisboðskapur sem trúarbrögðin höfðu að geyma. Sjá greinaflokk undirritaðs um Paine

** Áhugaverða umfjöllun um stöðu kvenna í biblíunni er einnig á þessari vefsíðu

Ítarefni:
Um aðskilnað ríkis og kirkju
Stefna Siðmenntar í trúfrelsismálum

Frekari umfjöllun um tengsl trúar og siðgæðis
Trúarbrögð og siðmenning

Siðferði, trú og trúleysi

Fordómar og fáviska ógna mannlegu samfélagi

 

Deildu