Eineltisminningar 2: Ég hataði leikfimi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/03/2003

26. 3. 2003

Verstu minningar mínar úr skóla eru eflaust úr leikfimistímum. Kannski ekki beint úr tímunum sjálfum, heldur frekar úr búningsklefunum. Þegar ég var í Hólabrekkuskóla voru leikfimistímarnir haldnir í íþróttasal Fellaskóla. Ég kveið alltaf þessum tímum. Allir áttu að mæta tímanlega í búningsklefana til að klæða sig í íþróttafötin. Síðan þurftum við að bíða róleg þangað […]

Verstu minningar mínar úr skóla eru eflaust úr leikfimistímum. Kannski ekki beint úr tímunum sjálfum, heldur frekar úr búningsklefunum. Þegar ég var í Hólabrekkuskóla voru leikfimistímarnir haldnir í íþróttasal Fellaskóla. Ég kveið alltaf þessum tímum. Allir áttu að mæta tímanlega í búningsklefana til að klæða sig í íþróttafötin. Síðan þurftum við að bíða róleg þangað til að leikfimiskennarinn opnaði hurðina að salnum. Þangað til vorum við ein og án eftirlits.

Þetta var oft heillangur tími sem sumir nýttu vel til að pína samnemendur sína. Stundum var þetta rólegt og maður fékk bara heyra þetta venjulega. Hvað maður var leiðinlegur, ljótur, mikill lúði og asnalegur. Ég var reyndar ekki sá eini sem lenti í þessu. Við vorum nokkrir sem vorum nýttir sem andlegir og líkamlegir boxpúðar. Minningarnar frá þessum tímum eru óljósar og satt best að segja kann ég ekki að greina atvikin í sundur. Þetta er allt hálf þokukennt.

Mér eru þó minnisstæð þau skipti sem nokkrum bekkjarfélögum mínum datt í hug að taka okkur lúðana og troða okkur ofan í klósettið, því virtist fylgja ómæld ánægja. Einnig hef ég óljósar minningar frá því þegar reynt vara að þrýsta andliti mínu ofan í skítugt ræsi sem var á miðju gólfinu. Ef maður barði nógu vel frá sér þá létu þeir nægja að nota fötin manns eða eitthvað annað sem maður átti.

Hvernig getur svona athæfi farið fram hjá kennurum og yfirstjórn skólans, kann einhver að spyrja. Svarið í mínu tilfelli er að það gerði það ekki. Leikfimiskennarinn minn vissi t.a.m. hvað var að gerast inn í búningsklefunum, bæði vegna þess að honum hafði verið sagt frá því og vegna þess að hann varð stundum vitni að því sjálfur.

Ég man vel eftir einu skipti þar sem nokkrir bekkjarfélagar mínir höfðu dregið mig fram á gólf, héldu mér niðri og voru að pína mig. Ég öskraði af öllum lífs og sálarkröftum með þeim afleiðingum að leikfimiskennarinn opnaði annars læsta hurðina að búningsklefanum og kíkti inn. Viðbrögð hans voru sérstaklega eftirminnileg. Hann hló og lokaði hurðinni aftur…

Það þarf því ekki að koma á óvart að ég mætti oft ekki í leikfimi. Ég skrópaði iðulega eða gerði mér upp veikindi. Skólayfirvöld voru ekki ánægð með það…

Deildu