Eineltisminningar 3: Eftirminnileg slagsmál

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/03/2003

26. 3. 2003

Þegar ég var u.þ.b. 11-12 ára lenti ég í slagsmálum eins og algengt var alla mína grunnskólaævi. Ég var reyndar aldrei upphafsmaður slagsmálanna og hef ég raunar aldrei verið upphafsmaður slagsmála enda alltaf verið á móti ofbeldi. Í þetta sinn var það ekki einn af aðal ,,stríðnispúkunum“ sem réðst á mig, heldur svokallaður fylgihnöttur. Litli […]

Þegar ég var u.þ.b. 11-12 ára lenti ég í slagsmálum eins og algengt var alla mína grunnskólaævi. Ég var reyndar aldrei upphafsmaður slagsmálanna og hef ég raunar aldrei verið upphafsmaður slagsmála enda alltaf verið á móti ofbeldi.

Í þetta sinn var það ekki einn af aðal ,,stríðnispúkunum“ sem réðst á mig, heldur svokallaður fylgihnöttur. Litli frændi eins aðal skúrksins sem fékk allt sitt sjálfsálit í gegnum sterka og vinsæla frænda sinn. Þessi drengur var reyndar ekki alslæmur, reyndar kunni ég afskaplega vel við hann flest grunnskólaárin, en hann átti það til að vera leiðinlegur þegar hann reyndi að komast inn í ,,vinsæla“ hópinn.

Ég man ekki lengur nákvæma ástæðu fyrir því hvers vegna þessi tilteknu slagsmál hófust. Ástæðan var alltaf svipuð. Einhver kallaði mig lúða, aumingja, fávita eða Sigga slef og stundum gat ég ekki setið á mér og bað fólk vinsamlegast um að hætta þessu. Sagði jafnvel ,,Þegiðu, láttu mig í friði“. Það má því kannski segja að slagsmálin hafi verið mér að kenna stundum. Ég hefði átt að vera búinn að læra að halda kjafti.

Hvað líður ástæðum þá réðst þessi drengur á mig í einu af porti skólans. Fljótlega lágum við í götunni í því sem manni fannst þá vera hörkuslagsmál. Ég var hræddur, dauðhræddur. Frá því ég man eftir mér hef ég verið viðkvæmur. Því byrjaði ég fljótlega að gráta og gerði mér auðvitað strax grein fyrir því að það var ekkert sérlega ,,karlmannlegt“ af mér. En þetta voru tilfinningar sem ég réð ómögulega við.

Slagsmálin, sem hófust í nærveru ,,sterka og vinsæla“ frændans breyttust mjög fljótt í fjöldaslagsmál þar sem hálfur bekkurinn hópaðist í kringum okkur og hrópaði æstur og fullur eftirvæntingar: ,,SLAGUR!, SLAGUR! SLAGUR!“. Áður en langt um leið var sterki frændinn og aðrir fylgihnettir hans farnir að sparka í mig liggjandi á götunni, en einhvernvegin man ég ekki eftir því að spörkin hafi meitt mig neitt sérstaklega. Líkamlegur sársauki drukknaði í sársaukafullum orðum bekkjarfélaga minna: ,,Aumingi, ætlarðu að láta hann berja þig?“ ,,Reyndu að berja á móti!“ ,,Þetta er leiðinlegur slagur!“ sagði einhver, rétt eins og ég væri eitthvað skemmtiatriði.

Á einhvern hátt, sem ég man ekki lengur, tókst mér að koma árásarmanninum ofan af mér og standa upp. Ég tók strax til fótanna og reyndi að flýja. Ég komst ekki langt því ,,sterki og vinsæli“ frændinn stoppaði mig af, kallaði mig öllum illum nöfnum og kvaddi mig svo að sjómannasið. Ég veit ekki lengur hvort það var höggið sem var svona öflugt eða bara sjokkið við að vera kýldur í andlitið af sterkasta gaur skólans sem olli því að ég fór að hágrenja. Andlit mitt var orðið alblóðugt, ekkert brotið líklegast bara blóðnasir, og ég búinn að ofreyna taugarnar þann daginn.

Ég hljóp því af stað grátandi, blóðugur og hræddur út af skólalóðinni og í átt að heimili mínu, sem í þá daga var mjög stutt frá skólanum. Þegar ég var kominn út fyrir skólalóðina og úr augsýn krakkanna heyrði ég kunnuglega stelpurödd hrópa á eftir mér: ,,Siggi, Siggi! Bíddu aðeins, ég þarf að tala við þig“. Ég stoppaði og snéri við, enn hálf grátandi, og sá þar hvar ein bekkjarsystir mín hljóp á eftir mér. Mér fannst hún alltaf sæt. Ég beið og reyndi að herða mig upp og þerra tárin, hugsandi að það væri fátt eins asnalegt og að grenja fyrir framan sæta stelpu. Ég man ekki margt frá grunnskólaævi minni, en þessu man ég eftir eins og það hafi gerst í gær.

Þegar hún nálgaðist mig hætti hún að hlaupa og gekk rólega að mér, alvarleg á svip. Hún gekk alveg upp að mér og sagði lágri en ákveðinni röddu: ,,Siggi, þú ert aumingi!“ og síðan hrækti hún framan i mig.

Ég fór aftur að gráta og gekk niðurbrotinn heim á leið. Meira man ég ekki eftir þessu atviki…

Deildu